Mælaborðið birtir lykilmælikvarða ferðaþjónustunnar
Í Mælaborði ferðaþjónustunnar er nú hægt að fylgjast með þróun þeirra lykilmælikvarða sem skilgreindir voru í Vegvísi í ferðaþjónustu og ætlað er að meta stöðu, árangur og ávinning greinarinnar. Tilgangurinn er, að með einföldum hætti sé hægt að fylgjast með hvernig þessir grundvallarþættir eru að þróast og auðvelda þannig ákvarðanatöku og markmiðasetningu.
Sex af níu tilbúnir
Búið er að draga saman og birta gögn fyrir sex af þeim níu mælikvörðum sem skilgreindir eru í Vegvísinum. Þeir eru:
- Hærra hlutfall ferðamanna komi til landsins utan háannar
- Hlutfall gistinátta á hótelum og gistiheimilum utan háannatíma á landsbyggðinni aukist
- Endurkomuhlutfall ferðamanna hækki
- Meðmælaskor erlendra ferðamanna mælist hátt
- Viðhorf landsmanna til ferðaþjónustu mælist jákvætt
- Virðisauki í ferðaþjónustu skili sér í sífellt hærra framlagi til v.landsframleiðslu
Forsenda fyrir markmiðasetningu
Líkt og fram kemur í Vegvísinum þá eru áreiðanleg og mælanleg gögn lykilforsenda allar markmiðasetningar. Nú þegar gögn fyrir mælikvarðana hafa verið gerð aðgengileg, skapast þannig forsendur til að skilgreina töluleg gildi fyrir þau markmið sem stefnt er að.
Þróast með jákvæðum hætti
Ljóst er þegar mælikvarðarnir eru skoðaðir að þeir hafa flestir verið að þróast með jákvæðum hætti. Frá árinu 2011 hefur t.d. hlutfall ferðamanna sem koma til landsins utan háannar hækkað úr 51% í 65%, hlutfall gistinátta á landsbyggðinni utan háannar vaxið í öllum landshlutum í og hlutfall ferðaþjónustu í landsframleiðslu hækkað úr 3,7% í 8,6%.