Ferðamálastofa birtir fjárhagsupplýsingar atvinnugreina og fyrirtækja í ferðaþjónustu
Ferðamálastofa hefur birt fjárhags- og rekstrarupplýsingar fyrirtækja í öllum helstu greinum ferðaþjónustu fyrir árið 2018 á heimasíðu sinni og í Mælaborði ferðaþjónustunnar.
Þar er hægt að skoða fjárhag, rekstur, sjóðstreymi og lykilkennitölur eftir undirgreinum ferðaþjónustu, landssvæðum, stærð fyrirtækja og einstökum fyrirtækjum.
Í gagnagrunninum eru tæplega 1.900 fyrirtæki sem uppfylla skilyrði ÍSAT-flokkunar um að tengjast ferðaþjónustu, eru á félagsformi, skila skattframtali sínu á Íslandi, voru með meira en 5. m.kr. í veltu á árinu 2018 og ekki með útistandandi fjárnám.
Í mælaborði ferðaþjónustunnar er búið að taka helstu upplýsingar saman fyrir notendur, sem þeir geta skoðað út frá mismunandi forsendum, en einnig geta notendur sótt hrágögnin beint í mælaborðið á Excel-formi til frekari greiningar.
Ferðamálastofa hyggst uppfæra þessar upplýsingar þegar nýjar tölur verða aðgengilegar. Má gera ráð fyrir að tölurnar fyrir árið 2019 verði tilbúnar með haustinu.