Styrkir vegna ferðamálasamstarfs Íslands, Grænlands og Færeyja skila góðum árangri
Tugir verkefna hérlendis hafa á síðustu árum verið styrkt og jafnvel orðið að veruleika fyrir tilstuðlan ferðamálasamstarfs Íslands, Grænlands og Færeyja, sem síðustu ár hefur verið undir merkjum NATA. Nú er opið fyrir umsóknir vegna næstu úthlutunar en við fyrri úthlutun á þessu ári voru 14 af þeim 17 verkefnum sem fengu styrk tengd Íslandi.
Samstarf þessara vestnorrænu vinaþjóða á sviði ferðamála á sér langa sögu. Þekktust er Vestnorden ferðakaupstefnan sem haldin er árlega og þá hefur verið lögð áhersla á að styrkja samstarfsverkefni sem stuðla að eflingu ferðaþjónustu í löndunum þremur.
Styrkir til tvenns konar verkefna
NATA auglýsir að jafnaði eftir styrkjum tvisvar á ári, í byrjun árs og í ágúst. Í samræmi við það sem samningur landanna kveður á um er hægt að sækja um styrki til tvennskonar verkefna:
- Þróunar- og markaðsverkefna í ferðaþjónustu
- Ferðastyrki, t.d. vegna skólahópa, íþróttahópa eða menningarverkefna
Opið er fyrir umsóknir til og með 27. ágúst
Sem fyrr segir hafa fjölmörg áhugaverð verkefni verið studd af NATA í gegnum árin. Á upplýsingasíðu um umsóknir má kynna sér hvaða verkefni hafa verið styrkt og þar eru einnig allar nánari upplýsingar um umsóknarferlið. Opið er fyrir umsóknir til og með 27. ágúst og eru aðilar hvattir til að huga að umsóknum sínum í tíma.