Fara í efni

Viðbragsáætlun og málsmeðferð vegna gjaldþrots, ógjaldfærni eða niðurfellingar leyfis seljenda pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar

Hér er að finna upplýsingar um viðbragsáætlun Ferðamálastofu og stöðu viðskiptavina seljanda pakkaferðar komi til þess að leyfi hans sé fellt niður vegna gjaldþrots, ógjaldfærni eða hann uppfylli ekki skyldur sínar gagnvart Ferðatryggingasjóði.

Frekari upplýsingar má finna á vefnum undir "Leyfi og löggjöf". Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið krofur@ferdamalastofa.is og á netspjallið hér á vefnum.

Kaupendur pakkaferða njóta tryggingaverndar

Sala pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar er leyfisskyld samkvæmt lögum um Ferðamálastofu nr. 96/2018 og tryggingaskyld skv. lögum um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018.

Kaupendur pakkaferða njóta því tryggingaverndar og eiga kröfu á endurgreiðslu úr Ferðatryggingasjóði.

 

Hvað felst í tryggingavernd?

Ferðatryggingasjóður endurgreiðir ferðamanni þær greiðslur sem hann hefur innt af hendi vegna kaupa á pakkaferð eða samtengdri ferðatilhögun og annast heimflutning ferðamanns sé farþegaflutningur hluti pakkaferðar.

Tryggingaverndin nær til allrar ferðatengdrar þjónustu sem er hluti af samningi um pakkaferð og felst í:

  • Endurgreiðslu greiðslna sem greiddar hafa verið fyrir pakkaferð sem er ófarin, hvort sem hún er greidd að hluta eða að fullu.
  • Heimflutningi ef farþegaflutningur er hluti af samningi um pakkaferð.
  • Að farþega sé gert kleift að ljúka ferð sinni í samræmi við upphaflegan samning um pakkaferð.

Sjóðurinn endurgreiðir ekki:

  • Kostnað sem ferðamaður hefur greitt vegna aukalega sem ekki var hluti af samningi um pakkaferð.
  • Vexti eða annan kostnað vegna kröfugerðar.

Hafi farþega verið gert kleift að ljúka pakkaferð í samræmi við upphaflegan samning eru frekari kröfur ekki teknar til greina.

Aðeins er endurgreitt fyrir beint fjárhagslegt tjón en ekki hugsanleg óþægindi eða miska.

Tryggingavernd vegna sölu samtengdrar ferðatilhögunar felst í:

  • Endurgreiðslu allra greiðslna sem seljandi, sem hefur milligöngu um sölu samtengdrar ferðatilhögunar, tekur við frá ferðamönnum.
  • Heimflutningi ef seljandi samtengdrar ferðatilhögunar er einnig ábyrgur fyrir farþegaflutningi.

Hvað þurfa farþegar að gera til að fá endurgreitt?

Farþegar þurfa að gera kröfu í Ferðatryggingasjóð til að fá endurgreitt það fé sem þeir hafa þegar lagt fram vegna pakkaferðar eða ef við á samtengdrar ferðatilhögunar. Nánari leiðbeiningar er að finna hér. 

Réttarstaða farþega sem kaupa einungis flugsæti 

Þegar aðeins er keyptur stakur flugmiði er réttarstaða farþega önnur en ef keypt er pakkaferð eða samtengd ferðatilhögun því ekki kemur til sams konar skyldutrygging vegna staks flugmiða og á við um seljendur pakkaferða og samtengdrar ferðatilhögunar.

Farþegi á eingöngu kröfu á þrotabú vegna þess kostnaðar sem hann verður fyrir komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar flugfélags

  • Sé farþegi staddur erlendis verður hann sjálfur að koma sér heim og á eigin kostnað svo framarlega sem rekstri er ekki haldið áfram af þrotabúi eða annað flugfélag tekur yfir skuldbindingar þrotabúsins.
  • Ef ferð er greidd að fullu eða að hluta en er ófarin á viðkomandi einungis almenna kröfu í þrotabúið.

Hafi flugmiði verið greiddur með greiðslukorti er mælt með að farþegi leiti til útgefanda kortsins og kanni hvort greiðslukortafyrirtækið endurgreiði farmiðann.

Nánari upplýsingar um réttindi flugfarþega má nálgast á vef Samgöngustofu sem fer með eftirlit með flugrekstri.

Málsmeðferð

Þegar kemur til gjaldþrots eða ógjaldfærni eða leyfi er fellt niður af hálfu Ferðamálastofu vegna vanefnda skuldbindinga við Ferðatryggingasjóð birtir Ferðamálastofa tilkynningu þess efnis á vef sínum www.ferdamalastofa.is.

Ýmsar frekari upplýsingar má finna á vefnum undir "Leyfi og löggjöf". Einnig er hægt að senda fyrirspurnir á netfangið mail@ferdamalastofa.is og á netspjallið hér á vefnum.

  • Ferðamálastofa aflar upplýsinga um ferðir, stöðu þeirra og farþega, leitar samvinnu við flugfélög og tekur ákvörðun um heimflutning farþega ef við á. 
  • Fáist umbeðnar upplýsingar ef farþegum tilkynnt um stöðu og ákvörðun Ferðamálastofu.
  • Fáist umbeðnar upplýsingar ekki er farþegum bent á að fylgjast með vef Ferðamálastofu.

Þegar flug er hluti pakkaferðar eða samtengdrar ferðatilhögunar leitar Ferðamálastofa hagkvæmustu leiðar um heimflutning farþega erlendis frá og leitar samvinnu við flugfélög. Um tvær leiðir er að ræða, annars vegar koma farþegar sér heim og leggja sjálfir út fyrir heimferðinni og hins vegar útvegar Ferðamálastofa heimflutning f.h. Ferðatryggingasjóðs.

  • Farþegar staddir erlendis
    Farþegar leggja út fyrir heimferðinni og geta gert kröfu í Ferðatryggingasjóð fyrir kostnaði vegna hennar. Farþegar skulu leitast við að gæta hagkvæmni hvað fargjöld varðar. Ferðamálastofa leitar samstarfs við flugfélög til að leitast við að auðvelda farþegum heimferð m.t.t. forgangs til sæta, hagstæðs verðs, flugleiðar o.s.frv.
  • Farþegar staddir innanlands
    Farþegar koma sér sjálfir heim og leggja sjálfir út fyrir heimferðinni. Þeir geta svo gert kröfu í Ferðatryggingasjóð fyrir kostnaði vegna heimferðar. Ekki er um frekari milligöngu að ræða af hálfu Ferðamálastofu.
  • Heimflutningur farþega
    Ef Ferðamálastofa f.h. Ferðatryggingasjóðs útvegar heimflutning er ekki um frekari kröfugerð að ræða af hálfu farþega. Ef farþegar ákveða að nýta sér heimflutninginn og stytta þar með ferð sína geta þeir gert kröfu í Ferðatryggingasjóð vegna þess sem út af stendur dvalar skv. pakkaferðarsamningnum. Ef þeir hins vegar kjósa að nýta sér ekki heimflutninginn og ljúka ferð verða þeir að koma sér sjálfir heim, leggja út fyrir heimferðinni og geta þá gert kröfu í Ferðatryggingasjóð fyrir kostnaði vegna heimferðar.

Kröfugerð í Ferðatryggingasjóð og kröfulýsingarfrestur

Ferðamálastofa auglýsir niðurfellingu leyfis og kallar eftir kröfum í Lögbirtingablaði og jafnframt á annan áberandi hátt eins og heppilegt þykir hverju sinni.

Ferðamenn verða að senda Ferðamálastofu f.h. Ferðatryggingasjóðs skriflega kröfu. Með kröfu skulu fylgja fullnægjandi gögn til sönnunar um kröfuna, t.d. pakkaferðasamningur, greiðslukvittun eða önnur gögn sem sýna fram á kaup á pakkaferð.

Frestur til að senda kröfu er tveir mánuður frá birtingu áskorunarinnar.

Kröfur eru afgreiddar eins fljótt og unnt er. Málshraði ræðst af umfangi krafna og skýrleika framlagðra gagna.

Ferðamálastofa tekur ákvörðun um samþykki eða synjun kröfu. Kröfuhöfum er tilkynnt um afgreiðslu mála með formlegri ákvörðun sem kæranleg er til ráðherra. Kærufrestur er 4 vikur frá dagsetningu ákvörðunar.