100.700 ferðamenn í febrúar
Um 100.700 erlendir ferðamenn fóru frá landinu í febrúar síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 30.300 fleiri en í febrúar á síðasta ári. Aukningin nemur 42,9% milli ára.
Um er að ræða talsvert meiri aukningu á milli ára en janúar síðastliðnum en þá fjölgaði ferðamönnum um 23,6%. Fjölgunin það sem af er ári er 33,8% miðað við janúar og febrúar 2015.
Bretar 43% ferðamanna í febrúar
Um 81% ferðamanna í febrúar árið 2016 voru af tíu þjóðernum. Bretar voru langfjölmennastir eða 42,8% af heildarfjölda en næstir komu Bandaríkjamenn (16,2%). Þar á eftir fylgdu Kínverjar (4,4%), Þjóðverjar (3,7%), Frakkar (3,6%), Japanir (2,7%), Norðmenn (2,2%), Hollendingar (2,0%), Danir (1,7%) og Svíar (1,7%).
Af einstaka þjóðernum fjölgaði Bandaríkjamönnum, Bretum og Kínverjum mest milli ára en 13.873 fleiri Bretar komu í febrúar í ár en í sama mánuði í fyrra, 7.300 fleiri Bandaríkjamenn og 2.345 fleiri Kínverjar. Þessar þrjár þjóðir báru að mestu uppi aukninguna í febrúar milli ára eða 77,7% af heildaraukningu.
Ferðamönnum fækkaði hins vegar frá nokkrum þjóðum, m.a. Danmörku, Noregi og Sviss.
Rúmlega sjöföldun Breta og Norður Ameríkana
Þegar litið er til fjölda ferðamanna febrúarmánuði má sjá verulega fjölgun frá árinu 2010. Um er að ræða nærri fimmfalt ferðamenn en árið 2010. Fjöldi ferðamanna frá Bretlandi og Norður Ameríku meira en sjöfaldast, fjöldi ferðamanna frá Mið- og S-Evrópu meira en þrefaldast og ferðamönnum frá löndum sem lenda í hópnum annað nærri fimmfaldast. Ferðamönnum frá Norðurlöndunum hefur hins vegar fjölgað í minna mæli.
Hlutfall Breta eykst en Norðurlandabúa minnkar
Samsetning ferðamanna hefur breyst mikið frá árinu 2010 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar. Í febrúar síðastliðnum voru Bretar um 43% ferðamanna en innan við þriðjungur árið 2010. Norðurlandabúar voru um 22% ferðamanna árið 2010 en árið 2016 var hlutfall þeirra komið í 6%. Hlutfall N-Ameríkana í febrúar er hærra í ár en fyrri ár en hlutfall Mið- og S-Evrópubúa hins vegar lægra en árin á undan. Hlutfall ferðamanna í febrúar frá öðrum mörkuðum er ennfremur mun hærra í ár en árin á undan.
Ferðir Íslendinga utan
Um 29 þúsund Íslendingar fóru utan í febrúar síðastliðnum eða 5.500 fleiri en árið 2015. Um er að ræða 23,4% fleiri brottfarir en í febrúar 2015.
Nánari upplýsingar
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.