Ferðaábyrgðarsjóður kominn til framkvæmda
Stofnaður hefur verið ferðaábyrgðasjóður sem ætlað er að bregðast tímabundið við neikvæðum áhrifum heimsfaraldurs kórónuveiru á starfsemi seljenda pakkaferða og tryggja hagsmuni neytenda. Sjóðurinn er í vörslu Ferðamálastofu. Með tilkomu hans gefst ferðaskrifstofum kostur á að sækja um lán sem ætlað er að standa undir lögbundnum endurgreiðslum til neytenda vegna pakkaferða sem áætlaðar voru á tímabilinu 12. mars til og með 30. júní og var annað hvort aflýst eða þær afbókaðar vegna óvenjulegra og óviðráðanlegra aðstæðna.
Reglugerðin birt á næstum dögum
Sjóðurinn var lögfestur með bráðabirgðaákvæði við lög um pakkaferðir og samtengda ferðatilhögun nr. 95/2018. Bráðabirgðaákvæðið var sett með lögum nr. 78/2020 sem birt voru í dag og hefur breytingin þegar tekið gildi. Beðið er birtingar reglugerðar um sjóðinn. Eftir birtingu reglugerðarinnar mun Ferðamálastofa opna fyrir rafrænar lánaumsóknir í sjóðinn á vef sínum, www.ferdamalastofa.is. Búist er við að reglugerðin verði birt á allra næstu dögum.
Umsækjendum ber að skila inn nauðsynlegum gögnum
Með lánsumsókn ber umsækjanda að leggja fram ársreikning fyrir árið 2019 ásamt nauðsynlegum upplýsingum sem sýna fram á að umsækjandi uppfylli skilyrði lánveitingar. Í því skyni hefur Ferðamálastofa látið útbúa sérstakt eyðublað (excelskjal) sem umsækjendum ber að fylla út og leggja fram. Skjalið er birt hér með þeim fyrirvara að það kann að taka breytingum. Engu að síður á það að gefa væntanlegum umsækjendum ákveðnar hugmyndir um þær upplýsingar sem krafist verður.