Kynningarfundir vegna umsókna í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða
Á næstunni verða haldnir kynningarfundir vegna umsókna í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða. Dagsetning er komin á þrjá fyrstu fundina sem verða á Norðurlandi og Austurlandi 10. og 11. október og dagsetningar funda víðar um land verður auglýstar þegar þær liggja fyrir. Umsóknarfrestur fyrir næstu úthlutun er til 25. október.
Sveitarfélög og einkaaðilar sæki um
Líkt og fram hefur komið þá er nú í kjölfar lagabreytinga auglýst eftir umsóknum í sjóðinn í samræmi við nýjar reglur sem um hann gilda. Meginbreyting felst í því að ekki er lengur gert ráð fyrir því að ríkið sæki um heldur er hægt að sækja um styrki til uppbyggingar, viðhalds og verndunar mannvirkja og náttúru á ferðamannastöðum sem eru í eigu eða umsjón sveitarfélaga eða einkaaðila. Einnig er nýmæli að ráðherra ferðamála hefur lagt áherslu á nýja ferðamannastaði til að dreifa ferðamönnum, sem endurspeglast í nýju gæðamati sjóðsins.
Einkaaðilar, starfsmenn sveitarfélaga og sveitastjórnarfólk er sérstaklega hvatt til þess að mæta.
Dagskrá kynningarfunda
Á kynningarfundunum munu starfsmenn Ferðamálastofu m.a. fara yfir;
- Breytingar á sjóðnum vegna breyttra laga og reglugerðar.
- Hverskonar verkefni eru styrkhæf í sjóðinn og hver ekki.
- Gæðamat sjóðsins og nýtt gæðamatsblað.
- Umsóknarferlið og umsóknareyðublað sjóðsins.
- Hvernig er sótt um sjóðinn?
Dagsetningar og staðir
Þriðjudaginn 10. október í samvinnu við Eyþing, samband sveitarfélaga í Eyjafirði og Þingeyjarsýslu:
-Hótel KEA á Akureyri kl. 11.00 – 12.30
-Seiglunni, Laugum í Þingeyjarsveit kl. 15-16.30.
Miðvikudaginn 11. október í samvinnu við SSA, samtök sveitarfélaga á Austurlandi:
-Húsnæði Austurbrúar á Egilsstöðum, Tjarnarbraut 39, kl. 12.30-14.00.