Ferðaskrifstofuleyfi tryggir hagsmuni neytenda
Ferðamálastofa vill vekja athygli á að sala pakkaferða eða alferða (þar sem t.d. flutningur og gisting er selt saman) er leyfisskyld. Aðeins handhafar ferðaskrifstofuleyfa mega selja slíkar ferðir til almennings. Ferðamálastofa beinir því til fólks að varast leyfislausa aðila og kaupa pakkaferðir eingöngu af þeim sem eru með ferðaskrifstofuleyfi.
Hagsmunir neytenda tryggðir
Ferðaskrifstofum ber skylda til að hafa sérstaka tryggingu komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar. Kaupendur pakkaferða eiga þá rétt á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar sem greidd hefur verið vegna pakkaferðar ef hún er ófarin. Sé ferð hafin eiga viðskiptavinir rétt til heimflutnings eða þeim sé gert kleift að ljúka ferð í samræmi við upphaflega áætlun.
Varist leyfislausa aðila
Ýmis konar framboð af pakkaferðum t.d. fótbolta- og lífsstílsferðum má finna á samskiptamiðlunum þar sem í boði er flug, gisting og miðar á leiki eða heilsutengda þjónustu. Við skoðun Ferðamálastofu hefur komið í ljós að margir þeirra sem bjóða slíkar ferðir til sölu eru án leyfis og því er um ólöglega starfsemi að ræða.
Listi yfir leyfishafa
Á vef Ferðamálastofu má finna lista yfir útgefin ferðaskrifstofuleyfi. Ferðamálastofa hvetur þá sem hyggja á kaup á pakkaferðum að ganga úr skugga um að þær ferðaskrifstofur sem þeir versla við hafi ofangreinda tryggingu og fái staðfestingu á að trygging sé nægjanleg komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar.
Frekari upplýsingar um starfsemi ferðaskrifstofa má nálgast undir liðnum Leyfi og löggjöf hér á vefnum.