Fara í efni

Gott aðgengi í ferðaþjónustu

Stelpur í HörpuMilljónir manna um víða veröld hafa áhuga á því að ferðast, hafa bæði tíma og fjármuni til að gera það en halda sig heima vegna þess að aðgengi fyrir fatlaða og hreyfihamlaða er víða ábótavant.

Tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila

Samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) búa um 15% jarðarbúa (1 milljarður manna) við einhvers konar fötlun. Aðgengi fyrir alla að aðstöðu og þjónustu í ferðaþjónustu er mannréttindamál og ætti að vera hluti af ábyrgri og sjálfbærri starfsemi fyrirtækja.  En gott aðgengi er ekki bara mannréttindi. Það er einnig viðskiptatækifæri fyrir áfangastaði og fyrirtæki að geta tekið vel á móti öllum gestum, hvort sem þeir eru fatlaðir, hreyfihamlaðir, aldraðir eða með aðrar sérstakar þarfir.  

„Samkvæmt íslenskum lögum og reglugerðum á að gæta þess sérstaklega að aðgangur fatlaðs fólks að manngerðu umhverfi sé til jafns við aðra.“

Gott aðgengi í ferðaþjónustu 

Í samvinnu við Húsnæðis- og mannvirkjastofnun, Sjálfsbjörg og ÖBÍ réttindasamtök hefur Ferðamálastofa sett af stað fræðslu-og hvatningarverkefni undir nafninu Gott aðgengi. Með verkefninu vilja samstarfsaðilar bregðast við því sem lengi hefur verið kallað eftir, en það er að bæta aðgengi fyrir fatlaða í ferðaþjónustu.

Gott aðgengi fyrir fólk með fötlun leiðir af sér betra aðgengi fyrir alla.

lógó

Verkefninu er ætlað að vekja athygli forsvarsmanna fyrirtækja í ferðaþjónustu á þessum mikilvæga málaflokki og aðstoða ferðaþjónustuaðila við að taka á öruggan og ábyrgan hátt á móti hreyfihömluðum og fötluðum einstaklingum þannig að aðstaða og þjónusta sé í samræmi við þarfir þeirra.

  1. Verkefnið, sem er sjálfsmat og verkfæri fyrir ferðaþjónustuaðila, byggir á trausti og vilja til að sýna ábyrgð í verki til að þjóna þessum markhópi sem best.
  2. Verkefninu er ætlað að hjálpa ferðaþjónustuaðilum að sýna með áþreifanlegum hætti að þeim er umhugað um alla gesti og gera sitt besta til að taka vel á móti þeim.
  3. Ferðaþjónustuaðilar sem telja sig uppfylla allar lágmarkskröfur um aðgengismál í sjálfsmatinu fá viðeigandi merki verkefnisins. Í boði eru þrjú merki; aðgengi fyrir fatlaða/ hreyfihamlaða, aðgengi fyrir sjónskerta og blinda og aðgengi fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa.
  4. Viðmið fyrir fatlaða/hreyfihamlaða eru grunnviðmið. Allir sem taka þátt í Góðu aðgengi þurfa a.m.k. að uppfylla lágmarkskröfur sem þar eru settar fram. Til viðbótar eru sérstök viðmið vegna aðgengis fyrir heyrnarskerta og heyrnarlausa og fyrir sjónskerta og blinda sem eru valkvæð.
  5. Sýnum að Ísland er tilbúið að taka á móti öllum gestum sínum af fagmennsku og ábyrgð!
  6. Verkefnið hlaut hvatningarverðlaun ÖBÍ árið 2022.

Fjarkynningar fyrir ferðaþjónustuaðila

Ferðamálastofa býður ferðaþjónustuaðilum upp á stuttar kynningar á þessu nýja verkefni, sem hlaut hvatningarverðlaun ÖBÍ árið 2022. Næsta kynning verður haldin þann 27. nóvember 2024 og fer að þessu sinni fram á ensku. Kynningin mun fram í gegnum fjarfundabúnaðinn Teams og verður hlekkur sendur á skráða þátttakendur. Hámark 12 þátttakendur geta verið á hverri kynningu. 

Skrá mig á kynningu 27. nóvember

Eftir sem áður er hægt að hafa samband við okkur í gegnum netfangið gottadgengi@ferdamalastofa.is og fá leiðbeiningar og ráðgjöf.    

Gott aðgengi er ekki bara mannréttindamál. Það er einnig viðskiptatækifæri fyrir áfangastaði og fyrirtæki að geta tekið vel á móti öllum gestum, hvort sem þeir eru fatlaðir, hreyfihamlaðir, aldraðir eða með aðrar sérstakar þarfir.

Hverjir geta tekið þátt?

gott aðgengiÍ upphafi er verkefnið ætlað gististöðum, veitingastöðum, bað- og sundstöðum, ráðstefnuaðstöðu og söfnum. Stefnt er á að fyrirtæki í annars konar starfsemi í ferðaþjónustu geti tekið þátt síðar. Fyrirtæki sem vilja taka þátt þurfa að vera skráð í gagnagrunn Ferðamálastofu um ferðaþjónustuaðila.

Ef fyrirtækið er ekki skráð í gagnagrunninn er hægt að óska eftir skráningu en skráning í grunninn er ókeypis.

Allar nánari upplýsingar um skráninguna er hægt að fá með því að senda póst á ferdalag@ferdamalastofa.is.   

Kynningarmyndbönd

Hér að neðan eru kynningar- og fræðslumyndbönd sem unnin hafa verið í tengslum við verkefnið. Annars vegar almenn kynning og hins vegar fræðslumyndbönd fyrir framlínustarfsfólk. Myndböndin eru tæplega fjórar mínútur að lengd.

Reynslusögur þátttakenda

Í myndbandinu að neðan segja fulltrúar Sky Lagoon og Baklands að Lágafelli frá reynslu sinni og af hverju þau hófu þessa vegferð.

Merki verkefnisins

Merki fyrir aðgengi

 

Hvað þarf að gera?

  1. Fólk við hoppukastalaFyrsta skrefið er að kynna sér viðmiðin vandlega, ásamt leiðbeiningariti sem fylgir verkefninu. Viðmiðin eru á word formati sem hægt er að vista eða prenta út.
  2. Gera má ráð fyrir því að í flestum tilfellum þurfi að gera einhverjar ráðstafanir til að tryggja að aðgengi fyrir fatlaða/hreyfihamlaða sé fullnægjandi. Það þarf að skoða, mæla, meta, fræða og bæta. Þetta gæti tekið nokkurn tíma.
  3. Að þessu loknu er sjálfsmatið fyllt út.   
  4. Þegar allar lágmarkskröfur eru uppfylltar er farið aftur inn á vef Ferðamálastofu og þátttaka staðfest (sjá neðst á þessari síðu). Um leið þarf að samþykkja skilmála  
  5. Fyrirtæki fá þá send viðeigandi aðgengismerki og skjalið Loforð til fatlaðra og hreyfihamlaðra viðskiptavina Pledge to our customers with disabilities. 
  6. Birting merkis t.d. á vef fyrirtækisins, er yfirlýsing eða loforð til viðskiptavina um að aðgengi fyrir hreyfihamlaða og fatlaða sé fullnægjandi. 
  7. Fyrirtæki sem taka þátt í verkefninu eru auðkennd með viðeigandi aðgengismerki/merkjum, m.a. á www.ferdalag.is og á www.visiticeland.com.
  8. Ef spurningar vakna varðandi verkefnið má hafa samband við Ferðamálastofu með því að senda tölvupóst á netfangið gottadgengi@ferdamalastofa.is Varðandi sértækar spurningar um aðgengismál má hafa samband við tengilið hjá Sjálfsbjörgu; margret@sjalfsbjorg.is. Varðandi spurningar um sjónrænt aðgengi, hljóðvist o.fl. má hafa samband við stefan@obi.is
Fyrirtæki sem taka þátt þurfa að uppfylla a.m.k. lágmarkskröfur í viðmiðum fyrir fatlaða/hreyfihamlaða. Til viðbótar eru sérstök viðmið vegna aðgengis fyrir blinda og sjónskerta og aðgengis fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta sem fyrirtæki hafa val um að bæta við.

 

Hver sér um eftirlit?

Í baðlóniÞar sem um sjálfsmat er að ræða þá er ekki haft eftirlit með því að fyrirtæki uppfylli viðeigandi kröfur. Segja má að viðskiptavinirnir séu eftirlitsaðilar þar sem þeim gefst tækifæri á að senda inn umsagnir til Ferðamálastofu um frammistöðu fyrirtækja sem taka þátt í verkefninu varðandi aðgengismál, vilji þeir hrósa fyrir það sem vel er gert eða benda á það sem betur má fara.

Viðkomandi fyrirtæki fær sent afrit af þeim umsögnum sem kunna að berast. Ef umsögn er neikvæð áskilur Ferðamálastofa sér rétt skv. skilmálum til að kalla eftir gögnum og ennfremur, ef ekki er brugðist við með fullnægjandi hætti, að fjarlægja aðgengismerki fyrirtækisins úr gagnagrunni ferðaþjónustunnar.

Tekið skal fram að þátttaka í verkefninu Gott aðgengi er hvorki viðurkenning né vottun. Eins og áður hefur komið fram þá er þetta fyrst og fremst loforð til viðskiptavina um að lágmarksviðmið varðandi aðgengi séu uppfyllt.

Hvað kostar að taka þátt?

kona í ZiplineÞað kostar ekkert að taka þátt í verkefninu en hugsanlega þarf að fara í einhverjar framkvæmdir hjá fyrirtækinu til að uppfylla lágmarkskröfur. Einnig má gera ráð fyrir vinnu við eftirfarandi:

  • Að kynna sér viðmið og meðfylgjandi leiðbeiningar.
  • Að fræða og leiðbeina starfsmönnum.
  • Aðrar ráðstafanir sem gera þarf á hverjum stað.

Viðmið, leiðbeiningar o.fl. 

Viðmið:

Skilmálar og loforð:

Leiðbeiningar:

Góðar ábendingar

Annað gagnlegt efni og upplýsingar

  • Flest sveitarfélög hafa skipað aðgengisfulltrúa. Hafa má samband við sveitarfélög til að fá upplýsingar um aðgengisfulltrúa á hverjum stað.
  • Scandic hótelkeðjan leggur áherslu á að koma til móts við þarfir allra hótelgesta og býður því upp á aðgengileg hótel. Á heimasíðu Scandic hótelanna má finna góðar upplýsingar um aðgengismál - Hægt að nýta sem fyrirmynd.

Sjálfsmat uppfyllt - staðfesting þátttöku

Þegar sjálfsmatið fyrir Gott aðgengi í ferðaþjónustu hefur verið fyllt út og öll lágmarksviðmið, sem eiga við starfsemina, eru uppfyllt er smellt á formið hér að neðan til að staðfesta þátttöku.

Mynd af hjólastól í malbiki

Opna form til að staðfesta þátttöku

Þegar staðfestingin hefur verið send inn mun starfsmaður Ferðamálastofu hafa samband og senda viðeigandi merki.