Fara í efni

Hættuatvik og slys í íslenskri náttúru birt í Mælaborði ferðaþjónustunnar

Ferðamálastofa birtir nú í fyrsta sinn í Mælaborði ferðaþjónustunnar samantekt á hættuatvikum og slysum sem tengjast ferðafólki og útivistarfólki í íslenskri náttúru.

 

Nær yfir 839 atvik á síðustu 25 árum

Samantektin var unnin af Ferðamálastofu og byggir á atvikum sem fundust með leit í Google og á völdum vefmiðlum. Markmiðið er að varpa ljósi á þær hættur sem geta fylgt ferðum um íslenska náttúru og  stuðla að betri yfirsýn yfir hættuatvik og slys. Greiningin einskorðaðist að mestu leyti við atvik þar sem björgunaraðilar komu að málum og náði yfir tímabilið 2000-2025. Alls voru 839 atvik tekin til skoðunar.

Eins og staðan er í dag vantar miðlæga og samræmda skráningu á slíkum atvikum hér á landi. Ferðamálastofa er að vinna að því að koma á miðlægu atvikaskráningarkerfi fyrir ferðaþjónustuna sem gerir það að verkum að í framtíðinni verði hægt að birta mun nákvæmari upplýsingar. 

 

Gefur ekki tæmandi eða nákvæma tölfræðilega mynd

Gögnin eru flokkuð eftir orsökum hættuatvika og slysa, alvarleika þeirra og staðsetningu. Þau veita innsýn í hvar og hvers konar atvik hafa átt sér stað á undanförnum árum. Gögnin veita þó hvorki tæmandi né nákvæma tölfræðilega mynd af umfangi hættuatvika og slysa í íslenskri náttúru, né yfirlit yfir þróun þeirra. Auk þess ná þau ekki til umferðaslysa, aksturstengdra óhappa í ám og vötnum, flugslysa og skíðaslysa á skilgreindum skíðasvæðum. 

Umferðarslys eru undanskilin en í Mælaborðnu má einnig nálgast yfirlit um umferðarslys erlendra ferðamanna í sér samantekt.

 

Ábendingar vel þegnar

Ábendingar um atvik sem kunna að eiga heima í gagnasafninu má senda til Ferðamálastofu upplysingar@ferdamalastofa.is 

Opna lýsigögn um gagnasafnið (PDF)

 

Athugið að hnitasetning byggir á umfjöllun um atvikin og endurspeglar nálgun fremur en nákvæma staðsetningu.