Ferðalausnir - Stafræn tækifæri
Ferðalausnir - Stafræn tækifæri kallast hagnýtar vef-vinnustofur sem Ferðamálastofa í samstarfi við Íslenska ferðaklasann stendur fyrir. Markmiðið er að sýna, kynna og miðla þekkingu og reynslu til fyrirtækja í ferðaþjónustu á sviði aukinnar tækni og öflugri miðlunar.
Áskoranir ferðaþjónustufyrirtækja
Fyrirtæki í ferðaþjónustu standa frammi fyrir að velja milli fjölda nýrra tæknilausna, fjölbreyttra tóla og nýrra aðferða til að ná til viðskiptavina sinna og gesta. Nú sem aldrei fyrr eru tækifæri í að efla tækni á öllum stigum sem geta leitt til aukinnar framleiðni og bættrar afkomu ferðaþjónustufyrirtækja.
Þekkingu miðlað með rafrænum hætti
Markmið Ferðamálastofu og Íslenska ferðaklasans með framtakinu er fyrst og fremst að koma á framfæri hvernig mismunandi aðferðir hafa nýst aðilum og leita leiða til að miðla þeirri reynslu á eins milliliðalausan hátt og mögulegt er.
Hefur þú tillögu að efni?
Ferðamálastofa og Íslenski ferðaklasinn vonast til að efnið nýtist sem flestum. Við fögnum öllum ábendingum og tökum glöð við tillögum að efni sem fyrirtæki óska sérstaklega eftir að verði tekið fyrir. Ábendingar má senda á stafraennheimur@ferdamalastofa.is
23. maí 2019:
Ferðaþjónustan þarf að sjálfvirknivæðast
Soffía Kristín Þórðardóttir, Origo
Mikilvægi sjálfvirknivæðingar í ferðaþjónustu er viðfangsefni næsta þáttar af Ferðalausnir – stafræn tækifæri. Við fengum til liðs við okkur Soffíu Kristínu Þórðardóttur hjá Origo, sem hefur mikla reynslu og þekkingu á þessu sviði. Hér skoðar hún hver staðan er í dag og hvaða verkefni innan ferðaþjónustunnar henta vel til sjálfvirknivæðingar.
Horfa á myndband
30. apríl 2019:
Umsagnir og TripAdvisor
Sunna Þorsteinsdóttir, Ferðavefir
Mikilvægi TripAdvisor fyrir ferðaþjónustufyrirtæki er alveg gríðarlegt. Því er er nauðsynlegt að fyrirtæki taki TripAdvisor alvarlega og sinni skráningunni sinni þar af kostgæfni. Sunna Þórðardóttir hjá ráðgjafafyrirtækinu Ferðavefjum deilir hér fjölmörgum gagnlegum ráðum tengdum TripAdvisor. Horfa á myndband
10. apríl 2019:
Wapp leiðsöguappið
Einar Skúlason - Wapp-Walking app
Wapp-Walking app er dæmi um hvernig nýta má stafræna tækni til að skapa nýjar upplifanir og auka öryggi ferðafólks. Um er að ræða smáforrit fyrir snjallsíma sem hefur að geyma safn fjölbreyttra GPS leiðarlýsinga um allt Ísland með upplýsingum um örnefni, sögur, náttúru og umhverfi. Einar Skúlason á heiðurinn af Wapp-Walking app og kynnir hér þessa snjöllu lausn. Horfa á myndband
19. mars 2019:
Kíkt í verkfærakistu Hæfniseturs ferðaþjónustunnar
Hildur Hrönn Oddsdóttir, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar
Hæft starfsfólk er lykilatriði til að bjóða upp á ferðaþjónustu í fremstu röð. Stórt skref í þessa átt var stigið með stofnun Hæfniseturs ferðaþjónustunnar og í þessum nýjasta þætti af Ferðalausnir – stafræn tækifæri fer Hildur Hrönn Oddsdóttir yfir starfsemi Hæfnisetursins og helstu verkfæri þess með áherslu á stafræna miðlun. Horfa á myndband
5. mars 2019:
Stafrænt aðgengi fyrir blinda og sjónskerta gagnast öllum
Rósa María Hjörvar - Bindarafélagið
Þegar rafræn þjónusta er annars vegar er mikilvægt að hugsa frá upphafi fyrir því að hún þarf að nýtast fólki með mismunandi þarfir. Í þessum þætti af Ferðalausnir stafræn tækifæri fjallar Rósa María Hjörvar, aðgengisfulltrúi Bindarafélagsins, um stafrænt aðgengi fyrir blinda og sjónskerta og hvaða körfur eru gerðar í dag fyrir þjónustu hvað varðar stafrænt aðgengi fyrir þennan hóp.
Horfa á myndband
19.2.2019:
Hámarka þarf verðmæti hvers herbergis
Margrét Polly Hansen - Hótelráðgjöf
Í því harða samkeppnisumhverfi sem ríkir í gistingu er mikilvægt að hafa allar klær úti til að hámarka afraksturinn af hverju herbergi. Í þessum nýjasta þætti af Ferðalausnir – stafræn tækifæri, fer Margrét Polly Hansen hjá Hótelráðgjöf yfir áskoranir á þessu sviði og kynnir tæknilausnir sem hentar gististöðum af öllum stærðum. Horfa á myndband
5.2.2019:
Náðu þér í stafrænt forskot
Hulda Birna Baldursdóttir - Nýsköpunarmiðstöð Íslands
Nýsköpunarmiðstöð Íslands hefur látið sig stafræn mál og stafræna fræðslu varða með margvíslegum hætti. Í þessum nýjasta þætti af Ferðalausnir - stafræn tækifæri fer Hulda Birna Baldursdóttir yfir þjónustu NMÍ á þessu sviði og kynnir sérstaklega vinnustofur um Stafrænt forskot sem haldnar verða um allt land næstu mánuði. Horfa á myndband
22.1.2019:
Komdu þér á kortið!
Halldór Arinbjarnarson - Ferðamálastofa
Kort gegna lykilhlutverki í öllu daglegu lífi okkar og erfitt að hugsa sér ferðaþjónustu án þeirra. Í þættinum fer Halldór Arinbjarnarson, upplýsingastjóri Ferðamálastofu, yfir hvernig fyrirtæki skrá sig á Google Maps með því að nota ókeypis þjónustuna Google My Business og hvernig hægt er að nota þá skráningu sem lið í markaðsstarfi. Horfa á myndband
8.1.2019:
Beinar bókanir - 2. hluti
Helgi þór Jónsson, Markaðshúsið Sponta
Þegar þáttaröðin Ferðalausnir – Stafræn tækifæri fór af stað í október var það Helgi Þór Jónsson hjá Markaðshúsinu Sponta sem reið á vaðið. Í nýjum þætti heldur hann áfram að fara yfir hvernig ferðaþjónustuaðilar geta lækkað rekstrarkostnað með því að rækta milliliðalaust samband við ferðamenn og fá fleiri beinar bókanir. Horfa á myndband
18.12.2018:
Hagnýt ráð fyrir betri vef - Starf vefstjórans í hnotskurn
Sigurjón Ólafsson, Fúnksjón vefráðgjöf
Góður vefur spilar að líkindum stærra hlutverk í rekstri ferðaþjónustufyrirtækis en í flestum öðrum atvinnugreinum. Því er mikill fengur að við höfum í 5. þætti af Ferðalausnum - stafræn tækifæri fengið til liðs við okkur einn reyndasta vefráðgjafa landsins, Sigurjón Ólafsson hjá Fúnksjón vefráðgjöf. Horfa á myndband
4.12.2018:
Hlutverk notendaferla í framúrskarandi ferðaþjónustu
Magga Dóra Ragnarsdóttir, stafrænn hönnunarstjóri
Magga Dóra Ragnarsdóttir, stafrænn hönnunarstjóri, kynnir hér notendaferla en þeir geta verið handhæg tól til að teikna upp og hanna þá upplifun sem við viljum að notendur gangi í gegnum. Notendaferill er tímalína sem lýsir sambandi ákveðins einstaklings við t.d. þjónustu frá öllum hliðum og þeirri upplifun sem skapast þegar notandinn fer í gegnum ferilinn. Þetta er bæði notað þegar skapa á eitthvað nýtt eða bæta þarf úr einhverju sem þegar er í gangi. Horfa á myndband
20.11.2018:
Mælaborð ferðaþjónustunnar
Jakob Rolfsson, Ferðamálastofa
Í myndbandinu fer Jakob Rolfsson, sérfræðingur hjá Ferðamálastofu, í gegnum Mælaborðið skref fyrir skref, sýnir hvaða gögn er þar að finna og hvernig hægt er með einföldum hætti að kalla fram mismunandi sjónarhorn á hinar ýmsu upplýsingar, allt eftir eðli gagnanna. T.d. hvernig hægt er að brjóta gögn niður á tímabil, velja eitt eða fleiri tímabil til að skoða í einu, skoða sérstaklega einstök lönd eða markaðssvæði og þannig mætti áfram telja.
Horfa á myndband
6.11.2018:
Samfélagsmiðlar, áskoranir og tækifæri
Lella Erludóttir, Ferðaþjónusta bænda
Lella Erludóttir, markaðsstjóri Ferðaþjónustu bænda, fer yfir tækifæri og áskoranir við notkun samfélagsmiðla og hvernig hægt er að nýta þá með áhrifaríkum hætti í ferðaþjónustu.
Horfa á myndband
23.10.2018:
Beinar bókanir - 1. hluti
Helgi þór Jónsson, Markaðshúsið Sponta
Það er Helgi Þór Jónsson hjá Markaðshúsinu Sponta sem ríður á vaðið. Í þessu kennslumyndbandi fer hann yfir grundvallaratriðin í því hvernig ferðaþjónustuaðilar geta lækkað rekstrarkostnað með því að rækta milliliðalaust samband við ferðamenn og fá fleiri beinar bókanir, án þóknunargjalda. Horfa á myndband