Ný rauntímagögn um verðþróun á hótelum
Ferðamálastofa hóf í byrjun apríl að safna gögnum um verð á tæplega 60 hótelum víðsvegar um land. Gögnin sýna verðþróun þessara gististaða 90 daga fram í tímann og m.a. hvernig verðið breytist eftir lengd á fyrirvara bókunar. Þau eru nú orðin aðgengileg í Mælaborði ferðaþjónustunnar.
Sótt daglega
Gögnin eru sótt daglega af booking.com og er ódýrasti möguleikinn á hverjum gististað valinn miðað við eina gistinótt fyrir tvo í „standard double“ eða „standard twin“ herbergi eða svítu. Verð eru sýnd í evrum til að draga úr verðsveiflum sem eru tilkomnar vegna gengis.
Vísbending um væntingar bæði fyrirtækja og ferðamanna
Þessi áhugaverðu rauntímagögn geta gefið ýmsar áhugaverðar upplýsingar um þróun ferðaþjónustunnar og væntingar bæði fyrirtækja og ferðamanna. Þannig má sjá að þegar skoðaðar eru ákveðnar dagsetningar fram í tímann birtist mynd sem sýnir verðbreytingu eftir fyrirvara bókunar. Tímabilið sem sem notað er nær frá 90 dögum fyrir bókun til samdægurs. Á myndinni hér að ofan má þannig sjá að ódýrara er að bóka sem nær dregur degi gistingar.