Um Umhverfisverðlaunin
Hvatning og áminning
Umhverfisverðlaun Ferðamálastofu eru hugsuð sem hvatning og áminning til þeirra sem koma að ferðaþjónustu um að huga vel að umhverfinu í allri skipulagningu og framkvæmd.
Fyrirtæki valin úr tilnefningum
Framan af var sá háttur hafður á að velja verðlaunahafa úr tilnefningum sem bárust Ferðamálastofu. Hafa ýmis fyrirtæki í ferðaþjónustu sem skarað hafa fram úr í umhverfismálum í starfi sínu hlotið verðlaunin, líkt og sjá má á lista yfir verðlaunahafa. Fyrst um sinn var einkum horft til þess hvernig fyrirtæki umgengust nánasta umhverfi sitt, en með vaxandi umhverfisvitund almennt innan fyrirtækja, beindust sjónir í ríkari mæli að því með hvaða hætti umhverfismálum og –sjónarmiðum væri fyrirkomið í rekstri fyrirtækjanna sjálfra.
Valið úr verkefnum Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða
Í ljósi mikils og vaxandi þunga í umræðu um uppbyggingu á ferðamannastöðum og aukins skilnings á mikilvægi hönnunar, samfellu við landslag og faglegrar nýtingar efnis og aðfanga, var tekin var sú ákvörðun 2016 að beina áherslum á nýjar brautir. Voru verðlaunin þá í fyrsta skipti veitt fyrir verkefni en ekki til fyrirtækja. Nánar tiltekið var horft til verkefna sem hlotið höfðu styrk úr Framkvæmdasjóði ferðmannastaða, verkefna sem væri lokið og þóttu til fyrirmyndar. Það þýðir að reglum Framkvæmdasjóðsins hafi verið fylgt, áherslum hans um sjálfbæra þróun og gæði hönnunar og skipulags. Þá hafi verkefnið verið í samræmi við umhverfisstefnu Ferðamálastofu.
Verðlaunagripurinn
Verðlaunagripurinn ber heitið ,,Sjónarhóll“ og er hannaður af Jóni Helga Hólmgeirssyni og Védísi Pálsdóttur. Hugmyndin bak við gripinn er hvernig hægt er að upplifa náttúruna frá mismunandi sjónarhornum og þá einstöku upplifun hvers og eins að nálgast áfangastað.
Látúnstangir mynda þrívíðan hól úr uppréttum hæðarlínum á meðan línuteikningar bæta við hólinn hlíðum og árfarvegum. Hóllinn varpast í speglum sem myndar nýjar víddir eftir því hvaðan á er litið. Sjónarhóll er í senn náttúran, samspilið við hið manngerða og sjónarhornið sem upphefur upplifunina.
Nánari upplýsingar
Guðrún Dóra Brynjólfsdóttirgudrun@ferdamalastofa.is |