Ljótipollur - hringleið

Hringleið þar sem gengið er um stórbrotið eldfjallalandslag. Gangan hefst við Námshraun og farið er upp á Frostastaðaháls, áður en haldið er til norðurs um Jarðfallið og meðfram Frostastaðahrauni að Ljótapolli. Gengið er til baka austan Námsfjalls og um Norðurnámshraun.

Nánari upplýsingar

Landshluti
Suðurland, Rangárþing Ytra
Upphafspunktur
Námshraun við Landmannalaugar
Erfiðleikastig
Þrep 2 - Miðlungs leið
1 2 3 4
Merkingar
Stikuð - merkt leið með stiku, staur eða stöng með reglulegu millibili
Tímalengd
3 - 4 klukkustundir
Yfirborð
  • Möl
  • Gras
  • Stórgrýtt
  • Hraun
  • Blandað yfirborð
Hættur
  • Berghrun - Grjót getur fallið úr klettum, skriðum og fjallshlíðum
  • Vindstrengir - Leið þekkt fyrir kröftuga vindstrengi
Þjónusta á leiðinni
  • Landvarsla
  • Tjaldsvæði
  • Salerni
Lýsing
Óupplýst leið
Tímabil
Vanalega opið frá því um miðjan júní og fram í október.
Ef byrjað er í Landmannalaugum er haldið til norðurs eftir veginum að Námshrauni, um 1500 m leið. Farið er yfir hraunið og er þá komið að vegvísi á vinstri hönd, þar sem stikaða leiðin hefst. Héðan liggur leiðin öll í stórbrotnu eldfjallalandslagi sem að miklu leyti var mótað í Veiðivatnagosinu 1477. Frá veginum er fyrst gengið í lækjarfarvegi áður en haldið er á brattann upp Frostastaðaháls. Þar uppi tekur við frábært útsýni yfir Frostastaðavatn, auk þess sem þar er að finna gíga sem Námshraun rann úr. Seigt hraunið rann niður í vatnið og myndar þar eyjar og hólma. Leiðin fer héðan til norðurs upp á hæsta punkt hálsins áður en landið tekur að lækka niður í stóra gígskál sem nefnist Jarðfallið, þar sem gígurinn Stútur er. Áfram er haldið til norðurs, upp úr Jarðfallinu og er þá stutt í að komið er að Frostastaðahrauni. Gengið er meðfram hrauninu á um 1500 m kafla, en það svo þverað skammt frá Ljótapolli. Farið er upp á gígbarm Ljótapolls vestan við gígaröð sem þar er og eftir uppgönguna tekur við útsýni yfir Ljótapoll. Hringleiðin fer hér eftir gígbarminum stuttan spöl til austurs áður en farið er niður, nú austan við gígaröðina. Leiðin til baka er á flötu landi austan við fjallið Norðurnám og meðfram Norðurnámshrauni að Jarðfallinu. Stikurnar leiða göngufólk að veginum sunnan Stúts og er vegurinn eltur til baka að upphafsreit við Námshraun eða Landmannalaugar.