Fara í efni

Erlendir ferðaþjónustuaðilar með starfsemi á Íslandi

Hér að neðan má finna upplýsingar um þær kröfur sem gerðar eru til erlenda ferðaþjónustuaðila sem koma með ferðahópa til Íslands án þess að opna starfsstöð hér á landi. Verkefnið var unnið af Ferðamálastofu ásamt Vinnumálastofnun og Samgöngustofu til þess að skýra þær kröfur sem gerðar eru til erlenda ferðaþjónustuaðila á Íslandi. Upplýsingarnar má einnig nálgast í PDF-útgáfu

Erlendir ferðaþjónustufyrirtæki með starfsemi á Íslandi

Ferðaþjónsutuaðilar innan EES og ESB

Ferðaþjónustuveitandi innan EES-/ESB-ríkja, sem kemur með erlenda ferðahópa hingað til lands getur óhindraður veitt þeim sína þjónustu hér á landi. Hann þarf ekki að sækja um leyfi til Ferðamálastofu og fellur hann því ekki undir III. kafla laga um Ferðamálastofu nr. 96/2018 um leyfisskyldu svo framarlega að þeir uppfylli þau skilyrði fyrir starfseminni sem sett eru í heimalandinu.

Ferðaþjónustuaðilar utan EES- og ESB- ríkja

Ferðaþjónustuveitandi utan EES-/ESB-ríkja, hvort sem er einstaklingur eða lögaðili, sem kemur með erlenda ferðahópa hingað til lands hefur ekki heimild til að starfa hér á landi án atvinnuréttinda. Um hann gildi lög um atvinnuréttindi útlendinga og eru þau mál á forræði Vinnumálastofnunar.

Öryggisáætlanir

Ferðaþjónustuveitendur sem koma með ferðahópa hingað til lands er skylt til að útbúa skriflega öryggisáætlun fyrir hverja tegund ferðar. Öryggisáætlun skal ávallt vera til skrifleg á íslensku og ensku. Óheimilt er að fara með ferðahópa, innlenda eða erlenda, ef öryggisáætlun liggur ekki fyrir.

Nánar um öryggisáætlanir

Starfsmenn ferðaþjónustuaðila utan Íslands

Starfsmenn sem koma frá fyrirtækjum með staðfestu innan EES-/ESB-ríkja

Eru skyldug til að skrá sig til Vinnumálastofnunar og þá starfsmenn sem hingað koma í gegnum vefinn www.posting.is.  Á þetta bæði við um starfsmenn sem eru evrópskir  ríkisborgar og svo þá sem eru ríkisborgarar ríkja utan EES. Þegar um er að ræða síðari hópinn þá eru störf þeirra takmörkuð við 90 daga á almanaksári og starfsmaður þarf að sýna fram á heimild til dvalar í sendiríkinu. Vinnumálastofnun veitir formlega heimild fyrir viðkomandi til að koma hingað til lands sem hægt er að framvísa á landamærum.

Sjálfstætt starfandi ríkisborgarar EES ríkja eru einnig tilkynningarskyldir hjá Vinnumálastofnun í gegnum vefinn www.posting.is

Einstaklingar sem eru ríkisborgarar utan EES-/ESB-ríkja

Varðandi aðra einstaklinga sem eru ríkisborgarar ríkja utan EES þá er þeim skylt að sækja um og fá útgefið tímabundið atvinnuleyfi vegna allra starfa hér á landi nema þeir séu annað hvort undanþegnir kröfu um atvinnuleyfi skv. annað hvort langtímaundanþágu 22. gr. laga nr. 97/2002 eða 23. gr. sömu laga um skammtímavinnu. Þau störf sem talin eru upp í undanþágu 23. gr. um skammtímavinnu eru tæmandi upptalning og önnur störf falla ekki undir hana nema þegar um er að ræða ökumenn fólksflutningsbifreiða og þá aðeins þeir sem fylgja hingað bifreiðum til og frá landinu, og hópstjóra sem fylgja hópum ferðamanna til og frá landinu.

Verktakar

Mikilvægt er að huga að því að einstaklingum með ríkisfang utan EES er óheimilt að starfa hér á landi sem verktakar nema að þeir falli undir langtímaundanþágu 22. gr. eða störf þeirra falli undir undanþágu vegna skammtímavinnu. Einstaklingar með ríkisfang innan EES sem stunda hér verktakavinnu til skamms tíma en hafa alla jafna staðfestu í öðru Evrópuríki þurfa að tilkynna starfsemi sína til Vinnumálastofnunar. Ekki er hægt að sækja um tímabundin atvinnuleyfi fyrir verktaka sbr. ákvæði 6. gr. laganna.

Leiðbeiningar vegna atvinnuleyfa má nálgast hér, fyrirspurnir má senda á netfangið atvinnuleyfi@vmst.is

Upplýsingavefur vegna útsendra starfsmanna og erlendra þjónustuveitenda er www.posting.is og fyrirspurnir má senda á netfangið info@posting.is

Rekstrarleyfi til farþegaflutninga á Íslandi

Rekstrarleyfishafar sem eru með leyfi frá landi innan EES-svæðisins geta keyrt með farþega í atvinnuskyni á Íslandi hafi þeir bandalagsleyfi frá sínu heimalandi. Þetta á eingöngu um hópbíla, bíla fyrir 9 farþega og fleiri, og er samkvæmt Evrópureglugerð EC nr. 1073/2009

Aðilar sem stunda farþegaflutninga í atvinnuskyni á bílum sem eru fyrir 8 farþega og færri þurfa að sækja um rekstrarleyfi hjá Samgöngustofu samkvæmt lögum og reglum og skila inn viðeigandi gögnum frá sínu heimalandi.

Sjá nánar um skilyrði rekstrarleyfis

Eitt af skilyrðum leyfis er að lögheimili forráðamanns sé skráð innan Evrópska efnahagssvæðisins og geta aðilar utan EES því ekki fengið útgefið slíkt leyfi á Íslandi. Þeir aðilar sem ekki geta fengið rekstrarleyfi til farþegaflutninga af þessum sökum geta ráðið til sín aðila með rekstrarleyfi til að sjá um aksturinn.

Listi yfir rekstrarleyfishafa

Ökumaður þarf að vera með viðeigandi ökuréttindi hverju sinni, til að mega keyra með farþega í atvinnuskyni eða með tákntölu 95 í ökuskírteini.

Ef umsækjandi ætlar sér að notast við bílaleigubíla þurfa þeir að vera með gilda leyfisskoðun og viðeigandi leyfismiða í framrúðu. Ef umsækjandi ætlar að notast við bíla á erlendum skráninganúmerum þarf bíllinn að undirgangast leyfisskoðun hjá skoðunarstöð á Íslandi gegn staðfestingu frá Samgöngustofu í lok umsóknarferlis.

Sjá nánar um rekstrarleyfi

Opna sem PDF