Alþjóðaráðið um sjálfbæra ferðaþjónustu - GSTC
Ferðamálastofa gerðist á árinu 2024 aðili að The Global Sustainable Tourism Council (GSTC), Alþjóðaráðinu um sjálfbæra ferðaþjónustu. Starfsemi GSTC er margvísleg og má m.a. nefna þróun og útgáfu staðla um sjálfbæra ferðaþjónustu, faggildingu fyrir vottunarstofur, mat og viðurkenningu á fyrirliggjandi stöðlum og vottunarkerfum (recognition), ráðgjöf fyrir stjórnvöld í stefnumótun, námskeið, fræðslu o.fl.
Alþjóðlegir staðlar sem byggja á fjórum meginstoðum
Global Sustainable Tourism Council, sem stofnað var árið 2007, hefur þróað og sett fram alþjóðlega staðla um sjálfbæra ferðaþjónustu. Staðlarnir byggja á fjórum meginstoðum:
- Sjálfbær stjórnun (sustainable management)
- Félags-og hagræn áhrif (socioeconomic impacts)
- Menningarleg áhrif (cultural impacts)
- Umhverfisáhrif (environmental impacts)
Ná fram sameiginlegri sýn á hugtakið sjálfbær ferðaþjónusta
Meðlimir GSTC eru frá öllum heimshornum; stjórnvöld, stofnanir, áfangastaðastofur, háskólar, vottunaraðilar, ráðgjafafyrirtæki, ferðaþjónustufyrirtæki, einstaklingar o.fl. sem sameinast í því að vilja ná fram sameiginlegri sýn á hugtakið sjálfbær ferðaþjónusta.
Af nágrannalöndunum eru m.a. Svíþjóð, Finnland og Noregur meðlimir. Þar utan má t.a.m. nefna Nýja Sjáland, Costa Rica, Sviss, ITB Berlin, Booking.com, AirBnB, Easy Jet Holidays, TUI, Green Key, Earth Check, Green Globe o.fl. sem eru aðilar að GSTC.