Ábending vegna hækkunar gistináttaskatts 1. september
Að gefnu tilefni vill ríkisskattstjóri koma eftirfarandi á framfæri, varðandi hækkun gistináttaskatts sem tók gildi þann 1. september síðastliðinn.
Með 10. gr. laga nr. 126/2016 var gistináttaskattur hækkaður úr 100 kr. í 300 kr. Í frumvarpi því er varð að framangreindum lögum segir eftirfarandi: "Lögð er til þreföldun á fjárhæð gistináttaskatts sem hækkar úr 100 kr. í 300 kr. fyrir hverja selda gistináttaeiningu frá 1. september 2017."
Í tilkynningu frá Ríkisskattstjóra kemur fram að af framangreindu virtu sé ljóst að öll sala á gistingu sem á sér stað eftir framangreint tímamark, þ.e. 1. september 2017, ber hærri gistináttaskatt en ekki lægri. Þegar skera þarf úr um hvort sala skuli bera lægri eða hærri skattinn ber að miða við afhendingu þjónustunnar sem fer oftast saman við reikningaútgáfu eða greiðslukvittun ef um innborganir er að ræða. Sú greiðsla sem á sér stað eftir framangreint tímamark ber hærri gistináttaskattinn en ef greiðsla á sér stað fyrir þann tíma ber gistingin lægri gistináttaskattinn.
Ekki skiptir í þessu máli hvenær gisting er pöntuð heldur eingöngu hvenær gistingin er seld, þ.e. við reikningaútgáfu sem fara skal fram hið síðasta við afhendingu þjónustunnar eða við greiðslu ef um innborganir er að ræða.
Ef óskað er frekari skýringa á framangreindu er velkomið að spyrjast frekar með tölvupósti á irise@rsk.is.