Mælaborð ferðaþjónustunnar opnað
Mælaborð ferðaþjónustunnar er ný vefsíða þar sem tölulegar upplýsingar um atvinnugreinina eru birtar með myndrænum hætti. Þetta er í fyrsta skipti sem þessar upplýsingar eru aðgengilegar á einum og sama stað. Mælaborð ferðaþjónustunnar er unnið á vegum Stjórnstöðvar ferðamála í samstarfi við ráðgjafarfyrirtækið Deloitte og er fjármagnað af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu.
Byrjað á lykilupplýsingum
Meðal þess sem mælaborðið sýnir er fjöldi ferðamanna, framboð gistirýmis, nýting hótelherbergja, dreifing, nýting og tekjur Airbnb gistingar, komur og dreifing skemmtiferðaskipa, fjöldi starfsmanna í atvinnugreininni, gjaldeyristekjur og fjöldi bílaleigubíla. Þessar tölur má skoða nánar eftir árum, landsvæðum, sveitarfélögum, atvinnugreinum, þjóðernum o.fl.
Uppfært jafnharðan
Upplýsingar mælaborðsins eru byggðar á gögnum frá opinberum stofnunum og rannsóknaraðilum. Tölurnar eru uppfærðar jafnharðan og nýjar berast. Í flestum tilfellum sýna gögnin þróun síðastliðins áratugar fram á daginn í dag.
Verður þróað áfram
Þær upplýsingar sem birtast í mælaborðinu fyrsta kastið eru aðeins hluti þess sem áformað er að sýna. Mælaborðið verður í stöðugri þróun og viðræður standa yfir við fjölmargar stofnanir um birtingu á fleiri gögnum sem varða ferðaþjónustuna. Meðal þeirra sem leggja mælaborðinu til gögn í þessari fyrstu útgáfu eru Hagstofan, Ferðamálastofa, Airdna og Samsýn.
Mæta brýnni þörf fyrir aðgengilegar upplýsingar
Markmiðið með mælaborði ferðaþjónustunnar er að mæta brýnni þörf fyrir aðgengilegar og áreiðanlegar upplýsingar á einum stað um vöxt og þróun þessarar stærstu atvinnugreinar landsins. Einstaklingar, fyrirtæki, fjárfestar, sveitarfélög, ríkisvaldið og fleiri aðilar hafa lengi kallað eftir slíkum gögnum til greiningar og ákvarðanatöku í ferðaþjónustunni. Til viðbótar við þær upplýsingar sem birtast í mælaborðinu verður hægt að fá aðgengi að undirliggjandi gögnum til frekari rannsókna.
Nánari upplýsingar
Hægt að nálgast mælaborðið á netinu á slóðinni https://www.maelabordferdathjonustunnar.is/