Fara í efni

Ítarlegri þekking á viðhorfi og atferli ferðamanna

Ástand ferðamannastaða, öryggisþættir og aðgengi eru þeir þættir sem ferðamenn eru ánægðastir með en mannfjöldi á ferðamannastöðum og ástand vega fær lökustu útkomuna. Almennt eru ferðamenn afar sáttir við heimsókn sína til landsins. Að meðaltali dvöldu gestir 9,3 nætur í ágúst en 5 nætur í nóvember. Íbúar frá meginlandi Evrópu eru þeir sem dvelja lengst á landinu og tæp 6% ferðamanna gistu í tjaldi eða húsbíl utan skipulagðra tjaldsvæða síðastliðið sumar.

Þetta er meðal fjölmargra áhugaverðra niðurstaðna úr nýrri könnun Ferðamálastofu fyrir tímabilið júlí til nóvember 2017. Með könnuninni verður til ítarlegri þekking á viðhorfi og atferli erlendra ferðamanna heldur en hingað til hefur legið fyrir. Þar skipta mestu reglulegri gagnasöfnun og örari birting á niðurstöðum sem ætlað er að skapa kjölfestu til framtíðar í þekkingu á þessari undirstöðuatvinnugrein. Lykilniðurstöður hafa nú verið birtar í Mælaborði ferðaþjónustunnar en meira mun bætast við á næstunni eftir því sem úrvinnslu niðurstaðna vindur fram.

Hagstofan kemur einnig að könnuninni og munu þær niðurstöður nýtast í útgáfum Hagstofunnar varðandi þjónustuviðskipti við útlönd, gistinætur, þjóðhagsreikninga og ferðaþjónustureikninga.


Meðaldvöl rúmar 9 nætur í ágúst

Dvalarlengd er mikilvægur mælikvarði til að meta umfang ferðaþjónustunnar og með niðurstöðum könnunarinnar má nú greina hana eftir mánuðum. Þannig var meðaldvöl þeirra sem hingað komu lengst í ágúst, 9,3 nætur en styst 4,9 nætur í nóvember.

Evrópubúar dvelja lengst

Að sumri og hausti er algengast að ferðamenn séu að dvelja á bilinu 6-8 daga en þegar kemur fram í nóvember eru tveir af hverjum þremur að dvelja á bilinu 2-5 daga. Líkt og fyrri kannanir hafa sýnt eru það gestir frá meginlandi Evrópu sem að jafnaði
eru að dvelja lengst á meðan Bretar eru með stystu meðaldvölina.  Áhugavert er síðan að sjá hversu áþekk meðaldvöl gesta frá Japan og SA-Asíu er bæði sumar og vetur, eða á bilinu 5,9-7,3 nætur.

Gistimátinn er nokkuð ólíkur eftir því hvaða tímabil er skoðað. Þannig voru hótel, hótelíbúðir og gistiheimili með um 60% af hlutdeild gistingar í nóvember, sem er tvöfalt meira en í ágúst þegar hún var 29%. Hlutdeild íbúðagistingar var áþekk á báðum tímabilum, 15-17%. Þá er einnig áhugavert að geta séð hvað meðaldvöl var breytileg eftir gistimáta og voru gestir tjaldsvæða, hvort heldur í tjaldi eða húsbíl, að dvelja flestar nætur síðastliðið sumar.

Langflestir gesta voru að koma til landsins í frí eða 86,4% og viðskiptalegur tilgangur var nefndur í 3,5% tilvika. Aðrir voru að heimsækja vini og ættingja, í tímabundinni vinnu eða nefndu aðra ástæðu.

Hvað gista margir í óskráðri gistingu?

Með könnunni er nú einnig hægt að meta með nákvæmari hætti umfang gistingar sem ekki kemur inn í gistináttatölur Hagstofunnar. Þannig má sjá að 4,3% ferðamanna gistu hjá vinum eða ættingjum, höfðu íbúðaskipti eða voru "sófagestir" og 3,9% gistu í tjaldi eða húsbíl utan skipulagðra tjaldsvæða á því tímabili sem könnunin náði til.

Með hliðsjón af dvalarlengd má t.d. áætla að 17% gistinátta í ágúst hafi verið hjá vinum, ættingjum eða í tengslum við íbúðaskipti og „sófagesti“. Þetta hlutfall er 8,8% í nóvember.

Meðmælaskor hækkar með haustinu

Út frá könnuninni má reikna svokallað meðmælaskor (e. Net Promoter Score - NPS). Um er að ræða alþjóðlegan mælikvarða sem segir til um hversu líklegt eða ólíklegt er að mælt sé með tilteknum áfangastað, vöru eða þjónustu. Þannig er því ætlað að mæla frammistöðu ferðamannalandsins Íslands. Meðmælaskorið er óbreytt frá sumrinu 2016, eða 71, sem telst mjög hátt í alþjóðlegum samanburði. Með haustinu hækkar svo meðmælaskorið enn frekar eða upp í 77.

Meira niðurbrot og aukin nákvæmni

Könnunin er umfangsmikil og byggja spurningarnar að talsverðu leyti á spurningalistum frá fyrri viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið á vegum Ferðamálastofu, síðast sumarið 2016.

Stærsta breytingin frá fyrri könnunum er að með reglulegri gagnasöfnun og birtingu í Mælaborði ferðaþjónustunnar er nú hægt að brjóta niðurstöðurnar niður á mánuði og tímabil og fá þannig nákvæmari niðurstöður og áreiðanlegri tölfræði um atferli og viðhorf ferðamanna. Lykilatriði er að nú hafa skapast forsendur fyrir örari birtingu á niðurstöðum og þannig hægt að fylgjast betur með breytingum og þróun í atvinnugreininni.

Næstu birtingar

Þær niðurstöður sem nú eru aðgengilegar eru aðeins hluti þeirra gagna sem safnað er. Fleiri niðurstöður munu koma inn í Mælaborðið á næstunni eftir því sem úrvinnslu vindur fram, s.s. varðandi bókunarferlið, hvað hafði áhrif á ákvörðun um að heimsækja landið, hvaða landshlutar voru heimsóttir, hvaða afþreying var nýtt o.fl.

Könnunin er tvískipt, þ.e. við brottför á Keflavíkurflugvelli er spurt nokkurra spurninga og þeir sem samþykkja frekari þátttöku fá síðan sendan hlekk í tölvupósti með spurningalista sem svarað er eftir heimkomu. Framvegis er stefnt á að mánaðarlega verði birtar niðurstöður helstu spurninga sem spurt er á flugvellinum en niðurstöður þessa hluta sem svarað er eftir að heim er komið muni birtast að lokinni hverri árstíð.

Könnunin er framkvæmd af danska fyrirtækinu Epinion, sem er alþjóðlegt fyrirtæki í gerð flugvallarkannana. Úrvinnsla gagna er í höndum Ferðamálastofu og Stjórnstöðvar ferðamála í samvinnu við ráðgjafafyrirtækið Deloitte.