Síldarminjasafnið fær Umhverfisverðlaunin 2017
Frá afhendingu umhverfisverðlauna Ferðamálastofu 2017. Frá vinstri: Helena Þ. Karlsdóttir, forstöðumaður stjórnsýslu og umhverfissviðs Ferðamálastofu, Ólöf Ýrr Atladóttir ferðamálastjóri, Örlygur Kristfinnsson og Aníta Elefsen frá Síldarminjasafninu, Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra og Guðrún Dóra Brynjólfsdóttir og Hjörleifur Finnsson sem halda utan um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða hjá Ferðamálastofu.
Síldarminjasafnið á Siglufirði hlýtur Umhverfisverðlaun ferðamálastofu árið 2017 fyrir fegrun umhverfis og bætt aðgengi. Verkefnið var lokaáfangi í byggingu bryggjupalla milli safnhúsanna þriggja og uppsetningu lýsingar á svæðinu.
Hefur skapað nauðsynlega heildarmynd
Tenging safnhúsanna þriggja hefur skapað nauðsynlega heildarmynd safnsvæðisins og auðveldað öllum gott aðgengi milli húsa. „Frágangur bryggju og ljósastaura endurvekur tíðaranda en hafa verið aðlagaðir nýju hlutverki. Þessar framkvæmdir hafa að mati dómnefndar verið vel unnar, skapað fallega bæjarmynd og náð að fanga þann staðaranda sem byggir á bæjarsögunni,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, er hún tilkynnti um verðlaunin á Ferðamálaþingi 2017 í Hörpu í dag og afhenti fulltrúum Síldarminjasafnsins, þeim Anítu Elefsen og Örlygi Kristfinnssyni, verðlaunagripinn Sjónarhól.
„Ásýnd bæja, fagurfræðileg gæði og styrking staðaranda er afar mikilvæg fyrir íbúa, en einnig mikilvægur hlekkur í þeirri viðleitni að laða ferðamenn á nýja staði utan þeirra leiða sem mest eru ásetnar nú. Styrking ferðaþjónustu í þéttbýliskjörnum við strendur landsins og uppbygging þjónustutækifæra á þeim stöðum er skref í að stuðla að sjálfbærni ferðaþjónustunnar hér á landi,“ sagði Þórdís Kolbrún.
Menningar- og atvinnusaga verður að sterku aðdráttarafli
Það var mat dómnefndar að Síldarminjasafnið á Siglufirði sé gott dæmi um frumkvöðlavinnu, þar sem menningar- og atvinnusaga bæjarfélags hefur orðið að aðdráttarafli fyrir ferðafólk og verið mikilvægur liður í að endurnýja bæjarbraginn. Umhverfismálin, ásýnd og aðgengi eru afar mikilvægir þættir í þeirri sköpun.
Dómnefndin í ár var skipuð Halldóri Eiríkssyni arkitekt og formanni stjórnar Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða, Helenu Guttormsdóttur lektor og námsbrautastjóra Umhverfisskipulagsbrautar Landbúnaðarháskóla Íslands og Ólöfu Ýrr Atladóttur ferðamálastjóra.
Veitt árlega frá árinu 1995
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu hafa verið veitt árlega frá árinu 1995 og var þetta því í 23. sinn sem þau voru afhent. Undanfarin ár hefur sá háttur verið að á að velja verðlaunahafa úr tilnefningum sem borist hafa Ferðamálastofu. Verðlaunin eru nú í annað sinn veitt fyrir verkefni sem hlotið hafa styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða á tímabilinu 2014-2016 og eru til fyrirmyndar. Það þýðir að verkefninu sé lokið, reglum framkvæmdasjóðsins fylgt og það hafi verið í samræmi umhverfistefnu Ferðamálstofu og áherslur Framkvæmdasjóðsins um sjálfbæra þróun og gæði hönnunar og skipulags.
Um verðlaunagripinn:
Verðlaunagripurinn ber heitið ,,Sjónarhóll“ og eru höfundar hans Jón Helgi Hólmgeirsson og Védís Pálsdóttir. Hugmyndin bakvið gripinn er hvernig hægt er að upplifa náttúruna frá mismunandi sjónarhornum og þá einstöku upplifun hvers og eins að nálgast áfangastað. Látúnstangir mynda þrívíðan hól úr uppréttum hæðarlínum á meðan línuteikningar bæta við hólinn hlíðum og árfarvegum. Hóllinn varpast í speglum sem myndar nýjar víddir eftir því hvaðan á er litið. Sjónarhóll er í senn náttúran, samspilið við hið manngerða og sjónarhornið sem upphefur upplifunina.