Sóknarfærin í ferðaþjónustu liggja víða
Ljóst er að niðurstöður könnunnar um versnandi afkomu ferðaþjónustufyrirtækja á landsbyggðinni, sem Ferðamálastofa og KPMG kynntu fyrir helgi, er áhyggjuefni fyrir greinina í heild. Verkefni framundan er því að leita leiða til að snúa þeirri þróun við með öllum tiltækum ráðum og nýta þau sóknarfæri sem eru í stöðunni.
Þróun kostnaðar ekki sjálfbær
Könnunin sýndi meðal annars að launakostnaður er orðinn mjög stór hluti af kostnaði hjá fyrirtækjum og víða úti á landi er hann kominn um og yfir 50%. Þróun sem þessi er ekki sjálfbær til lengri tíma litið. Því liggur fyrir að betri afkoma er forsenda þess að ferðaþjónusta út á landi nái að dafna.
Betri nýting fjárfestinga og starfsfólks
Árstíðasveifla í ferðaþjónustu eykst eftir því sem fjær dregur frá höfuðborgarsvæðinu. Nauðsynlegt er að jafna þessar sveiflur og fá þannig betri nýtingu fjárfestingar og launakostnaðar. Horfa þarf til þess að auka tekjur með fleiri ferðamönnum á landsbyggðinni og að hver ferðamaður skilji meira eftir sig.
Ólögleg starfsemi skekkir samkeppnisstöðu
Margoft hefur verið bent á nauðsyn þess að uppræta ólöglega starfsemi í ferðaþjónustu. Þá þarf einnig að huga að því að jafna samkeppnisstöðu eins og kostur er. Þannig er gisting úti á landi í samkeppni við ólöglega gistingu og heimagistingu sem sætir vægari kröfum, t.d. í eldvörnum og heilbrigðismálum.
Horfa til tæknilausna
Ferðamálastofa hefur talað fyrir nauðsyn þess að ferðaþjónustan í heild horfi í auknum mæli til nýtingu tæknilausna af öllu tagi. Bæði er þar vísað til fjölbreyttra tóla og nýrra aðferða sem fyrirtæki geta nýtt til að ná til viðskiptavina sinna og gesta. En einnig, og ekki síður, er mikilvægt að ferðaþjónustan tileinki sér aukna tækni á öllum sviðum starfsemi sinnar með það að markmiði að auka framleiðni og bæta afkomu.
Áfangastaðaáætlanir landshluta
Í nýjum áfangastaðaáætlunum má sækja forskrift að sókn fyrir hvern landshluta. Þar er núverandi staða greind og lagt upp með hvar skuli sótt fram. Þar er einnig tilgreint til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að efla áfangastaði ferðamanna víða um land. Áfangastaðaáætlanir landshlutanna eru nú birtar hver af annarri og verða kynntar á sameiginlegum fundi þann 15. nóvember næstkomandi.
Huga þarf að gæðum
Sem áfangastaður verður Ísland seint ódýrt heim að sækja og því enn mikilvægara en ella að gæðamálum sé gert hátt undir höfði. Vakinn – gæða og umhverfiskerfi ferðaþjónustunnar, kemur hér inn sem öflugt tól í þeirri baráttu. Mikilvægt er að greinin sjálf vakni til aukinnar vitundar um mikilvægi þess að ganga til liðs við Vakann og sameinist um að gera hann að því öfluga verkfæri í markaðs, gæða og umhverfisstarfi sem hann hefur allar forsendur til að vera.
Samspil og samvinna lykilatriði
Áskoranir ferðaþjónustunnar eru af ýmsum toga og sumar þeirra, s.s. gengismálin, eitthvað sem erfitt getur reynst að hafa áhrif á. Hér að ofan hafa hins vegar verið reifuð nokkur atriði sem nýst geta til að sækja fram. Hvert og eitt eru þau hluti af ákveðinni heildarmynd í þeim að mörgu leyti flókna veruleika sem ferðaþjónustan og samspil greinarinnar við land og þjóð er. En til að sem bestur árangur náist þarf að beita samhæfðum aðgerðum og ekki síður að samstaða sé á meðal þeirra sem starfa í ferðaþjónustu á hverjum stað um í hvaða átt skuli stefna.