Viðhorf Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu 2019
Í dag gaf Ferðamálastofa út lokaskýrslu með niðurstöðum könnunar á viðhorfum Íslendinga til ferðamanna og ferðaþjónustu haustið 2019. Í skýrslunni eru teknar saman greiningar á gögnunum sem söfnuðust haustið 2019 ásamt samanburði við fyrri landskannanir frá árinu 2017 og 2014.
Markmið könnunarinnar var að meta viðhorf Íslendinga til ferðaþjónustu og ferðamanna á tilteknum tíma bæði á landsvísu og eftir einstaka landshlutum. Auk þess var leitað eftir vísbendingum um það hvort landsmenn finni fyrir álagi vegna ferðamanna í heimabyggðinni.
Opna skýrslu með niðurstöðum könnunar
Helstu niðurstöður
- Meirihluti Íslendinga lítur á ferðaþjónustu sem efnahagslega mikilvæga atvinnugrein og að ferðamenn auðgi samfélagið á fjölbreyttan hátt.
- Enn fleiri landsmenn en áður töldu ferðamenn efla verslun og þjónustu, stuðla að betra aðgengi í náttúru, gera samfélagið enn betra og bæta lífsgæði íbúa.
- Hugmyndir landsmanna um jákvæðar hliðar ferðaþjónustunnar virðast vera vel mótaðar en efnahagsleg sjónarmið og bætt lífsgæði voru áberandi.
- Áhrif ferðamanna á atvinnulíf og efnahag endurspegluðust einna helst í hugmyndum landsmanna um að ferðaþjónusta efli atvinnulíf og skapi tækifæri fyrir einstaklinga, fyrirtæki og sveitarfélög til að afla tekna.
- Félags- og menningarleg áhrif spiluðu einnig stórt hlutverk í viðhorfum landsmanna. Þetta sást einna best í hugmyndum landsmanna um fjölbreytni, stemmingu og tilfinningu um ánægju og aukna bjartsýni í heimabyggð.
- Hugmyndir um betri lífsgæði tengdust umbótum á daglegu lífi s.s. bættri þjónustu eða grunngerð. Ummæli landsmanna um aukna þjónustu, verslun og veitingastaði voru til vitnis um áhrif sem hafa bætt lífsgæði.
- Jákvætt samband reyndist vera á milli mats landsmanna á eigin lífsgæðum og annarra þátta könnunarinnar. Því jákvæðari áhrif sem landsmenn töldu ferðamenn hafa því líklegra var að þeir teldu lífsgæði sín góð.
Lágt hlutfall neikvæðra
Hlutfall landsmanna sem voru neikvæðir í viðhorfum gagnvart ferðamönnum og ferðaþjónustu var áfram lágt.
- Aðeins 8% landsmanna sögðust finna fyrir ónæði í daglega lífinu vegna ferðamanna en ekkert benti til þess að ónæði af ferðamönnum hefði aukist milli kannana.
- Niðurstöðurnar sýndu þó að landsmenn sem fundu fyrir of miklum fjölda ferðamanna, upplifðu ónæði vegna ferðamanna og töldu að heimabyggðin geti ekki tekið við fleiri ferðamönnum miðað við núverandi aðstæður voru neikvæðari í viðhorfum en aðrir landsmenn.
Ójafnvægi í fjölda og aukin umferð
- Ójafnvægi í fjölda ferðamanna á tilteknum tíma og/eða stað ásamt aukinni umferð voru efst á lista yfir neikvæðustu hliðar ferðaþjónustunnar.
- Þar á eftir komu hegðun ferðamanna, slæmir vegir og skortur á viðhaldi og nauðsynlegri grunngerð.
- Meirihluti landsmanna var á því að ástand vegakerfis væri áfram slæmt. Við það bætast auknar áhyggjur af umferðaröryggi en hlutfall landsmanna sem fann fyrir ótta í umferðinni hækkaði marktækt milli kannana.
- Í athugasemdum landsmanna komu fram áhyggjur af tillits- og reynsluleysi sumra ferðamanna við akstur á vegum úti og var kallað eftir bæði auknu viðhaldi og umbótum á vegakerfi vegna aukinnar umferðar og slits á vegum.
Um könnunina
Könnunin er þáttur í opinberri gagnasöfnun og greiningu á félagslegum áhrifum ferðaþjónustunnar á samfélag heimamanna en kannanir á viðhorfum heimamanna til ferðaþjónustu og ferðamennsku hafa farið fram með reglubundnum hætti frá árinu 2014. Gögnum var safnað í símakönnun meðal 6.200 manna lagskipts úrtaks af landinu öllu og fengust 2.600 svör. Fyrr á árinu komu út skýrslur með niðurstöðum könnunarinnar fyrir hvern landshlutanna sjö.
Eyrún Jenný Bjarnadóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála sá um framkvæmd og verkefnisstjórn en gagnaöflun var í höndum Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri.
Mynd: Luca Micheli á Unsplash