Fara í efni

Skráning gönguleiða

Megintilgangur verkefnis Ferðamálastofu um skráningu gönguleiða er að til verði miðlægt skráningarkerfi um gönguleiðir um land allt. Tilgangurinn er að miðla samræmdum og áreiðanlegum upplýsingum um gönguleiðir á Íslandi og hvetja til ferðalaga, útivistar og náttúruskoðunar á ábyrgan og öruggan hátt. Verkefninu er ætlað að auðvelda ferðafólki að velja hentugar leiðir, sem hæfa hverjum og einum, til þess að upplifunin verði sem öruggust og ánægjulegust. 

Leiðum er safnað saman í gagnagrunn sem vistaður er hjá Ferðamálastofu. Sjá birtar leiðir

Til að byrja með er áherslan lögð á skráningu gönguleiða en þegar fram líða stundir verður vonandi einnig hægt að skrá og miðla leiðum fyrir hjólreiða-, hesta-, og gönguskíðafólk.

Spurt og svarað (FAQ)

Hér að neðan má finna helstu spurningar og svör sem tengjast verkefni Ferðamálastofu um skráningu gönguleiða. Ef spurningu er ekki svarað hér má senda á: gonguleidir@ferdamalastofa.is 

Hvaða skilyrði þurfa gönguleiðirnar að uppfylla?

Gönguleiðirnar þurfa að uppfylla þau skilyrði sem fram koma í skráningarforminu en afrit af því má nálgast hér að neðan. Áhersla er lögð á skýra og góða textalýsingu um leiðina, ásamt ástandi og öryggi leiðarinnar. Leyfi landeiganda/landeigenda þarf að liggja fyrir og nafn ábyrgðaraðila / þjónustuaðila þarf að koma fram.

Sýnishorn af skráningarforminu (PDF)

Ath. Ekki er verið að  birta allar upplýsingar sem safnað er, t.d. upplýsingar um landeigendur. Þeim upplýsingum er eingöngu safnað til að hægt sé að leita til landeigenda ef upp koma t.d. ágreiningsmál um landnotkun o.þ.h. Upplýsingum um nauðsynlega viðhaldsþætti er safnað til að umsjónaraðili sé með yfirsýn og skjalfest að hverju þarf að huga.

Hver má senda inn gönguleið?

Verkefnið er hugsað í samstarfi við áfangastaðastofur og sveitarfélög. Þeir sem fá aðgang til að skrá gönguleiðir í grunninn hafa verið fengnir til verksins af þessum aðilum. Áhugasamir geta haft samband við áfangastaðastofu í sínum landshluta eða Ferðamálastofu á gonguleidir@ferdamalastofa.is 

Nauðsynlegt er að skráningaraðili hafi:

  • Góða þekkingu á gönguleiðinni, sumar og vetur.
  • Kunnáttu í notkun GPS-tækja.

Gagnlegt er að skráningaraðili hafi:

  • Reynslu eða viðeigandi menntun í leiðsögn.
  • Reynslu í slysavörnum eða þjálfun í leit og björgun hjá slysavarnafélagi.

Við hverja þarf að ráðfæra sig áður en leið er GPS-mæld?

Skráningaraðili sem velur gönguleið og býr til af henni GPS-feril skal hafa samráð við landeiganda/landeigendur. Jafnframt er æskilegt að haft sé samráð við ferðafélög eða annað áhugafólk um gönguleiðir á svæðinu.

Hversu nákvæmar þurfa GPS-mælingarnar að vera?

Lagt er upp með 1 meters nákvæmni á GPS mælingum og mikilvægt er að GPS tækið sé af góðum gæðum. Þó nokkur svæði í dreifbýli geta ekki uppfyllt slíka nákvæmni. Sérstaklega á þetta við um leiðir sem lenda í erfiðleikastigum 3 og 4.

Ferðamálastofa mælir með notkun á GPS tæki frá ArduSimple. Tækið sjáft kostar um 275 evrur á vefsíðu framleiðenda og með því er notaður ókeypis hugbúnaður (SW Maps) sem settur er upp á farsíma. Ástæða þess að mælt er með umræddum búnaði er nákvæmni gagna en hann gefur kost á að taka sjálfkrafa á móti rauntímaleiðréttingu með tengingu við kerfi Landmælinga Íslands.

Á hvaða formi á GPS-skrá að vera?

Skrár með ferlum þurfa að vera á GPX-formati.

Hvaða ábyrgð felst í því að skrá inn gönguleið?

Til að geta birt gönguleið þarf að tilnefna sérstakan ábyrgðaraðila/þjónustuaðila sem og eiganda gagna/skráningaraðila fyrir hverja leið. Ábyrgðaraðili/þjónustuaðili er sá sem getur veitt sem nákvæmastar upplýsingar um væntanlegar aðstæður og hættur á leiðinni. Dæmi um ábyrgðaraðila/þjónustuaðila er t.d. ferðafélag eða sveitarfélag sem séð hefur séð um að stika leiðina.

Fyrirvari á ábyrgð:

Göngufólk ber ávallt ábyrgð á eigin ferðum og þarf að undirbúa sig vel sem og öryggisbúnað sinn með tilliti til hverrar gönguferðar. Aðstæður geta breyst skyndilega þar sem helsti óvissuþáttur á göngu er ófyrirsjáanleiki íslensks veðurfars og jarðrasks.

Hver eru helstu viðmið fyrir innsenda gönguleið?

Öryggi:

  • Ástand gönguleiðar sé nokkuð stöðugt.
  • Gönguleið hafi skýra erfiðleikastigsflokkun.
  • Athygli skal vakin á hindrunum og hættum gönguleiðar.
  • Upplýsingar um gönguleið skal setja fram á skýran og upplýsandi hátt í texta og með myndum.
  • Þar sem upplýsingarskilti eru þurfa þau að vera vel læsileg og helst með texta á a.m.k. íslensku og ensku.
  • Æskilegt er að leiðir hafi farið í gegnum áhættumat. Með því er átt við að leiðarvalið sé sem öruggast og líklegt til að valda sem minnstu raski.
  • Æskilegt er að ástand leiðar sé metið með reglulegum hætti.

Hreinlæti og ásýnd:

  • Gönguleiðin sé laus við rusl.
  • Stikur séu uppistandandi og óbrotnar.
  • Upplýsingar á skiltum séu skýrar og þeim vel við haldið.

Aðrir mælikvarðar (ástandsmat og sjálfbærni):

  • Skráning skal gerð í sátt og samlyndi við landeigendur og heimamenn.
  • Gæta skal að gönguleið skaði ekki umhverfi, ræktarlönd, skógrækt o.fl.
  • Skráning gönguleiðar er ekki ætlað að íþyngja landeigendum eða leggja byrði á þá sem viðhalda leiðinni.

Þurfa leiðirnar að fara í gegnum áhættumat?

Göngufólk sem ferðast á eigin vegum ber ávallt ábyrgð á eigin öryggi á ferð um landið. Skráningaraðili skal miðla upplýsingum um aðstæður gönguleiðar á sem skýrastan máta.

Æskilegt er að skráningaraðili hafi gátlista um öryggismál og hafi hjálpargögn, t.d. Vakans, til hliðsjónar við undirbúning og skráningu leiðar í dreifbýli og óbyggðum. Hjálpargögn Vakans um öryggi og ábyrgð má nálgast hér að neðan.

Öryggi og ábyrgð | Vakinn

Ef aðilar ætla að nýta sér birtar gönguleiðir sem söluvöru (s.s. ferðir með leiðsögn), þá þurfa þeir að uppfylla 11. gr. laga nr. 96/2018, en þar er þess krafist að allir söluaðilar þurfa að vera með skriflegar öryggisáætlanir fyrir ferðir sínar og vera með viðeigandi og gild starfsleyfi.  96/2018: Lög um Ferðamálastofu | Lög | Alþingi (althingi.is)

Hver gerir ástandsmat á gönguleiðinni?

Sá sem skráir gönguleiðina skal leitast við að miðla réttum upplýsingum um ástand leiðar.

Sumar leiðir krefjast óverulegs viðhalds en aðrar þurfa meiri þjónustu.

Notkun gönguleiðar má aldrei valda skemmdum á landrækt, skógrækt, landgræðslu eða öðrum auðlindum. Notkun gönguleiðar má ekki fara fram úr álagsþoli og það er hlutverk ábyrgðaraðila að hafa eftirlit með ástandi gönguleiðar. Lög um umhverfisábyrgð má nálgast hér að neðan.

55/2012: Lög um umhverfisábyrgð | Lög | Alþingi (althingi.is)

Áhrif af leið mega ekki stangast ekki á við umhverfis- og náttúruverndarlög eða lög um minjavernd.

Hvaða viðhald þarf að fara fram?

Verði hluti leiðar fyrir skemmdum þarf ábyrgðaraðili/þjónustuaðili að vera til staðar til að hægt sé að grípa til aðgerða, lagfæra eða draga úr hættu. Ráðstafanir geta líka falið í sér lokun gönguleiðar eða hluta hennar fyrir almenningsnotkun á meðan viðgerð stendur.

Skjalfest þarf að vera hver sé formlegur ábyrgðaraðili/þjónustuaðili gönguleiðar. Sá aðili þarf að hafa góða yfirsýn á ástandi leiðar. Mikilvægt er að uppfæra skráningu gönguleiðar ef forsendur breytast. Gott er að skrá líklega flöskuhálsa/hindranir fyrir hverja gönguleið sem og nauðsynlega viðhaldsþætti í viðeigandi textabox. Skráning gönguleiðar er lifandi skjal sem ætti að uppfæra eftir því sem einstök atriði breytast.

Hvað er gert við gögnin?

Öllum leiðum er safnað saman í gagnagrunn sem vistaður er hjá Ferðamálastofu. Sjá birtar leiðir

Gögnin eru opin og öllum heimil til notkunar á eigin vef í gegnum vefþjónustu. Vefþjónustan er venjuleg REST vefþjónusta og er hægt að nálgast OpenAPI schemu á þessari slóð. https://prod.ferdamalastofa.apis.stefna.is/openapi.json

Áður en leið er birt yfirfer starfsmaður Ferðamálastofu skráninguna. Landmælingar Íslands fara yfir GPS-hnit erfiðari leiða og leiðrétta ef þurfa þykir.