Inga Rós ráðin verkefnastjóri stafrænnar ferðaþjónustu
Inga Rós Antoníusdóttir hefur verið ráðin í stöðu verkefnastjóra á sviði stafrænnar ferðaþjónustu.
Starfs- og ábyrgðarsvið
Markmið Ferðamálastofu er að Ísland verði leiðandi á sviði stafrænnar þróunnar í ferðaþjónustu. Í síbreytilegum heimi þar sem tæknin þróast hraðar en nokkru sinni fyrr er mikilvægt greina hvernig stafræn þróun nýtist íslenskri ferðaþjónustu sem best. Þessari þekkingu þarf að miðla til ferðaþjóna hér á landi og efla samstarf við hagaðila á sviði stafrænnar þróunnar og upplýsingagjafar, jafnt innanlands sem utan. Auk þess þarf að efla og stýra aðkomu Ferðamálastofu að því stafræna ferðalagi sem gestirnir okkar fara í gegnum frá því að hugmynd að Íslandsferð fæðist og þar til heim er komið.
Víðtæk reynsla
Inga Rós er menntuð í alþjóðaviðskiptum með áherslu á þvermenningarleg samskipti frá Copenhagen Business School, auk kennaragráðu frá HÍ. Hún hefur á liðnum árum aflað sér víðtækrar reynslu og þekkingar á hinum stafræna heimi, með kennslu, ráðgjöf og sem markaðsstjóri með áherslu á stafrænar lausnir.
Búsett í Kaupmannahöfn
Undanfarin ár hefur Inga Rós verið búsett í Kaupmannahöfn og mun sinna starfinu þaðan. Starf án staðsetningar er nýjung nú regla hjá Ferðamálastofu og helst í hendur við þá þróun sem á sér stað í atvinnumálum í stafrænum heimi.
Starfsfólk Ferðamálastofu býður Ingu Rós velkomna og hlakkar til samstarfsins.