Ferðamálastofa leiðir verkefni um stafræna væðingu ferðaþjónustu
Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2019. Í formennskuáætlun Íslands er sjónum beint að málefnum ungs fólks, hafinu og sjálfbærri ferðamennsku. Ferðamálastofa leiðir eitt þriggja verkefna, sem varða sjálfbæra ferðamennsku í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið. Verkefnið ber heitið Stafræn væðing ferðaþjónustu og þátttakendur eru, auk Íslands, Grænland og Finnland.
Aukin samkeppnishæfni
Markmið verkefnisins er að stuðla að aukinni samkeppnishæfni ferðaþjónustu á grunni jafnvægis samfélagslegra-, efnahagslegra- og umhverfislegra sjónarmiða. Í því samhengi er stefnt að því að niðurstöður verkefnisins leiði til aukinnar notkunar stafrænnar tækni meðal ferðaþjónustuaðila við daglegan rekstur, markaðssetningu og þróun þjónustu fyrir ferðamenn.
Vekja athygli á tækifærum opinberra aðila
Jafnframt er verkefninu ætlað að vekja athygli á tækifærum opinberra aðila til að nýta stafræna tækni m.a. við miðlun hvers kyns upplýsinga, s.s. á sviði öryggis- og umhverfismála, og við framkvæmd eftirlits og styðja þannig við sjálfbæran framgang greinarinnar.
Nýtist við stefnumótun
Stefnt er að því að niðurstöður verkefnisins nýtist stjórnvöldum á Norðurlöndum við stefnumótun ferðaþjónustu m.a. á grunni greininga, miðlunar áhrifaríkra aðferða og forgangsröðunar áhersluverkefna.
Leggi grunn að vakningu ferðaþjónustuaðila
Þá er verkefninu ætlað að leggja grunn að vakningu ferðaþjónustuaðila um tækifæri stafrænna lausna til að auka skilvirkni og bæta upplifun ferðamanna.
Vefsíða opnuð með vorinu
Liður í því að kynna verkefnið almenningi og hagsmunaðilum og halda jafnframt utan um framvindu þess er stofnun sérstakrar vefsíðu. Þar verður hægt að nálgast upplýsingar um verkefnið, þátttakendur og niðurstöður, auk ýmissa gagna og greininga sem framkvæmdar verða. Þá mun almenningur og hagmunaðilar geta sent tillögur, hugmyndir og sjónarmið til þátttakenda verkefnisins í gegnum þar til gerða gátt, sem verður aðgengileg á vefnum sem opnar í vor.
Nánari upplýsingar: Ólafur Reynir Guðmundsson - olafur@ferdamalastofa.is