Sameiningar ferðaþjónustufyrirtækja: Nauðsynlegt að gera Ferðamálastofu aðvart
Mynd: ©Ragnar Th. Sigurðsson
Með vísan í fréttir fjölmiðla undanfarna daga um auknar sameiningar ferðaþjónustufyrirtækja, er vert að minna á mikilvægi þess að aðilar geri Ferðamálastofu viðvart þegar í hlut eiga ferðaskrifstofur eða ferðaskipuleggjendur. Um er að ræða leyfisskylda starfsemi þar sem gera þarf breytingar á tryggingum og fleiri þáttum, í kjölfar sameiningar eða annarra grundvallarbreytinga á starfseminni.
Hefur áhrif á tryggingar og fleiri þætti
Hvað varðar ferðaskrifstofur þá skulu þær samkvæmt lögum hafa tryggingu fyrir endurgreiðslu fjár sem viðskiptavinur hefur greitt vegna alferðar, komi til gjaldþrots eða rekstrarstöðvunar ferðaskrifstofu. Trygging skal einnig ná til þess að gera viðskiptavini kleift að ljúka alferð í samræmi við upphaflega áætlun hennar. Tryggingin getur verið í formi ábyrgðaryfirlýsingar frá banka eða innlagnar tryggingarfjárhæðarinnar inn á bankareikning í nafni Ferðamálastofu. Komi til sameiningar eða álíka breytingar á starfsemi, þarf að breyta tryggingum, stöðuforsvarsmanns og fleiri þáttum er varða leyfið.
Gildir einnig um ferðaskipuleggjendur
Varðandi ferðaskipuleggjendur þá hefur sameining væntanlega í för með sér að gera þarf breytingar á stöðu forsvarsmanns og eftir atvikum fella niður annað leyfið, svo dæmi séu tekin.
Allar nánari upplýsingar eru veittar hjá Ferðamálastofu í síma 535-5500 eða upplysingar@ferdamalastofa.is