Ábyrg þróun ferðaþjónustu á Reykjanesi í sátt við náttúru og samfélag
Markaðsstofa Reykjaness og Reykjanes Geopark efndu til opinna íbúafunda í öllum sveitarfélögum á Suðurnesjum fyrstu vikuna í febrúar í samstarfi við sveitarfélögin þar sem farið var yfir stöðu ferðamála í landshlutanum, verkefnin sem eru í gangi og þróun ferðaþjónustunnar.
Góð mæting á opna fundi
Fundirnir eru liður í vinnu við áfangastaðaáætlun Reykjaness þar sem þátttaka íbúa og samfélagsins er mikilvæg í frekari mótun og þróun ferðaþjónustu svæðisins. Fimm fundir voru haldnir og var mæting afar góð, en yfir 150 manns mættu og tóku þátt í umræðunum.
Farið yfir áherslur og tækifæri
Á fundunum fóru fulltrúar markaðsstofunnar yfir áherslur í markaðssetningu svæðisins og verkefni sem starfsmenn stofunnar vinna að. Starfsmaður Reykjanes Geopark talaði svo um uppbyggingu áningarstaða, vöruþróun og tækifærin sem liggja í því að eiga svæði á lista Unesco Global Geopark. Loks fóru fulltrúar sveitarfélaganna yfir sín verkefni sem snúa að ferðamálum á einn eða annan hátt. Eftir þennan inngang var opnað fyrir spurningar úr sal og umræður um ferðamál hófust í kjölfarið.
Mikilvægt að svæðið marki sér stefnu í ferðamálum
Af umræðunum sem sköpuðust mátti finna að mikill áhugi er á ferðamálum og hvernig þau málefni þróast á svæðinu og innan sveitarfélaganna. Ferðaþjónusta hefur vaxið og þróast hratt á undanförnum árum og mikilvægt er að svæðið og sveitarfélög marki sér stefnu í ferðamálum og uppbyggingu áningarstaða svo hægt sé að taka ákvarðanir varðandi framtíðarskipulag byggða á góðum grunni.
Á vef Ferðamálastofu eru reglulega fluttar fréttir af vinnu við gerð áfangastaðaáætlana og nánari upplýsingar um verkefnið má einnig nálgast .