Fara í efni

Stefna

Um stefnuna

Vinna við stefnu Ferðamálastofu fór fram á síðari hluta ársins 2023 og fyrri hluta ársins 2024. Hún var unnin í samráði við starfsfólk á nokkrum sameiginlegum vinnustofum undir leiðsögn ráðgjafa.

Tilgangur og hlutverk

Ferðamálastofa er þekkt hreyfiafl og þekkingardrifin miðstöð þróunar, þjónustu og stjórnsýslu sem stuðlar að uppbyggingu sjálfbærrar ferðaþjónustu.

Framsýni og fagmennska einkenna alla þjónustu sem skapar traust og trúverðugleika og grundvallar frekari sókn greinarinnar í sátt við íbúa náttúru og samfélag.

Með þessu rækir Ferðamálastofa hlutverk sitt sem skilgreint er í lögum.

Gildi Ferðamálastofu

        FAGMANNESKA 
birtist í öllum okkar störfum. Frumkvæði, kjarkur og rík þjónustulund eru áberandi í framgöngu og samskiptum sem styrkir ásýnd og stöðu Ferðamálastofu. Með metnaði, seiglu og skilvirkni í öllum störfum náum við markmiðum okkar og stefnumálum.

        HEILINDI
við náttúru, samfélag, hagaðila og samstarfsfólk einkenna störf okkar hjá Ferðamálastofu. Starfshættir eru skýrir og gagnsæir sem og allt sem frá okkur fer. Við erum þekkt fyrir áreiðanleika og njótum trausts hagaðila og þeirra sem til okkar leita.

        SAMVINNA
og jákvæðni einkenna allt okkar starf, innan og utan stofnunarinnar. Gagnkvæm virðing, stuðningur og traust eru mikilvægur grunnur í verkefnum Ferðamálastofu. Við miðlum upplýsingum, þekkingu, gögnum og góðum ráðum og leggjum okkur fram um að skilja áskoranir og aðstæður samstarfsfólks og samstarfsaðila.

Skipulag og markmið

Samhliða endurnýjaðri stefnu var tekið upp nýtt skipulag Ferðamálastofu í 4 verkefnasvið. Grundvöllur þess eru:

  • Verðmæti
  • Mannauður
  • Þekking.

Með nýju skipulagi opnast tækifæri til að mæta nýjum áskorunum og breyttu umhverfi þannig að stofnunin sé opnari fyrir þróun og breytingum. Þetta eflir einnig getu Ferðamálastofu til að taka við tilfallandi verkefnum og styður við nýjar áherslur og áskoranir. Aukin áhersla er á Ferðamálastofu sem þekkingarstofnun með það að markmiði að hún verði alltaf fyrsti valkostur þegar kemur að því að leita upplýsinga um ferðaþjónustu á Íslandi.

Áhersla er á:

  • Þjónustumiðaða nálgun
  • Skarpari fókus á sérstöðu​​ sviða samhliða aukinni áherslu á þverfaglegt samstarf og teymisvinnu
  • Skýrari boðleiðir ​
  • Stuðning við mikilvægt umbótastarf​
  • Gagnsæi og aukna skilvirkni
  • Aukið samstarf um upplýsingamiðlun og tölfræði
  • Markvissara samtal við stjórnvöld um þróunarverkefni og nýjar áherslur
  • Öflugar starfsáætlanir og markmiðasetningu

Undirstefnur

Einnig hafa verið samþykktar stefnur um einstaka þætti starfseminnar sem vistaðar eru á innra vinnusvæði starfsfólks. Þetta eru:

  • Jafnréttisstefna
  • Eineltisstefna og forvarnarstefna vegna eineltis á vinnustað
  • Aðgerðaráætlun vegna eineltis, kynbundins ofbeldis og kynbundinnar og kynferðislegrar áreitni á vinnustað
  • Umhverfis- og loftslagsstefna

Framtíðarsýn til 2030

Viðskiptavinir og þjónusta

Ferðamálastofa er vel þekkt sem þjónustumiðuð stofnun, mikilvægur samstarfsaðili í þróun og leiðandi þegar kemur að uppbyggingu á ferðaþjónustu. Ferðamálastofa er eftirsóknarverður samstarfsaðili og leikur lykilhlutverk þegar kemur að upplýsinga- og þekkingarmiðlun um ferðaþjónustu og tengd málefni.

Innri virkni

Stafrænar lausnir leika lykilhlutverk í innri og ytri verkefnum og samskiptum stofnunarinnar. Upplýsingar til ferðamanna og greinarinnar eru aðgengilegar í gegnum gagnvirka vefi. Ferðamálastofa rekur alhliða mælaborð um greinina.

Fjármál

Fjárframlög til Ferðamálastofu endurspegla umfang verkefna á hverjum tíma og mikilvægi greinarinnar sem grunnstoðar í íslensku samfélagi.

Mannauður

Mannauður Ferðamálastofu býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu og reynslu. Fagmennska, heilindi og samvinna einkenna starfshætti.

Samfélag og umhverfi

Viðhorf samfélagsins til ferðaþjónustu er jákvætt. Ferðamálastofa er leiðandi í umræðu og þróun sjálfbærrar ferðaþjónustu. Áhersla er lögð á félagsleg og umhverfisleg þolmörk, gæði og öryggi.