Fara í efni

Áfram stöðugleiki í evrópskri ferðaþjónustu á 2. ársfjórðungi 2025

Áfram stöðugleiki í evrópskri ferðaþjónustu á 2. ársfjórðungi 2025
  • Ferðaþjónustan í Evrópu sýndi stöðugan en hóflegan vöxt á öðrum ársfjórðungi 2025, með 3,3% aukningu á ferðamönnum og 0,7% samdrætti í gistinóttum miðað við sama tímabil í fyrra.
  • Eftirspurn eftir sól- og strandfríum utan háannar er að aukast, líklega vegna tilfærslu páska og breyttra ferðavenja.
  • Evrópskir áfangastaðir njóta vaxandi áhuga frá Kína, ásamt áframhaldandi miklum straumi frá Bandaríkjunum.

Ferðaþjónustan í Evrópu hélt áfram að standa sig vel á öðrum ársfjórðungi 2025 og sýnir mikinn seiglu þrátt fyrir efnahagsþrýsting og óvissu í alþjóðamálum. Samkvæmt nýjustu skýrslu Evrópska ferðamálaráðsins - ETC, “European Tourism: Trends & Prospects” fjölgaði þeim sem ferðustu milli landa heilt yfir um 3,3% miðað við sama tímabil 2024. Gistinætur drógust hins vegar lítillega saman, eða um 0,7%. ETC telur líklegra að það vegna þess að páskar voru í apríl í ár en mars í fyrra – fremur en skorts á eftirspurn.

Sé litið til Íslands þá vantar enn tölur fyrir júní til að taka saman 2. ársfjórðung en mælingar Ferðamálastofu sýndu 6,5% fjölgun í brottförum erlendra farþega í apríl og 1,3% í maí. Júnítölurnar eru væntanlegar á næstu dögum. Gistináttalaning Hafstofunnar sýndi 10,5% fjölgun gistinótta í apríl og maí á milli ára en Íslendingar eru inn í þeirri tölu.

Hærra verð á ferðatengdri þjónustu gæti haft áhrif í þá átt að fólk haldi fastar um budduna, en rannsóknir sýna jafnframt að heildarútgjöld vegna ferða muni líklega hækka um 13% árið 2025 miðað við árið á undan. Ferðalangar reyna jafnan að fá sem mest fyrir peninginn og gætu minna þekktir áfangastaðir með samkeppnishæft verð notið góðs af því, sem gæti líka minnkað álag á vinsælustu ferðamannastaði. 


Sól- og strandferðir knýja eftirspurn utan háannar

Leit að fríum að vori jókst um 36% frá fyrra ári meðal Evrópuferðaþjóða, sem bendir til aukinnar eftirspurnar eftir ferðum utan háannar, einkum til sól- og strandáfangastaða. Færsla páska fram í apríl stuðlaði að þessari þróun, en hún endurspeglar líka breyttar venjur ferðamanna sem vilja forðast of mikinn hita og troðning á sumrin.

  • Malta sá 19% aukningu í komum, studda með betri flugsamgöngum.
  • Kýpur bætti við sig 16%, þökk sé góðri staðsetningu og heilsársáhugaverðum áfangastöðum.
  • Stærri sumarstaðir eins og Spánn (+7%) og Portúgal (+3%) nutu líka góðs af þessari þróun.
  • Sem fyrr segir var 6,5% fjölgun í brottförum erlendra farþega hérlendis í apríl og 1,3% í maí.

Mið- og Austur-Evrópskir áfangastaðir, þar á meðal Lettland (+16%), Litháen (+15%) og Ungverjaland (+14%), sýndu einnig sterkan vöxt á milli ára, líklega vegna betri flugsamgangna. Þetta bendir til áframhaldandi bata eftir covid-faraldurinn og áhrifa Rússlands-Úkraínu stríðsins.


Verðviðkvæmni meðal ferðamanna – en útgjöld aukast

Verð á ferðatengdri þjónustu hefur hækkað frá í fyrra, og frekari hækkanir eru líklegar yfir sumarmánuðina, sem gæti haft áhrif á val ferðamanna á áfangastöðum. Til dæmis hafa alþjóðleg flugfargjöld til Suður-Evrópu hækkað um 5% á fyrstu fjórum mánuðum 2025 miðað við árið áður, en kostnaður við pakkatilboð hefur hækkað um 7%.

Samt sem áður hafa suður-evrópskir áfangastaðir – þar á meðal Spánn, Kýpur og Malta – tilkynnt um verulega auknar tekjur af ferðamönnum á fyrstu mánuðum ársins. Þetta bendir til þess að ferðamenn séu að eyða meira utan háannar. Áætlað er að heildarútgjöld ferðamanna í Evrópu verði um 13% hærri í ár en 2024. Það er meiri vöxtur en sem nemur fjölgun ferðamanna – sem þýðir að meðaltalsútgjöld á ferð hafa aukist.

Einnig eru vísbendingar hérlendis um auka neyslu ferðamanna. Samkvæmt sammtímavísum Hagstofunnar námu tekjur af erlendum ferðamönnum á fyrsta ársfjórðungi 2025 108,5 milljörðum króna samanborið við 103,8 milljarða á fyrsta ársfjórðungi 2024. 


Fjærmarkaðir sýna seiglu þrátt fyrir alþjóðlega óvissu

Hjá flestum áfangastöðum sem skráðu gögn er fjölgun á milli ára í komum frá Bandaríkjunum, þrátt fyrir áhyggjur af eftirspurn yfir Atlantshafið. Sérstaklega hefur verið mikil aukning á Norðurlöndunum, með 35% fleiri gistinætur í Noregi og 24% aukningu í Danmörku. Í Suður-Evrópu hafa áfangastaðir eins og Króatía (+18%), Svartfjallaland (+17%) og Grikkland (+16%) einnig notið góðs af auknum komum Bandaríkjamanna.

Þetta er stutt af íslenskum tölum en 23,9% fleiri brottfarir Bandaríkjamanna voru í maí sl. en í sama mánuði í fyrra á meðan fjöldinn í apríl var svipaður.

Auk þess hefur efnahagsleg óvissa líklega stuðlað að lægri fargjöldum á ýmsum flugleiðum, þar á meðal milli Bandaríkjanna og Spánar, Ítalíu og Bretlands, sem gæti styrkt áframhaldandi vöxt í komum Bandaríkjamanna til Evrópu í sumar.

Ferðir frá Kína sýna sterkari bata árið 2025, þar sem öll lönd sem skráðu gögn tilkynntu um fjölgun í komum eða gistinóttum samanborið við 2024. Eftirspurn eftir smærri áfangastöðum eins og Króatíu (+7%), Eistlandi (+15%) og Rúmeníu (+20%) jókst á öðrum ársfjórðungi, á meðan endurheimt stærri áfangastaða heldur áfram og er vænst frekari bata með auknum flugsamgöngum frá kínverskum borgum til Parísar og Madrid. Hérlendis varð veruleg fjölgun Kínverja á þeim tveimur mánuðum annars ársfjórðungs sem tölur liggja fyrir um, eða úr 8.800 í 14.500.

Endurkoma kínverskra ferðamanna til Evrópu er líkleg til að halda áfram, knúin áfram af hækkandi tekjum, betri flugtengingum og hagstæðum ferðastefnum. Þessi þróun gæti einnig verið styrkt af tregðu meðal Kínverja til að ferðast til Bandaríkjanna árið 2025, vegna spennu í alþjóðamálum, harðari vegabréfaeftirlits og áhyggja af öryggismálum.

Skýrslan í heild