Fara í efni

Skráning fyrirtækja í ferðagjöf er hafin

Skráning fyrirtækja í ferðagjöf er hafin

Opnað hefur verið fyrir skráningu fyrirtækja vegna Ferðagjafar á https://ferdagjof.island.is/. Frumvarp um ferðagjöf er til umræðu á Alþingi. Búist er við að það verði samþykkt á næstu dögum og að þá fari Ferðagjöfin í loftið.
 
Við hvetjum fyrirtæki sem vilja taka á móti ferðagjöfinni til að skoða þetta og skrá sig sem fyrst.

 
Kynningarfundir næstkomandi mánudag
Við minnum svo á tvo kynningarfundi á mánudaginn fyrir fyrirtækin. Á fundunum er útskýrt hvernig fyrirtæki skrá sig skref fyrir skref, sem og hvernig einstaklingar sækja Ferðagjöfina sína. Þetta er gert til að styðja við og þjónusta ferðaþjónustufyrirtæki eins vel og unnt er. Auk þess verður kynningarmyndband sett á vef Ferðamálastofu. 

Hverir geta tekið á móti gjöfinni?

Samkvæmt frumvarpinu getur einstaklingur notað ferðagjöf til greiðslu hjá fyrirtækjum sem uppfylla eitt af eftirfarandi skilyrðum og hafa starfsstöð á Íslandi:

  1. Fyrirtækjum með gilt leyfi Ferðamálastofu skv. III. kafla laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018.
  2. Fyrirtækjum með gilt rekstrarleyfi skv. 7. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
  3. Fyrirtækjum með gilt starfsleyfi frá viðeigandi heilbrigðisnefnd sem hefur verið gefið út vegna veitingastaða í flokki I, sbr. 3. mgr. 4. gr. laga um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007.
  4. Ökutækjaleigum með gilt starfsleyfi frá Samgöngustofu skv. 1. mgr. 3. gr. laga um leigu skráningarskyldra ökutækja, nr. 65/2015.
  5. Söfnum og fyrirtækjum sem bjóða sýningu gegn endurgjaldi þar sem áhersla er á íslenska menningu, sögu eða náttúru.