Ferðaþjónustureikningar 2009-2015
Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 6,7% árið 2015. Þetta er meðal þess sem fram kemur í ferðaþjónustureikningum sem Hagstofan birti í heild sinni í gær fyrir árin 2009 til 2015 og að hluta fyrir árið 2016. Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar.
Aldrei meiri vaxtarhraði
Í umfjöllun Hagstofunnar kemur fram að til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustunnar í landsframleiðslu 5,6% árið 2014 og 4,9% árið 2013. Vaxtarhraði ferðaþjónustunnar, mældur sem aukning í hlutdeild landsframleiðslu milli ára, hefur aldrei mælst meiri en árið 2015. Sé horft aftur til ársins 2011 hefur vöxturinn verið örari með hverju árinu.
Bráðabirgðatölur 2016
Sem fyrr segir þá taka fyrrgreindar tölur til áranna 2009-2015. Bráðabirgðatölur um áætlaða hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2016 verða birtar 4. október næstkomandi.
Meðal þess sem fram kemur í ferðaþjónustureikningum er:
- Hlutur ferðaþjónustu samanborið við aðra atvinnugreinaflokka
- Neysla ferðamanna
- Fjöldi ferðamanna
- Fjöldi næturgesta
- Nýting gistirýmis
- O.fl.