Ásfjall og Ástjörn Gönguleið

Ásfjallið er eitt besta útsýnisfjall á höfuðborgarsvæðinu þar sem vel sést yfir fjallahringinn

Nánari upplýsingar

Landshluti
Höfuðborgarsvæðið, Hafnarfjörður
Upphafspunktur
Við knatthús Hauka
Erfiðleikastig
Þrep 1 - Létt leið
1 2 3 4
Merkingar
Stikuð - merkt leið með stiku, staur eða stöng með reglulegu millibili
Tímalengd
1 - 2 klukkustundir
Yfirborð
Blandað yfirborð
Hindranir
Þrep - Trappa, stallur, stig eða lágur hjalli sem þarf að stíga upp á
Hættur
Engar hættur á leiðinni
Þjónusta á leiðinni
  • Salerni
  • Sorplosun
Salerni í íþróttahúsi Hauka
Lýsing
Óupplýst leið
Tímabil
Opið alla árstíma
Gengið er meðfram Ástjörn og upp á Ásfjall. Þrátt fyrir að fjallið sé ekki ýkja hátt er það einn besti útsýnisstaður höfuðborgarsvæðisins. Þaðan sést vel yfir byggðina, út á Faxaflóa og til fjalla og fella nær og fjær. Bílnum er lagt við Ásvallalaug eða íþróttasvæði Hauka. Þaðan er gengið meðfram veginum með Ástjörn á vinstri hönd. Farið er út af malbikuðum stígnum og gengið eftir troðnum slóða sem á sumrin er umvafinn lúpínu. Stígurinn er þrátt fyrir það augljós og greiðfær. Á toppi fjallsins er hringsjá sem gaman er að skoða enda útsýnið stórkostlegt. Þar er einnig stór ferhyrnd varða, Ásfjallsvarða. Hún var upphaflega hlaðin af sjómönnum sem kennileiti en síðar reist við af breskum hermönnum í seinni heimsstyrjöld. Gengið er áfram á stíg eftir fjallinu og svo niður meðfram byggðinni þar til komið er aftur að bílastæðinu. Ástjörn er friðland en þar verpir meðal annars flórgoði. Öll umferð innan friðlandsins er bönnuð frá 1. maí til 15. júlí. Malbikaður stígurinn sem gengið er eftir á þessari leið er hins vegar opinn allt árið. Ástjörn er einstætt náttúrufyrirbæri og einkennist af auðugu gróður- og dýralífi.