Gunnþóra Ólafsdóttir ráðin forstöðumaður rannsókna- og tölfræðisviðs
Ráðið hefur verið í starf forstöðumanns rannsókna- og tölfræðisviðs Ferðamálastofu. Dr. Gunnþóra Ólafsdóttir var ráðin að loknu ítarlegu valferli og mun hún hefja störf í júní. Alls bárust 20 umsóknir um starfið, af þeim hópi margir hæfir einstaklingar og þakkar Ferðamálastofa þeim fyrir áhugann og umsóknirnar.
Gunnþóra lauk B.Sc. námi í landfræði með áherslu á ferðamálafræði frá Háskóla Íslands. Þá lauk hún M.Sc. námi og P.hd. gráðu árið 2007 frá University of Bristol, School of Geographical Science, með náttúrutengda ferðamennsku sem sérsvið.
Gunnþóra hefur hlotið hvatningarverðlaun Evrópusambandsins fyrir rannsóknatillögu sem snérist um að dýpka þekkingu á aðdráttarafli náttúrunnar fyrir ferðamennsku og upplifun ferðamanna með upplýsingaöflun fyrir sjálfbæra þróun ferðamannastaða að leiðarljósi. Síðastliðin ár hefur Gunnþóra að miklu leyti búið erlendis og unnið að eigin frumkvæði með viðurkenndum erlendum og innlendum sérfræðingum í sálfræði, landfræði og lífvísindum við þverfaglegar grunnrannsóknir á aðdráttarafli íslenskrar náttúru fyrir ferðamennsku og útivist.
Gunnþóra var höfundur og verkefnastjóri verkefnisins Breathing Spaces sem var frumkvöðlaverkefni á sviði ferðamennsku. Þar setti hún saman 14 manna þverfaglegt rannsóknarteymi sérfræðinga sem starfa í 5 löndum beggja vegna Atlantshafsins.
Haustið 2016 var Gunnþóra ráðin í eitt ár til Rannsóknamiðstöðvar ferðamála til að m.a. byggja upp rannsóknasamstarf á milli RMF og innlendra og erlendra fagaðila. Á því tímabili var hún fulltrúi RMF í nefnd Stjórnstöðvar ferðamála um áreiðanleg gögn í ferðaþjónustu. Þá kom Gunnþóra að nýjustu úttekt OECD á íslensku atvinnulífi með tillögu um umbætur á rannsókna-umhverfi ferðamála á Íslandi. Í vetur tók hún að sér að vinna fyrir ráðuneyti ferðamála við skýrslu um þolmörk ferðamennsku. Markmið hennar var að bæta úr skorti á yfirsýn yfir fjölþætt áhrif greinarinnar og gera heildstæða úttekt á fyrirliggjandi niðurstöðum rannsókna á sviði þolmarka í ferðamennsku sem hafa farið fram á Íslandi, sem og á öðrum rannsóknum og könnunum til að meta þörf fyrir aðgerðir og skipulagningu þeirra.