Nýtt verkfæri í skipulagsvinnu - Mögulegir viðkomustaðir ferðafólks kortlagðir og metnir
Ferðamálastofa hefur birt gögn sem söfnuðust í hinu viðamikla verkefni Kortlagning auðlinda íslenskrar ferðaþjónustu en það er meðal aðgerða sem kveðið er á um í Ferðamálaáætlun 2011-2020. Um er að ræða metnaðarfullt verkefni sem nýtist við þróun og uppbyggingu íslenskrar ferðaþjónustu, bæði opinberum stofnunum sem og einkaaðilum.
Hvar liggja tækifærin?
Verkefnið miðar að því að kortleggja, með aðstoð landfræðilegra upplýsingakerfa, auðlindir ferðaþjónustu og helstu innviði svæða í samstarfi við heimafólk og greina þannig með myndrænum hætti hvar auðlindir ferðaþjónustunnar og tækifæri liggja til framtíðar. Alta ehf. vann verkið á grundvelli útboðs sem efnt var til í samvinnu við Ríkiskaup vorið 2014 en Rannsóknamiðstöð ferðamála hafði áður unnið forverkefni sem tók til átta sveitarfélaga á Suðurlandi. Þá hafa Landmælingar Íslands einnig setið í stýrihóp verkefnisins og veitt ráðgjöf.
Kortlagning staða
Meginmarkmið verkefnisins er að kortleggja staði þar sem upplifa má staðbundna og sérstaka eiginleika í náttúrufari eða menningu. Í gögnum um hvern stað kemur fram í hvaða flokka upplifanir á staðnum falla (fjörur, fossar, gil og gljúfur, o.s.frv.), mat á aðdráttarafli staðarins auk upplýsinga um aðgengi, aðstöðu o.fl. Skráningin gefur áhugaverðar vísbendingar um sérkenni svæða sem hugsanlega má nýta og/eða ástæða er til að vernda.
Matið í höndum heimafólks
Til að tryggja gæði gagnanna voru sveitarfélög og aðrir hagsmunaaðilar út um landið beðnir um að tilnefna samráðsfulltrúa sem komu að skráningu, mati og yfirferð upplýsinga. Hlutverk fulltrúa var að meta skráða staði út frá aðgengi og aðdráttarafli, lagfæra staðsetningu, fara yfir skráðar upplýsingar um hvern stað og benda á staði sem ekki voru þegar skráðir. Matið fór fram í gegnum sérstakt vefviðmót. Komu um 350 manns um allt land að þessari vinnu sumarið 2014 og fá sérstakt þakklæti fyrir framlag sitt.
Vefsjá með gögnum
Hér að neðan er hlekkur á vefsjá með gögnunum. Birtingu upplýsinga um hluta staðanna var frestað, t.d. staða í þéttbýli og þeirra sem taldir eru viðkvæmir og þola illa ágang.
Hliðarafurð verkefnisins er síðan vefsjá þar sem skoða má þá staði sem nefndir eru í Íslendingasögunum. Er það ekki síður áhugaverð kortlagning sem nýst getur í ferðaþjónustu.
Hagnýting gagnanna
Öllum er heimilt að nýta upplýsingarnar að vild enda sé heimilda getið í samræmi við reglur og venjur þar um. Mögulegt er að fá gögnin afhent og tengja þau inn í landupplýsingakerfi, aðrar vefsjár og önnur forrit t.d. Google Earth. Gögnunum er miðlað með Geoserver landupplýsingaþjóni sem býður upp á mjög fjölbreytta miðlun, bæði með kortaþjónustu (WMS) og fitjuþjónustu (WFS). Geoserver miðlar gögnum í samræmi við opna staðla sem Open Geospatial Consortium (OGC) hefur þróað.
Lifandi verkfæri
Litið er á gagnagruninn sem lifandi tæki sem getur haldið áfram að þróast og eflast á næstu misserum. Vakin er athygli á að þetta er ekki hefðbundinn ferðavefur heldur gagnagrunnur ætlaður fyrst og fremst til stefnumótunar og skipulagsvinnu innan ferðaþjónustu. Núverandi viðmót er því aðeins fyrsta útgáfa og er þeim sem vilja koma með ábendingar eða leiðréttingar bent á að hafa samband með því að senda póst á netfangið kortlagning@ferdamalastofa.is