Perlan og Tanni Travel í Vakann
Tvö öflug fyrirtæki bættust á dögunum í hóp gæðafyrirtækja Vakans. Þetta eru Perla norðursins og austfirska ferðaskrifstofan Tanni Travel.
Perlan í Öskjuhlíð
Perla norðursins setti upp og rekur hinar vinsælu náttúru- og upplifunarsýningar í Perlunni í Öskjuhlíð undir nafninu Perlan – Wonders of Iceland. Má með sanni segja að þetta einstaka mannvirki á einum mest áberandi stað höfuðborgarinnar hafi öðlast nýtt líf við tilkomu þeirra.
„Við erum alveg gríðarlega stolt af þessari vottun. Sýningin í Perlunni snýr fyrst og fremst að einstakri náttúru Íslands og finnst okkur mikilvægt að leggja okkar af mörkum til samfélags- og umhverfismála. Leiðin að vottun Vakans var gefandi og lærdómsrík fyrir okkur öll og varð til þess að bæta ýmsa starfshætti innan fyrirtækisins. Við leggjum mikla áherslu á að vera fyrirmyndar fyrirtæki á öllum sviðum og höldum ótrauð áfram þann veginn,“ segir Margrét Th. Jónsdóttir framkvæmdasjóri.
Agustina Sidders leiddi verkefnið við innleiðingu Vakanns og heldur hún á viðurkenningarskjalinu. Aðrir á myndinni, talið frá vinstri: Aðalbjörn Unnar Jóhannsson, Gunnar Ólafsson, Agustina Sidders, Victoria Ballester, Steffi Meisl, Dolores Villar del Saz.
Rótgróið fjölskyldufyrirtæki á Austurlandi
Tanni Travel er rótgróið fjölskyldufyrirtæki, staðsett á Austurlandi, sem rekur ferðaskrifstofu og hópbifreiðar. Fyrirtækið býður uppá heildarlausnir fyrir hópa, skipuleggur ferðir um allt Ísland en sérhæfir sig í Austurlandi. Viðskiptavinir Tanna Travel eru bæði Íslendingar og erlendir ferðamenn.
Að sögn Díönu Mjallar Sveinsdóttur framkvæmdastjóra er hverju fyrirtæki mikilvægt að líta inn á við og horfa á sig gagnrýnum augum til uppbyggingar. „Að leggja í vinnu við að innleiða Vakann er krefjandi og öllum hollt. Eftir stendur sterkara fyrirtæki sem stuðlar að bættum gæðum í ferðaþjónustu og eflir umhverfisvitund starfsmanna og viðskiptavina. Við leggjum okkur fram við að vera leiðandi í ferðaþjónustu á Austurlandi og er það von okkar að sem flest fyrirtæki á Austurlandi innleiði Vakann,“ segir Díanna Mjöll.
„Á bak við þessa vottun er mikil vinna starfsmanna Tanna Travel og erum við stolt af þessum tímamótum. Við óskum starfsmönnum okkar til hamingju og hlökkum til framhaldsins þar sem við setjum okkur háleit markmið með gæða- og umhverfismál í fyrirrúmi.,“ bætir hún við.
Díana Mjöll Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Tanna Travel fyrir miðju. Vinstra megin við hana er Sigurbjörn sem er yfirmaður bíladeildar og hægra megin Ragnar Þórðarson frá Vottunarstofunni Tún.