Fara í efni

Flugþróunarsjóður

Flugþróunarsjóður hefur það að markmiði að styðja við uppbyggingu nýrra flugleiða til Íslands þannig að koma megi á reglulegu millilandaflugi um alþjóðaflugvellina Akureyri og Egilsstaði. Með því er stuðlað að dreifingu ferðamanna um landið, betri nýtingu innviða, betri búsetuskilyrðum og lífsgæðum heimamanna og betri rekstrarskilyrðum atvinnureksturs á Norður- og Austurlandi. Sjóðurinn er í vörslu Ferðamálastofu sem annast móttöku umsókna og almenna umsýslu. 

Stjórn og starfsreglur

Menningar- og viðskiptaráðherra skipar stjórn Flugþróunarsjóðs. Stjórnin setur sér starfsreglur sem ráðherra staðfestir. Hún tekur ákvörðun um styrkveitingar úr sjóðnum og gerir samninga við umsækjendur um styrki í samræmi við þá fjárheimild sem til ráðstöfunar er á fjárlögum hverju sinni til þessa verkefnis og skulu styrkfjárhæðir takmarkast við það. 

Vinnuhópur

Fulltrúar frá Markaðsstofu Norðurlands, Austurbrú, Isavia og Íslandsstofu eiga fulltrúa í vinnuhópi stjórnar. Vinnuhópurinn fer yfir þær umsóknir sem berast til sjóðsins og á samskipti við umsækjendur vegna umsókna. Þá fer vinnuhópurinn yfir framvinduskýrslur samninga sem gerðir eru við umsækjendur og gefur stjórn upplýsingar um framvindu verkefna svo að hún geti tekið ákvörðun um greiðslur úr sjóðnum. 

Tvær tegundir styrkja

Flugþróunarsjóður veitir annars vegar leiðarþróunarstyrk og hins vegar markaðsstyrk. Leiðarþróunarstyrkur felur í stuðning sem nemur 18 evrum fyrir hvern lentan farþega á Akureyri eða Egilsstöðum. Styrkurinn fellur undir viðmið Evrópusambandsins um minniháttar aðstoð (e. de minimis aid) og getur mest orðið 300.000 evrur á þriggja ára tímabili. Markaðsstuðningur er veittur til að kynna áfangastaðinn Akureyri eða Egilsstaði. Markaðsstyrk má aðeins nota í þeim tilgangi að vekja athygli á áfangastað og er ekki ætlað að auglýsa hlutaðeigandi flugfélag eða vekja athygli á tiltekinni afþreyingu umfram aðra.

Opna umsókn
Athugið að umsóknin er á ensku og þið munið færast yfir á enskan hluta vefsins.

Fyrirspurnir og nánari upplýsingar

Fyrirspurnir um starfsemi sjóðsins er hægt að senda á netfangið flugsjodur@ferdamalastofa.is