Hægari vöxtur í alþjóðaflugi á árinu 2019
Eftirspurn í farþegaflugi á alþjóðavísu jókst um 4,2% á milli áranna 2018 og 2019, samkvæmt nýbirtum tölum Alþjóðsambands flugfélaga (IATA). Mælikvarðinn sem IATA notar er seldir sætiskílómetrar (e. revenue passenger kilometers - RPK).
Krefjandi tímar
Þótt þetta sé lægra en langtímaleitni í fluginu með árlegan vöxt upp á um 5,5%, og verulega undir 7,3% vexti ársins 2018, er niðurstaðan talin viðunandi í ljósi ýmissa óhagstæðra ytri aðstæða. Er í því sambandi vísað til minnkandi alþjóðaverslunar, viðskiptatogstreitu, Brexit, Max-málsins o.fl. Engu að síður er þetta í fyrsta sinn síðan í fjármálakreppunni 2009 sem aukning í eftirspurn fer undir 5,5% meðalársvöxtinn og heilt yfir var árið krefjandi fyrir alþjóðaflugið, að mati IATA. Þá hefur árið 2020 hafist með nýjum áskorunum þar sem fréttir af kórónaveirunni ber hæst.
Best nýting í Evrópu
Sé litið til evrópskra flugfélaga sérstaklega þá jókst eftirspurnin um 4,4% á milli ára, framboðið jókst um 3,7% og sætanýting batnaði um 0,6%. Þannig var sætanýting í Evrópu sú besta á heimsvísu, eða 85,6%.
Tölur IATA um farþegafjölda í flugi 2019 eru heldur hærri en þó á svipuðum slóðum og mat Alþjóðaferðamálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNWTO) á fjölda ferðamanna á milli landa á árinu. UNWTO mat fjölgun þeirra á heimsvísu vera 3,8% og 3,7% í Evrópu.
Eftirspurn í innanlandsflugi jókst að meðaltali um 4,5% frá árinu 2018. Mestur var vöxturinn í Kína (7,8%) og Rússlandi (6,7%).