Fara í efni

Akstur á undarlegum vegi - Erindi ferðamálastjóra á Ferðamálaþingi 2017

Í erindi sínu á Ferðamálaþingi í Hörpu í gær fjallaði Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri um ýmsar þær áskoranir og úrlausnarefni sem íslensk ferðaþjónusta og ferðaþjónusta í heiminum almennt stendur frammi fyrir nú um stundir – eða „Áskoranir á öld ferðalangsins“, eins og titill þingsins var að þessu sinni.

Yfirskrift erindis Ólafar var „Akstur á undarlegum vegi“ og fór hún þar einnig yfir þær gríðarlegu breytingar sem hér hafa orðið á síðustu árum og þau stóru verkefni sem Ferðamálastofa hefur komið að með einum eða öðrum hætti. Í lok máls hennar kom fram að hún mun láta af starfi ferðamálastjóra um næstu áramót eftir 10 ár í starfi.


Kæru ráðstefnugestir!

Ólöf Ýrr Atladóttir

Velkomin á Ferðamálaþing og takk fyrir að eyða þessum degi með okkur. Umfjöllunarefni þingsins í dag tekur mið af ári Sameinuðu þjóðanna, sem í ár tileinkuðu árið sjálfbærri ferðaþjónustu og þróun. And, we have been honoured to host for the past few days Mr. Taleb Rifai, secretary general of the UNWTO. Thank you so much for visiting – and my warmest thanks also to Stefan Gössling for his contribution here today.
Það má líklegast hafa til marks um þroskun ferðamála á alþjóðavísu, skilning á mikilvægi hennar og áhrifum á samfélög manna að Sameinuðu þjóðirnar hafa tileinkað árið í ár málefnum ferðaþjónustunnar. Það er enda svo að ferðaþjónusta hefur afar margþætt og flókin áhrif á þróun samfélaga, getur – og á að vera – drifkraftur til góðs, en getur líka haft neikvæð áhrif, sem við verðum að skilja og greina til að geta unnið gegn.
Við lifum öld ferðalangsins. Æ fleiri líta á ferðalög innan og ekki síður milli landa sem hluta af hversdagslegum lífsgæðum sínum. Fólk ferðast sem aldrei fyrr og sú staða hefur leitt af sér margvíslegar áskoranir sem við hefðum lítt getað séð fyrir, fyrir örfáum áratugum síðan. Víða um heim er ferðaþjónustan farin að hafa áhrif á lífsgæði gestgjafa – bæði að góðu, eins og dæmin eru um í auknu þjónustuframboði, betra efnahagsástandi og bættum atvinnumöguleikum, en einnig með neikvæðum hætti, og er nærtækast að horfa til umræðunnar um húsnæðismál, ekki bara hér heldur í borgum víða um heim; það er mótmælt á götum í Barselóna og félagsleg húsnæðisúrræði eru misnotuð í ábataskyni í Honolulu. Fólk kvartar undan yfirgangi í Feneyjum og atferli í Berlín. Áhyggjur almennings af neikvæðum áhrifum ferðaþjónustunnar á náttúrugæði fara stigvaxandi hér á landi.
Við lifum öld ferðalangsins og við sjálf ferðumst út um allan heim til að njóta upplifunar og afslöppunar í nýju umhverfi og leitumst eftir því að sú upplifun nái einhverjum skilgreiningum á því sem telst ekta – allir vilja ferðast, en enginn vill vera ferðamaður. Við leikum ólík hlutverk eftir því hvar við erum stödd í heiminum, og stundum, því miður, leiðumst við til þess að líta svo á að það að vera á óþekktum slóðum gefi okkur leyfi til að hegða okkur með áður óþekktum og þá óþekkum hætti.
Vetur í Mývatnssveit
Þessu hafa Íslendingar löngum gert sér grein fyrir, eins og vel þekkt vísa er til vitnis um:
Þar sem enginn þekkir mann
Þar er gott að vera
Því að allan andskotann
Er þar hægt að gera.
En við viljum vera ferðalangar. Og við viljum vera gestrisin. Kannski verðum við að vinna saman að því að mannfólkið endurskilgreini það sem felst í því að vera þjóðfélagsþegn – endurskilgreini barasta það sem felst í því að vera þjóðfélag, láti landamæri og hið klassíska þjóðríki sigla sinn sjó í sjálfsmyndinni að minnsta kosti og skilgreini sig sjálft upp á nýtt sem heimsþegn, sem gætir að virðingu sinni hvarvetna sem drepið er niður fæti og tekur á þeim sammannlegu áskorunum sem að okkur steðja af ábyrgð og festu.
Við megum nefnilega ekki gleyma því að þær áskoranir ferðaþjónustunnar sem mestar eru varða ekki í raun verkefni atvinnugreina innan einstakra landa, heldur sammannleg hnattræn verkefni:
Hvernig eigum við að takast á við loftslagsmálin?
Hvernig tryggjum við alþjóðlegan rétt starfsfólks og kippum stoðum undan mansali og misnotkun?
Hvernig tryggjum við sjálfbæra nýtingu auðlinda jarðar?
Í ár er ár Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra ferðaþjónustu og þróun og það gefur okkur tilefni til að rýna í hin hnattrænu mál, en einnig til að rýna í stöðu Íslands og ferðaþjónustunnar, ekki síst með hliðsjón af þróun hennar á undanförnum árum og með hliðsjón af því hvernig við viljum að hún þróist, hvaða áhrif við viljum að hún hafi á íbúa, náttúru, samfélagið í heild og einstakar byggðir lands. Ísland er ferðamannaland - og nú er lag að spyrja sig spurninga um hvernig ferðaþjónustu við viljum?

Við Íslendingar eigum þannig ekki endilega að leita eftir því að fá betur borgandi ferðamenn sem við drögum í dilka eftir tekjum, heldur eigum við að leita eftir því að fá bestu ferðamennina, sem gangast glaðir undir þær reglur sem við setjum okkur og öðrum og eru tilbúnir að eyða sínum tekjum í að öðlast upplifun sem verður þeim minnisstæð vegna fagmennsku þeirra sem sinntu gestgjafahlutverkinu. Við eigum að geta tekið við gagnrýni frá þessum ferðamönnum og nýtt okkur hana til góðs. Vegna þess að allir eru að ferðast þarf ekki endilega að hvetja fólk til þess að ferðast – það þarf að hvetja fólk til að ferðast betur.
Ef við horfum til íslenskrar ferðaþjónustu á síðasta áratug fer ekki framhjá neinum að bylting hefur orðið. Atvinnugreinin í dag er ekki sú sama og hún var þá. Þá, í aðdraganda efnahagshrunsins, voru aðstæður um margt erfiðar fyrir atvinnugreinina. Gengi krónunnar var til að mynda sterkt, sem hafði áhrif bæði á neyslu erlendra ferðamanna, en ekki síður á skuldastöðu fyrirtækja. Ferðaþjónustan var samt sem áður vaxandi atvinnugrein, en í hugum margra Íslendinga kannski enn ekki orðin raunveruleg atvinnugrein. Við efnahagshrunið gjörbreyttust aðstæður. Án þess að ætla að messa yfir ykkur um þau mál til hlítar, var eitt sem stóð svolítið upp úr hjá mér a.m.k. á þessum fyrstu mánuðum mínum í embætti. Allt í einu, þegar tók fyrir innstreymi gjaldeyris í landið, varð fólki ljóst mikilvægi ferðaþjónustunnar sem gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar, ekki síst þar sem það voru ferðamenn, þessa fyrstu óvissudaga eftir að bankarnir féllu, sem tryggðu stöðugt innflæði gjaldeyris öðrum fremur. Óvissan var þó mikil og okkar erlendu söluaðilar ekki síst öryggislausir. Að frumkvæði Ferðamálastofu var farið í leiðangur til helstu viðskiptalanda okkar til þess að fullvissa fólk um að landið stæði enn – og að samfélag og ferðaþjónusta stæðu styrkum fótum þrátt fyrir ólguna sem einkenndi atburði þessa vetrar.
Íslensk ferðaþjónusta fór betur út úr heimskreppunni en í mörgum öðrum ferðamannalöndum. Þrátt fyrir að brottfarartölur gæfu til kynna eilítinn samdrátt, mátti greina að ferðamönnum frá okkar helstu markaðssvæðum fjölgaði, eins og Ferðamálastofa benti á, á sínum tíma – og þar að auki kom í ljós að þeir eyddu meiri fjármunum í heildina í ferðum sínum en áður, enda hafði landið orðið mun preisverðara (svo slett sé þýsku) en áður var og því hvati til að gera vel við sig.

Aftur var minnt á mikilvægi ferðaþjónustunnar þegar gaus í Eyjafjallajökli 2010. Þegar náttúran tók fyrir ferðalög um himnana vöknuðu kaupmenn í Reykjavík m.a. upp við mikinn samdrátt í verslun – og fólk öðlaðist almennan skilning á víðtækum áhrifum greinarinnar á hvers kyns verslun og þjónustu. Átakinu Inspired by Iceland var hleypt af stokkunum – og var raunar síðasta erlenda markaðsátakið fyrir ferðaþjónustuna sem Ferðamálastofa kom með beinum hætti að, enda var Íslandsstofa stofnuð þá um sumarið, í júlí 2010.
Og við þekkjum öll söguna sem á eftir kom.
Það er þannig óþarft að rekja hana ýtarlega - en nægir að árétta, að Íslendingar hafa þurft að takast á við þær áskoranir sem velgengni á sviði ferðaþjónustu hefur orðið upphafið að, á mun styttri tíma en flestar aðrar þjóðir, enda vöxturinn verið krappari hér en eiginlega bara alls staðar annars staðar í heiminum. Efnahagslegt vægi atvinnugreinarinnar er óumdeilt, og nú er að setja henni ramma og hlúa að henni, þannig að hún dafni í sátt við land og þjóð til langrar framtíðar.
Ferðaþjónustan er í dag viðurkennd sem ein allra mikilvægasta atvinnugrein landsins, en jafnframt er það líka viðurkennt að hennar margþættu áhrif geta verið mikil, á land en ekki síður þjóð og þjóðarsál. Ferðaþjónustan, sem nýtir sem eina sína helstu auðlind sameiginleg almannagæði okkar, almannaþjónustu og ekki síst almannarými, kallar á að við nálgumst sameiginleg viðfangsefni okkar á nýjan hátt – og sýnum því virðingu sem sameiginlegt er. Þar er svarið ekki endilega að gera það að séreign sem áður var í sameign, heldur setja ramma utan um nýtingu okkar sameiginlegu auðlinda og almannagæða og tryggja farsæla stýringu þeirra til langrar framtíðar. Ferðamálin snerta tilfinningalega strengi í brjóstum okkar og þau eiga að gera það, því að við erum öll ferðalangar. Við eigum öll að láta okkur ferðaþjónustu varða.
Á þessum síðasta áratug hefur íslensk ferðaþjónusta vaxið úr grasi. Ferðamálastofa hefur tekið þátt í þeim breytingum og innleitt mörg tæki, sem eru til þess ætluð að létta atvinnugrein og samfélagi róðurinn við að búa í haginn fyrir ferðaþjónustuna til framtíðar. Mig langar til að stikla á stóru í þessum efnum, auðvitað með þeim formerkjum að hér er eingöngu um upptalningu á stærstu verkefnunum að ræða; Ferðamálastofa og starfsfólk hennar hefur jafnframt þessu verið duglegt að sinna margvíslegum smærri verkefnum sem falla undir hennar verksvið, án þess að þau veki kannski mikla athygli.
Á árunum 2009-10 lagði Ferðamálastofa áherslu á að setja af stað vinnu við að móta tæki fyrir ferðaþjónustuna, sem gæti orðið henni leiðarljós í gæða- og umhverfismálum íslenskrar ferðaþjónustufyrirtækja. Það er vel þekkt að þegar herðir að í atvinnulífi skapast stundum svigrúm til naflaskoðunar og þess að rýna í innri starfsemi skipulagseininga – Ferðamálastofa, í samvinnu við atvinnugreinina og Nýsköpunarmiðstöð nýtti þetta tækifæri til þessa að móta Vakann, gæða- og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, sem við þekkjum öll, en hann var endanlega gangsettur á árinu 2012 og hefur vaxið að umfangi jafnt og þétt síðan.
Á árunum 2010-12 má segja að kastljósið hafi beinst að uppbyggingu, öryggis- og skipulagsmálum á ferðamannastöðum; ferðaþjónustan tók kipp eftir árið 2010 og áhyggjur fólks fóru vaxandi af álagi á íslenska náttúru. Það var kannski líka rökrétt framhald að taka þann málaflokk fyrir jafnframt því að sambærileg viðfangsefni væru skilgreind gagnvart fyrirtækjum. Ferðamálastofa lét árið 2010 vinna drög að stefnu um öryggismál á ferðamannastöðum og hefur síðan sinnt og stutt við ýmis smærri verkefni sem varða ferðamannastaði og lúta m.a. að hönnun þjónustuhúsa, aðgengismálum fatlaðra og skilgreiningu á þjóðstígum. Margir frábærir samstarfsaðilar hafi komið að þessum verkefnum, eða kynnt þau fyrir okkur og þannig gert okkur kleift að taka þátt. Miklvægi samvinnunnar á sviði ferðamála verður aldrei ofmetið.
Vaxandi áhyggjur af ágangi á ferðamannastaði í náttúru Íslands urðu síðan til þess að stjórnvöld settu á laggirnar Framkvæmdasjóð ferðamannastaða með lögum árið 2011. Umsýsla með þeim sjóði hefur verið á herðum Ferðamálastofu frá upphafi og hafa góðir stjórnsýsluhættir verið tryggðir með starfsreglum og reglugerð sem er afrakstur samvinnu ráðuneytis og stofnunar. Umsýslan með sjóðunum er umfangsmikil, enda mikilvægt að rétt sé að málum staðið. Nýlegar breytingar á sjóðnum, þannig að hann veitir almennt ekki lengur styrki til verkefna sem framkvæmd eru á forræði ríkisins og aukinn aðgangur einkaaðila að styrkveitingum úr sjóðnum skapa spennandi tækifæri fyrir ferðaþjónustuaðila um allt land til nýsköpunar og framkvæmda.
Rannsóknir og gagnaöflun fyrir ferðaþjónustuna voru í öndvegi hjá Ferðamálastofu á árunum 2013-2015, enda atvinnugreinin vaxandi og ljóst orðið að þróun hennar gat ekki átt sér stað með farsælum hætti án þess að nauðsynlegrar þekkingar væri aflað um eðli hennar, þróun og forsendur. Þarfagreining fyrir rannsóknir innan ferðaþjónustunnar var endurtekin og reynt að sníða verkefni Ferðamálastofu að niðurstöðum hennar. Aðferðafræði viðhorfskannana meðal erlendra ferðamanna var fest í sessi og reglubundin fyrirlögn þeirra tryggð, ásamt því að Ferðamálastofa skipulagði reglubundna gagnaöflun meðal Íslendinga og hefur síðan spurt bæði spurninga um ferðahegðun þeirra og væntingar, en einnig tekið púlsinn á viðhorfum Íslendinga til ýmissa þátta ferðaþjónustunnar. Á undanförnum misserum hefur verið vaxandi skilningur á þessum mikilvæga hluta stuðnings við atvinnugreinina, og vonandi að okkur auðnist að skapa faglegan og hvetjandi ramma utan um fræðasviðið, jafnframt því sem við skilgreinum og fjármögnum nauðsynlega grunngagnaöflun fyrir greinina.
Myndarlega var stutt við þolmarkarannsóknir af ýmsu tagi á árunum 2014 og 2015 og má kannski segja að með því hafi verið lagður ákveðinn grunnur að áframhaldi á mikilvægum rannsóknum sem varða áhrif ferðaþjónustunnar á náttúru, ferðamenn og heimamenn. Ferðamálastofa vann á þessum árum einnig að kortlagningu auðlinda ferðaþjónustunnar, tækis sem er afar gagnlegt öllum hagaðilum við hvers kyns skipulagningar- og stefnumótunarvinnu og
sem Ferðamálastofa er afar stolt af.

dyrhólaey

Ekki má heldur gleyma því að með vexti ferðaþjónustunnar varð auðsætt að regluverkið mætti ekki þeim kröfum um skýra umgjörð atvinnugreinarinnar sem sjálfsagðar eru; Ferðamálastofa vann tillögur um einföldun regluverksins og skýrari umgjörð hins opinbera um atvinnugreinina árið 2014, en verið er að vinna eftir þeim tillögum sem þar voru lagðar fram.
Frá árinu 2015 og til dagsins í dag má svo segja að Ferðamálastofa hafi lagt alla áherslu á að koma að þróunarmálum ferðaþjónustunnar út um landið og sinna lögbundnu hlutverki sínu á sviði svæðisbundinnar þróunar. Frá árinu 2015 höfum við unnið að því að setja af stað verkefni um gerð áfangastaðaáætlana um allt land, þar sem framtíðarþróun ferðaþjónustunnar er skilgreind á heildstæðan og hlutlægan hátt gegnum skýra áætlunargerð sem byggir á stöðugreiningu, raunhæfri framtíðarsýn íbúa jafnt sem ferðaþjónustuaðila og skilgreiningu forgangsröðunar og verkefna; ábyrgð á þeim verkefnum getur legið hvarvetna um þræði mannlífsins. Mönnum ber nú nokkuð saman um að þetta verkefni sé eitt mikilvægasta verkefni ferðaþjónustunnar nú um stundir, enda er þar leitað svara við flestum þeirra áskorana sem að ferðaþjónustunni steðja nú um stundir. Það er gert með því að byrja á að greina þá stöðu sem er, afla svara við spurningunni um hvert menn vilji fara og hvaða áhrif við viljum að ferðaþjónustan hafi á okkur, og greina leiðirnar, verkefnin og verkaðila sem þarf til þess að hin varðaða leið verði fetuð til góðs fyrir atvinnugrein, íbúa og gesti.
Samhliða þessu höfum við unnið að endurskilgreiningu þess kerfis upplýsingaveita sem eiga að tryggja ferðamönnum haldgóðar upplýsingar á ferðum sínum um landið. Bæði þessi verkefni eru unnin í góðri samvinnu fjölmargra aðila og með sterkri aðkomu markaðsstofanna út um landið, enda hafa þær fest sig í sessi sem akkeri stoðþjónustu við atvinnugreinina í öllum landshlutum. Ferðamálastofa leggur starfsemi þeirra og þessum tveimur verkefnum til um 280 milljónir króna þessi misserin, enda lítum við svo á að hér sé um að ræða verkefni sem munu vísa veginn áfram í fjölmörg ár. Ánægjulegt var að sjá þennan skilning endurspeglast í fjárlagafrumvarpi því sem lagt var fyrir hið afar stutta þing núna í haust. Heildstæð vinna á borð við þessa er eins nauðsynleg á landsvísu og ég vonast til þess að sú aðferðafræði sem hér hefur verið innleidd muni gagnast við gerð heildstæðrar stefnumörkunar og áætlanagerðar fyrir landið allt á næstunni.
Og hvar erum við stödd? Hvert skal halda á þessum undarlega vegi sem ferðaþjónustan varðar?
Við erum því betur ekki í sömu stöðu og Björgvin Halldórsson var þegar hann söng texta Jónasar Friðriks um aksturinn á undarlegum vegi:
“Þú ert einn á leið sem enginn maður sér – aleinn á ferð og óljóst hvert á endanum þig ber...”
Ferðaþjónustan er atvinnugrein samstarfsins, einfaldlega vegna þess að ferðaþjónustan snertir alla þræði mannlífsins. Það er enginn einn á leið – og það þarf engan veginn að vera óljóst hvar ferðin endar. Við erum að upplifa mestu samfélagsbreytingar í manna minnum. Ísland er gjörbreytt frá því sem var þegar ég tók við embætti fyrir réttum tíu árum síðan og það er fyrir tilstilli ferðaþjónustunnar. Engin atvinnugrein hefur haft eins víðtæk áhrif á íslenskt samfélag og hún.
Samfélagið okkar samanstendur ekki lengur af íbúum eingöngu, heldur viðvarandi og tímabundnum íbúum sem hrærast saman á öllum vígstöðvum, nýta sömu auðlindir og þjónustu, en hafa kannski ögn mismunandi væntingar til veru sinnar hér á landi. Við lifum öld ferðalangsins – og á okkar æviskeiði munum við skiptast á hlutverkum í sífellu í samhengi ferðaþjónustunnar – stundum verðum við heimamenn og gestgjafar – og stundum ferðamenn og gestir. Okkur verður að auðnast að sætta þessi tvö hlutverk, sýna gestum okkar virðingu og hlýju þegar við erum gestgjafar – og gestgjöfunum kurteisi þegar við erum gestir. Við mannfólkið þurfum að tileinka okkur ný viðhorf.
Öld ferðalangsins getur, ef rétt verður á haldið, orðið öld vinsemdar, tengslamyndunar og skilnings.
En til þessa þurfa allir sem að málum koma að rækja margvísleg hlutverk sín af framsýni og metnaði, en jafnframt að sýna verkefnum og viðfangsefnum hvers annars virðingu. Við þurfum að takast á hendur ábyrgð á eigin hegðun og hlutverkum, taka upplýstar ákvarðanir um rekstur og athafnir. Og þetta á við um hvort heldur sem er stjórnvöld, atvinnugrein, gestgjafa – og gesti.
svartifossGestir þurfa að sýna virðingu og kurteisi (og þetta á að sjálfsögðu ekki síður við um okkur Íslendinga í útlöndum), gestgjafarnir, heimamennirnir, þurfa á móti að vilja rækja gestgjafahlutverk sitt með vinsemd og hlýju.
Atvinnugreinin ber mikla ábyrgð: þarf að nálgast viðskiptavini – en ekki síður heimamenn, sína helstu auðlind – af hógværð, virðingu og skilningi; og takast á við þá þróun sem óhjákvæmilega verður og það hratt í síkvikum nútímanum. Það hefur verið afar ánægjulegt að fylgjast með atvinnugreininni á undanförnum árum; verkefni ferðaklasans um ábyrga ferðaþjónustu, þátttaka fyrirtækja í Vakanum, áherslur Samtaka ferðaþjónustunnar á fræðslumál og nú síðast í dag undirritun fulltrúa atvinnugreinarinnar á alþjóðlegum siðareglum fyrir ferðaþjónustuna eru til vitnis um metnað ferðaþjónustunnar til þess að rækja skyldur sínar af kostgæfni.
Stjórnvalda bíða síðan ekki minnstu verkefnin. Ferðaþjónustan byggir enda tilvist sína á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar og sameiginlegri þjónustu. Stjórnsýslan gegnir mikilvægu hlutverki við það að tryggja sjálfbæran viðgang atvinnugreinarinnar og þá sátt sem þarf að ríkja milli hennar og íbúa. Starfsfólk innan stjórnsýslunnar á að vara stolt af þeim verkefnum sem á því hvílir, takast á við þau af metnaði og láta sér í léttu rúmi liggja stórkarlalegt hjal einstakra aðila, sem tala niður þessi verkefni og það starfsfólk sem þeim sinnir. Aftur: grunnstoðir ferðaþjónustunnar eru sameiginlegar auðlindir þjóðarinnar, ekki séreign einstakra fyrirtækjarekenda. Almenningur hefur og á að hafa tilfinningalegar taugar til þess hvernig þessar auðlindir, þ.e. menning okkar, náttúra og samfélag, eru nýttar og stjórnsýslan á að stíga fram með framsýni og frjóa hugsun að vopni til að leysa þau viðfangsefni sem fyrir liggja. Á sama tíma verðum við að muna að það er einmitt vegna eðlis verkefnanna sem þarf að vanda sig – innan stjórnsýslunnar er ekki höndlað með séreign einstakra starfsmanna, heldur sameign okkar allra og það kallar á vönduð vinnubrögð sem þurfa nægjanlegan tíma. Mótsögnin er að jafnframt þessu er kallað eftir því að stjórnsýslan sýni nægilega snerpu við úrlausn álitaefna. Kannski þurfum við ævinlega að hafa í huga þá reglu sem góður maður sagði mér eitt sinn að hann styddist við í vinnu sinni – að leysa verkefnin sín eins hratt og mögulegt væri, en gefa sér þó nægan tíma til þess.

Sú samfélagsbreyting sem öld ferðalangsins er upphafið að, kallar á gagngera endurskoðun allra áætlana ríkisins, allra fjárhagsramma, allra verkefnalista. Flókin samsetning samfélagsþegna – vegna þess að tímabundnir íbúar eru líka samfélagsþegnar í þessari iðu sem við lifum í – gerir það að verkum að við þurfum að taka inn nýjar víddir og nýja hópa þegar við horfum til framtíðar. Við þurfum að skoða kerfin í heild, ekki einstakar fjárhagslegar útfærslur á afmörkuðum þáttum. Þegar við rýnum í samgöngumálin er t.d. ekki nægjanlegt að horfa til vegagerðar á einstökum svæðum landsins, heldur verður að horfa á samgöngukerfið í heild, veganotkun í samhengi við almenningssamgöngur út um landið, í samhengi við flugsamgöngur innanlands, í samhengi við nýstárlegar hugmyndir um hreyfanleika eftir þörfum – og í samhengi við loftslagsmálin. Við þurfum nýsköpun í samgöngum, ekki bara fjármögnun þeirra.
Ekki síður þurfum við að sinna alþjóðaflugvellinum betur, þessari sameign þjóðarinnar og megingátt okkar til annarra landa. Starfsemi Isavia varðar þjóðina alla og það þarf að vera samhljómur með þeirri starfsemi og almennri stefnumörkun á sviði ferðaþjónustu. Við, eigendur þessa glugga okkar inn og út úr landinu, getum ekki hegðað okkur eins og afskiptalaust foreldri gagnvart þessu fjöreggi sem Keflavíkurflugvöllur er – þarna kemur enn til kasta stjórnvalda, sem verða að marka skýra eigendastefnu um starfsemina, í samhljómi við áherslur í almennri stefnumörkun fyrir ferðaþjónustuna.

Fjaðrárgljúfur

Það er ekki hægt að leysa til frambúðar áskoranir í löggæslu- og öryggismálum með því að auka tímabundið fjárveitingar til einstakra umdæma, heldur þarf – aftur – að taka upp kerfið í heild, greina almennar þarfir og hvernig þær spila saman við aðra áætlanagerð sem tengjast ferðaþjónustu og samfélagsþjónustu.
Náttúruverndarsjónarmið og nýting náttúruauðlinda þjóðarinnar eru einnig samtvinnuð ferðaþjónustunni, en við megum ekki falla í þá gryfju að setja samasemmerki milli náttúruverndarsvæða og ferðamannastaða – heldur verðum við aftur að skoða kerfin í heild og tryggja að bæði sjónarmið – sjónarmið um verndun náttúru og sjónarmið um ferðamennsku í náttúrunni njóti virðingar og jafnræðis í umræðu og áætlanagerð. Vinna að gerð landsáætlunar vekur vonir um að á þessu sviði sé ráðist í mótun nauðsynlegrar heildarsýnar.
Þetta eru mál sem bíða nýrra stjórnvalda að loknum kosningum. Og þau eru hvorki léttvæg né einföld. Það er hárrétt sem haft var eftir framkvæmdastjóra SAF á dögunum að ferðamál eiga að sjálfsögðu að verða stærsta málið í komandi kosningum – einfaldlega vegna þess að ferðamálin tengjast öllum hinum málunum og kalla á nýja nálgun í öllum okkar hugsunum um samfélagsmál.
Tíu ár eru ekki langur tími í samhengi hlutanna – og þessi tíu ára þróun á Íslandi og innan íslenskrar ferðaþjónustu hefur verið afar hröð. Enginn getur séð fyrir hvernig næstu tíu ár verða, en það er vonandi að við munum geta horft keik um öxl að áratugi liðnum og staðfest að við höfum mætt nýjum samfélagslegum áskorunum með sóma. Áratugur mun líða sem örskotsstund, þannig að nú er að bretta upp ermar.
Hins vegar eru tíu ár dágóður hluti af mannsævi, þrátt fyrir að vægi þeirra í heildarmyndinni minnki e.t.v. með árunum. Þannig voru tíu ár 25% af ævi minni þegar ég tók við þessu embætti – en eru bara 20% nú.
Núna um áramót verða tíu ár síðan ég tók við embætti ferðamálastjóra. Þá mun ég hafa setið tvö skipunartímabil, en ráðherra er heimilt að auglýsa stöður embættismanna á fimm ára fresti. Á undanförnum árum hefur af ýmsum ástæðum verið vaxandi vilji meðal stjórnvalda til þess að þessi heimildarákvæði séu nýtt, og það er skemmst frá því að segja að ráðherra ákvað í júní síðast liðnum að auglýsa stöðu ferðamálastjóra lausa frá og með næstu áramótum.
Ég hef um þó nokkurt skeið leitt hugann að þessum tímamótum og tók fyrir allnokkru þá ákvörðun að ef úr yrði að ráðherra nýtti sér heimild til þess að auglýsa embætti laust til umsóknar, þá myndi ég ekki sækjast eftir því að nýju. Ákvörðun ráðherra liggur fyrir og ég mun því hverfa úr embætti núna um áramótin. Framundan er spennandi tími hér heima og að heiman.
Ég hef átt þeirrar gæfu að njóta undanfarinn áratug að fá að takast á við ótalmörg spennandi verkefni. Það hefur yfirleitt verið gaman í vinnunni – stundum erfitt – en alltaf áhugavert. Ég hef miklar taugar til þessarar mikilvægu atvinnugreinar og tel mig hafa notið forréttinda, enda hef ég upplifað og tekið þátt í endurmótun íslensks samfélags í gegnum þá atvinnugrein sem ég hef verið svo heppin að fá að sinna.
Ég hef líka átt því láni að fagna að kynnast afar mörgu skemmtilegu og góðu fólki á tíma mínum sem ferðamálastjóri. Það er ekki ofsagt að skemmtilegasta fólkið sé að finna meðal þeirra sem vinna við að tryggja öðrum upplifun.
Ég hef unnið með afar mörgu fólki innan og utan atvinnugreinarinnar að fjölmörgum skemmtilegum verkefnum. Við eigum vaxandi auð þekkingar á málefnum ferðaþjónustunnar víða í samfélaginu og ekki síst innan fræðasamfélagsins sem hefur kennt mér svo fjölmargt á undanförnum árum.
Síðast en ekki síst hef ég verið afar lánsöm með samstarfsfólkið innan minnar stofnunar. Ég vinn með frábæru fólki, sem hefur tekið við okkar mörgu verkefnum á undanförnum árum með jákvæðni, fagmennsku og alúð að leiðarljósi. Ég fæ þeim ekki nógsamlega þakkað samfylgdina síðasta áratug.
Það er komið að því að þakka fyrir mig. Takk fyrir samfylgdina og takk öll fyrir að gera ferðaþjónustuna að því afli sem hún er í íslensku samfélagi í dag.