Fara í efni

Verkefnum forgangsraðað á Vestfjörðum

Verkefnum forgangsraðað á Vestfjörðum

 

Vinna við áfangastaðaáætlun á Vestfjörðum er á fullu skriði. Lokaáfangi verkefnisins er hafinn en áætluninni verður skilað inn til Ferðamálastofu í vor. Síðasti opni fundurinn vegna áfangastaðaáætlunar á Vestfjörðum var haldinn 22. febrúar síðastliðinn á Patreksfirði.

Unnið í forgangsröðun á opnum fundum

Við gerð áfangastaðaáætlunar á Vestfjörðum hefur landshlutanum verið skipt í þrjú svæði. Til að draga fram áherslur og þarfir á hverju svæði fyrir sig hafa verið haldnir opnir fundir á Ísafirði, Patreksfirði og í Hólmavík. Á þessum fundum hefur verið farið yfir atriði sem tengjast vinnunni við gerð áfangastaðaáætlunar og aðgerðaáætlun sem hún felur í sér, og verkefnum hagsmunaaðila forgangsraðað. Að auki hafa sveitarfélög á Vestfjörðum verið fengin til að forgangsraða verkefnum á sínum svæðum sem og á Vestfjörðum í heild.

Heilsárssamgöngur í forgang

Á opna fundinum á Patreksfirði voru dregnar fram áherslur hagaðila á forgangsröðun aðgerða. Mikil og góð umræða skapaðist á fundinum um þau verkefni sem þykja þörf á svæðinu. Kosið var um hvaða verkefni þóttu brýnust og hlutu málefni sem tengjast heilsárssamgöngum á svæðinum mörg atkvæði.

Forgangslistar samræmdir

Lokaáfangi verkefnisins er nú hafinn á Vestfjörðum. Verið er að samræma forgangslista og verða þeir í kjölfarið lagðir fyrir svæðisráð áfangastaðaáætlunar á Vestfjörðum og sveitarstjórnir landshlutans.

Verkefnisstjórar áfangastaðaáætlunar á Vestfjörðum eru Magnea Garðarsdóttir og Díana Jóhannsdóttir, verkefnisstjórar hjá Markaðsstofu Vestfjarða. Frekari upplýsingar um verkefnið má finna á vef Ferðamálastofu og á vef Markaðsstofu Vestfjarða. Fleiri fréttir af verkefninu eru einnig birtar hér.