Ferðamálastofa kolefnisjafnar
Ferðamálastofa hefur tekið það mikilvæga og ánægjulega skref að kolefnisjafna allar ferðir starfsfólks sem farnar eru á vegum stofnunarinnar, jafnt innanlands sem utan. Þannig var síðastliðinn fimmtudag undirritað samkomulag milli Ferðamálastofu og Kolviðar um að stofnunin greiði Kolviði árlega fyrir að planta trjám til að binda kolefni sem fellur til vegna umræddra ferða.
Áætlað er að kolefnislosun í öllum ferðum starfsfólks sé um 17,4 tonn CO2 á ári. Eins og flestir vita þá leggur ferðaþjónustan því miður töluvert til losun á CO2 og mun gera á komandi árum. Því er mikilvægt að við sem að greininni komum gerum allt sem í okkar valdi stendur til að vinna gegn þeim neikvæðu áhrifum sem þessi losun hefur á umhverfið, Ferðamálastofa vill því með þessu leggja sitt af mörkum í þessum efnum og er samningurinn við Kolvið liður í þeirri vegferð. Ferðamálastofa skorar á alla innan ferðaþjónustunnar sem og aðra að vinna gegn kolefnislosun svo að ferðaþjónustan haldi áfram að blómstra um ókomna tíð.