Inneignarnótur vegna pakkaferða í ljósi COVID-19
Í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi eru vegna útbreiðslu COVID-19 hefur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið beint því til ferðamanna að huga vel að því hvort þeir geti tekið við inneignarnótu fyrir pakkaferð í stað endurgreiðslu. Jafnframt hefur Neytendastofa gefið út leiðbeiningar um inneignarnótur og breytingar pakkaferða.
Tryggingarvernd nær yfir inneignarnótur
Í fréttatilkynningu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis segir m.a.: „Komi til gjaldþrots skipuleggjanda með ferðaskrifstofuleyfi geta þeir ferðamenn sem hafa ekki fengið fulla endurgreiðslu fyrir gjaldþrot því gert kröfu í tryggingarfé viðkomandi skipuleggjanda og eftir atvikum fengið fulla endurgreiðslu.
Inneignarnótur sem bera skýrt með sér að vera greiðsla vegna pakkaferðar falla að mati atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins undir tryggingaverndina. Taki ferðamenn við inneignarnótu í stað endurgreiðslu vegna pakkaferðar munu ferðamenn geta gert kröfu í tryggingarfé skipuleggjanda verði hann ógjaldfær eða gjaldþrota áður en inneignarnótan er nýtt. Í ljósi þeirra fordæmalausu aðstæðna sem uppi eru vegna útbreiðslu kórónaveirunnar bendir ráðuneytið ferðamönnum á að rétt er að huga vel að því hvort það úrræði geti nýst þeim.“
Gagnast bæði ferðafólki og fyrirtækjum
Í frétt á vef Neytendastofu er komið á framfæri sjónarmiðum vegna útgáfu inneignarnótu til að auðvelda fyrirtækjum að viðhafa góða viðskiptahætti við útgáfu þeirra. „Um leið geta sjónarmiðin auðveldað ferðamönnum að taka upplýsta ákvörðun um þennan valkost og halda rétti sínum til lögboðinnar pakkaferðatryggingar skipuleggjanda kjósi þeir að taka við inneignarnótum,“ segir m.a.