Ferðalausnir – Stafræn tækifæri í ferðaþjónustu
Ferðamálastofa í samstarfi við Íslenska ferðaklasann mun á næstu mánuðum standa fyrir hagnýtum vef-vinnustofum undir nafninu Ferðalausnir - Stafræn tækifæri. Markmiðið er að sýna, kynna og miðla þekkingu og reynslu til fyrirtækja í ferðaþjónustu á sviði aukinnar tækni og öflugri miðlunar.
Áskoranir ferðaþjónustufyrirtækja
Fyrirtæki í ferðaþjónustu standa frammi fyrir að velja milli fjölda nýrra tæknilausna, fjölbreyttra tóla og nýrra aðferða til að ná til viðskiptavina sinna og gesta. Nú sem aldrei fyrr eru tækifæri í að efla tækni á öllum stigum sem geta leitt til aukinnar framleiðni og bættrar afkomu ferðaþjónustufyrirtækja.
Þekkingu miðlað með rafrænum hætti
Markmið Ferðamálastofu og Íslenska ferðaklasans með framtakinu er fyrst og fremst að koma á framfæri hvernig mismunandi aðferðir hafa nýst aðilum og leita leiða til að miðla þeirri reynslu á eins milliliðalausan hátt og mögulegt er. Allir geta nálgast efnið á þeim tíma sem hentar best, óháð staðsetningu.
Nýtt efni hálfsmánaðarlega
Fyrstu vef-vinnustofurnar eru fyrirlestrar sem munu snúa að leiðum til að minnka milliliði í sölu, hvernig megi hámarka notkun samfélagsmiðla og hvernig Mælaborð ferðaþjónustunnar nýtist við markaðs og sölustarf. Vef-vinnustofurnar verða aðgengilegar á vef Ferðamálastofu og mun nýtt efni vera frumsýnt á tveggja vikna fresti.
Milliliðalaust samband við viðskiptavini
Það er Helgi Þór Jónsson hjá Markaðshúsinu Sponta sem ríður á vaðið. Í þessu kennslumyndbandi ferhann yfir grundvallaratriðin í því hvernig ferðaþjónustuaðilar geta lækkað rekstrarkostnað með því að rækta milliliðalaust samband við ferðamenn og fá fleiri beinar bókanir, án þóknunargjalda.
Ábendingar vel þegnar
Ferðamálastofa og Íslenski ferðaklasinn vonast til að efnið sem framleitt verður nýtist sem flestum og taka á móti öllum ábendingum sem aðilar kunna að hafa eða tillögum að efni sem fyrirtæki óska sérstaklega eftir að rýnt verði. Ábendingar má senda á stafraennheimur@ferdamalastofa.is