Ferðaábyrgðasjóður - Almennar upplýsingar
Mynd: Gjáin á Suðurlandi. © Arnar Birkir Dansson
Um Ferðaábyrgðasjóð
Markmið Ferðaábyrgðasjóðs er að draga úr neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi skipuleggjanda eða smásala og tryggja hagsmuni neytenda. Með tilkomu sjóðsins gefst ferðaskrifstofum kostur á að sækja um lán sem ætlað er að standa undir lögbundnum endurgreiðslum til neytenda vegna pakkaferða sem annað hvort var aflýst eða voru afbókaðar en koma áttu til framkvæmda á tímabilinu frá 12. mars til og með 30. september 2020. Umsóknarfrestur er til 1. nóvember 2020. (Athugið framlengingu á bæði tíma og umsóknarfresti frá fyrstu útgáfu laganna.)
Um ferðaábyrgðasjóð gildir bráðabirgðaákvæði laga um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 150/2018 sbr. lög 78/2020 sbr. reglugerð nr. 720/2020 um skilyrði fyrir tímabundnum lánveitingum Ferðaábyrgðasjóðs vegna COVID-19.
- Lög nr. 78/2020 um breytingu á lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun og lögum um ríkisábyrgðir (Ferðaábyrgðasjóður)
- Síðari breyting á lögunum (framlenging)
Lánsumsókn – skilyrði umsóknar
Lánsfjárhæðinni skal einvörðungu ráðstafað til endurgreiðslu til ferðamanna og þarf endurgreiðslan að eiga sér stað innan tíu (10) daga frá því að lánið er greitt út.
Aðeins er veitt lán fyrir endurgreiðslum vegna pakkaferða. Ekki er veitt lán vegna endurgreiðslu annarra ferða s.s. dagsferða.
Hafi pakkaferð verið endurgreidd af kortafyrirtæki getur umsækjandi sótt um lán vegna endurgreiðslunnar og ber honum að endurgreiða kortafyrirtækinu þær endurgreiðslur sem greiddar hafa verið til farþega.
Lánsfjárhæðin, sem sótt er um, þarf að fela í sér lausafjárþörf umsækjanda til næstu 12 mánaða, svo honum sé kleift að standa við lagaskyldu til endurgreiðslu vegna pakkaferða.
Ferðamálastofu er heimilt að taka gjald samkvæmt gjaldskrá sem greitt skal af viðkomandi seljanda pakkaferða. Gjöld vegna lánveitinga koma til viðbótar lánsfjárhæð.
Umsýslugjald Ferðamálastofu | 1 % af lánsfjárhæð |
Þjónustugjald Landsbankans vegna greiðslumiðlunar láns | Kr. 15.000.- |
Fylgigögn
Með lánsumsókn ber umsækjanda að leggja fram fullgildan ársreikning fyrir árið 2019 ásamt nauðsynlegum upplýsingum sem sýna fram á að umsækjandi uppfylli skilyrði lánveitingar. Í því skyni hefur Ferðamálastofa látið útbúa sérstakt eyðublað sem umsækjendum ber að fylla út og leggja fram. Áréttað er að fylla verður út alla reiti með skýrum hætti. Óljós gögn geta leitt til þess að umsókn teljist ekki fullnægjandi og þannig valdið töfum á afgreiðslu umsóknar.
Ferðamálastofa getur krafið umsækjanda um frekari upplýsingar til að sannreyna hvort skilyrði fyrir lánveitingu hafi veirð uppfyllt og hvort lánsfjárhæð hafi verið réttilega varið.
Ítrekað er mikilvægi þess að veittar upplýsingar séu réttar og er bent á að röng upplýsingagjöf getur varðað við almenn hegningarlög.
Lánveitingar
Reynt verður að hraða afgreiðslu umsókna eins og hægt er. Umsækjendur eru beðnir um að sýna biðlund en haft verður samband þegar umsókn er til meðferðar.
Umsóknir eru afgreiddar í þeirri röð sem þær berast.
Lánstími og vaxtakjör
Lánstími getur verið allt að sex árum en umsækjandi ákveður lánstímann innan þeirra marka.
Fyrsti gjalddagi lánsins er 1. mars 2021 og afborganir eru fjórar á ári. Heimilt er að endurgreiða höfuðstól að fullu hvenær sem er á lánstímanum.
Höfuðstóll kröfu skjóðsins ber 3,15% ársvexti fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki.
Höfuðstóll kröfu skjóðsins ber 3,65% ársvexti fyrir stór fyrirtæki.
Upplýsingar um lánveitingar Ferðaábyrgðasjóðs verða birtar opinberlega skv. upplýsingalögum og almennum reglum um gagnsæi og góða stjórnsýsluhætti.
Ferðamálastofa áskilur sér rétt til að afla upplýsinga frá kortafyrirtækjum vegna mögulegra endurgreiðslna og veita kortafyrirtækjunum upplýsingar um lánveitingar.
Nánari upplýsingar
- Ítarlegar upplýsingar um ferðaábyrgðasjóðinn
Svo sem um lánveitingu, skilyrði, umsóknir og fylgigögn. - Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið ferdaabyrgðasjodur@ferdamalastofa.is
- í gegnum spjallþráð stofnunarinnar
- eða hafa samband í síma 535 5500.