Fara í efni

Ferðamálastefna og aðgerðaáætlun til 2030

Þann 21. júní 2024 samþykkti Alþingi tillögu til þingsályktunar, sem ferðamálaráðherra lagði fram í apríl, um ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til 2030. Þar segir að gert verði ráð fyrir framkvæmdinni við gerð fjárlaga hvers árs og í fimm ára fjármálaáætlun.

Framtíðarsýn íslenskrar ferðaþjónustu og markmið ferðamálastefnu

Íslensk ferðaþjónusta verði leiðandi í sjálfbærri þróun á grunni jafnvægis á milli efnahags-, umhverfis- og samfélagslegra þátta. Rekin verði arðsöm og samkeppnishæf ferðaþjónusta sem starfi í sátt við bæði land og þjóð. Ferðaþjónustan stuðli að bættum lífskjörum og hagsæld á Íslandi og verði ein af grundvallarstoðum íslensks efnahagslífs.

Meginmarkmið ferðamálastefnu verði að tryggja framtíðarsýn ferðaþjónustu til lengri tíma. Stutt verði við sjálfbærni í ferðaþjónustu á öllum sviðum. Íslensk ferðaþjónusta verði þekkt fyrir gæði og einstaka upplifun.

Áhersluþættir ferðamálastefnu

Við framkvæmd ferðamálastefnu verði lögð áhersla á jafnvægi og samþættingu milli eftirfarandi fjögurra lykilstoða: Efnahagur, samfélag, umhverfi og gestir.

  • Undir efnahagslegum þætti verði m.a. lögð áhersla á aukna framleiðni í ferðaþjónustu, verðmætasköpun og samkeppnishæfni um land allt, einnig á framþróun sem byggist á tækni, gögnum, nýsköpun, vöruþróun, mannauði og menntun, sem og markvissa sókn á verðmæta markaði og markhópa.
  • Undir samfélagslegum þætti verði m.a. lögð áhersla á jákvæð áhrif ferðaþjónustu á nærsamfélög, mannauð, aukin lífsgæði um land allt og að atvinnugreinin efli lífvænleg og sjálfbær samfélög, einnig á stjórnun og uppbyggingu áfangastaða og að gestir ferðist um land allt, árið um kring.
  • Undir umhverfislegum þætti verði m.a. lögð áhersla á minnkandi kolefnisspor ferðaþjónustu og forystuhlutverk í orkuskiptum með nýtingu vistvænna orkugjafa, einnig á jafnvægi milli hagnýtingar og verndar náttúru, og að uppbygging innviða taki mið af því, sem og á virðingu fyrir þolmörkum og álagsstýringu á áfangastöðum ferðamanna.
  • Undir þeim þætti sem snýr að gestinum (ferðamanninum) verði m.a. lögð áhersla á að upplifun gesta sé betri eða í samræmi við væntingar og að náttúra, menning og fjölbreytt afþreying stuðli að einstakri upplifun gesta. Áhersla verði einnig lögð á að fagmennska, gæði og öryggi einkenni íslenska ferðaþjónustu.

Aðgerðaáætlun ferðamálastefnu

Í þingsályktunartillögunni segir að unnið verði í samræmi við eftirfarandi aðgerðaáætlun til að tryggja framgang ferðamálastefnu til 2030. Með aðgerðaáætluninni verði framtíðarsýn, áherslum og markmiðum ferðamálastefnu fylgt eftir með skilgreindum, kostnaðarmetnum og tímasettum aðgerðum.

Aðgerðaáætlun verði uppfærð á tveggja ára fresti, fram til 2030, og samhliða framvindu aðgerða verði unnið að gerð skilgreindra mælikvarða til 2030 sem nái yfir hinar fjórar fyrrgreindu lykilstoðir.

Aðgerðir ferðamálastefnu eru alls 43 talsins og hér að neðan er gerð grein fyrir hverri og einni.

A. Rannsóknir og gögn

 A.1. Grunninnviðir fyrir rannsóknir, greiningu og stefnumótun í ferðaþjónustu.

Markmið:

Að styrkja umgjörð fyrir öflun, úrvinnslu og tímanlega birtingu grunngagna í ferðaþjónustu í þeim tilgangi að styðja við stefnumótun og ákvörðunartöku í ferðaþjónustu og varpa ljósi á samhengi við efnahags-, samfélags- og umhverfismál.

Stutt lýsing:

Markvisst verði unnið að bættum ferðaþjónustureikningum með kerfisbundinni uppbyggingu á heildstæðu kerfi upplýsinga samkvæmt alþjóðlegri fyrirmynd yfir ferðaþjónustu í heild og eftir landsvæðum (að miðhálendinu meðtöldu) og sveitarfélögum, með reglubundinni öflun og birtingu gagna. Horft verði til alþjóðlegra/evrópskra staðla um ferðaþjónustureikninga til að stuðla að betra mati á samkeppnishæfni greinarinnar við önnur lönd.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Hagstofa Íslands og Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar á Íslandi, Samtök ferðaþjónustunnar og Rannsóknamiðstöð ferðamála.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 9, einkum undirmarkmið 8.3, 8.9, 9.4 og 9.5.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 20 millj. kr.

Staða:

 

 

A.2. Vinnsla upplýsinga um heildaráhrif og samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu.

Markmið:

Að fá betri upplýsingar og innsýn í þjónustu- og vörukaup erlendra ferðamanna til að fá fram heildaráhrif þeirra á samkeppnisstöðu greinarinnar.

Stutt lýsing:

Safnað verði ítarlegum upplýsingum um þjónustu- og vörukaup erlendra ferðamanna hér á landi, með eins aðgreinanlegum hætti og unnt er. Upplýsingar verði greindar eftir þjóðerni og greind heildaráhrif á rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu, hagkerfið og samfélagið. Unnir verði og birtir mælikvarðar yfir meðaltekjur, á föstu verði, af komu hvers erlends ferðamanns samhliða birtingu á ársfjórðungslegum upplýsingum yfir þjónustuútflutning. Miðað verði við að ferðaþjónustureikningar séu grunnupplýsingar um vöru- og þjónustukaup erlendra ferðamanna.

  •  Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Ferðamálastofa og Hagstofa Íslands.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Háskólar á Íslandi, Isavia, Samtök ferðaþjónustunnar, greiðslumiðlunarfyrirtæki og Seðlabanki Íslands.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 9, einkum undirmarkmið 8.3, 8.9, 9.4 og 9.5.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

A.3. Gagnafærni í ferðaþjónustu.

Markmið:

Að byggja upp gagnafærni sem styður við nýtingu á fjölbreyttum og samþættanlegum gögnum í þágu rannsókna og nýsköpunar í ferðaþjónustu.

Stutt lýsing:

Haldin verði námskeið með áherslu á verðmætasköpun með notkun gagna sem safnað hefur verið stafrænt til að styðja við stafvæðingu, þekkingaröflun og nýsköpun innan greinarinnar.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Ferðamálastofa, Íslenski ferðaklasinn og Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Hagstofa Íslands, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Rannsóknamiðstöð ferðamála.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Nýsköpunarstefna – Nýsköpunarlandið Ísland, Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4 og 9.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 10 millj. kr. í verkefni til að auka gagnafærni í ferðaþjónustu.

Staða:

 

 

A.4. Aukið samstarf stofnana um eflingu rannsókna á sviði ferðamála.

Markmið:

Að koma á formlegu samstarfi stofnana sem stunda gagnaöflun og rannsóknir sem tengjast ferðaþjónustu.

Stutt lýsing:

Stofnaður verði formlegur samstarfsvettvangur um eflingu og samhæfingu í gagnaöflun og rannsóknum á sviði ferðamála. Skerpt verði á hlutverki stofnana til að koma á skynsamlegu skipulagi við gagnaöflun, rannsóknir og ráðgjöf á málefnasviði ferðaþjónustu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Alþýðusamband Íslands, áfangastaðastofur, Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, háskólar, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Íslandsstofa, Íslenski ferðaklasinn, landshlutasamtök sveitarfélaga, Rannís, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Rannsóknasetur verslunarinnar, Samtök ferðaþjónustunnar og Seðlabanki Íslands.
  • Tímabil: 2024–2027.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu og áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, 11 og 17.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

Starfshópur skipaður. Formaður: Heirún Erika Guðmundsdóttir, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu. Tengist aðgerð A.7. 

 

A.5. Fjármagn til gagnaöflunar og rannsókna á sviði ferðamála.

Markmið:

Að tryggja að í fjárlagavinnu hvers árs, og við gerð fimm ára fjármálaáætlunar, sé gert ráð fyrir viðvarandi fjármagni til rannsókna á sviði ferðamála, m.a. með hliðsjón af úthlutun fjármuna á fjárlögum til rannsókna í öðrum höfuðatvinnugreinum landsins.

Stutt lýsing:

Unnið verði að því að fjármögnun til rannsókna í ferðamálum sé í samræmi við framlög til rannsókna í öðrum höfuðatvinnugreinum. Miðað verði almennt við að um 1% af virðisauka í greininni fari til gagnaöflunar og rannsókna innan hennar.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, Íslandsstofa, landshlutasamtök sveitarfélaga, Rannís, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Samtök ferðaþjónustunnar og Seðlabanki Íslands.
  • Tímabil: 2024–2027.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Nýsköpunarstefna – Nýsköpunarlandið Ísland, Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 60 millj. kr. árlegt framlag til rannsókna á sviði ferðaþjónustu.

Staða:

 

 

A.6. Markáætlun um rannsóknir á sviði ferðamála.

Markmið:

Að unnin verði heildstæð markáætlun sem styður við rannsóknir innan greinarinnar til 2030.

Stutt lýsing:

Skipaður verði starfshópur um þróun markáætlunar um rannsóknir á sviði ferðamála. Í samstarfi við Rannís verði unnin sérstök markáætlun um rannsóknir á sviði ferðamála og fjármögnun hennar tryggð í samræmi við aðgerð A.5. Lögð verði áhersla á rannsóknir sem snúa að því hvernig stuðla megi að jákvæðum hagrænum og samfélagslegum áhrifum ferðamennsku, í sátt við náttúru.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Rannís og Rannsóknamiðstöð ferðamála.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Nýsköpunarstefna – Nýsköpunarlandið Ísland, Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu, klasastefna fyrir Ísland og byggðaáætlun.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 9, einkum undirmarkmið 8.3, 8.9, 9.4 og 9.5.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 10 millj. kr. í gerð markáætlunar.

Staða:

 

 

A.7. Opið gagnarými fyrir ferðaþjónustu.

Markmið:

Að sameiginlegt gagnarými þjóni haghöfum innan ferðaþjónustu og afleiddum greinum þar sem tryggt er aðgengi að áreiðanlegum, opnum, samþættanlegum og stafrænum gögnum.

Stutt lýsing:

Unnið verði áfram að því að þróa og byggja upp opið gagnarými þar sem aðgengileg eru áreiðanleg og nýleg gögn um ferðaþjónustu, m.a. með áframhaldandi þróun á Mælaborði ferðaþjónustunnar. Gagnarýmið styðji við gagnadrifna ákvörðunartöku, virka notkun á Jafnvægisás ferðaþjónustunnar, rannsóknir, greiningar og nýsköpun. Rýmið geri öll opinber gögn sem tengjast ferðaþjónustu aðgengileg og taki á móti gögnum sem nýst gætu atvinnugreininni, þ.m.t. frá einkaaðilum.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Ferðamálastofa og Hagstofa Íslands.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Alþýðusamband Íslands, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar-ráðuneyti, Íslandsstofa, landshlutasamtök sveitarfélaga, Rannís, Rannsóknamiðstöð ferðamála, Samtök ferðaþjónustunnar og Seðlabanki Íslands.
  • Tímabil: 2024–2028.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 9.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 20 millj. kr. í þróun og uppfærslu opins gagnarýmis fyrir ferðaþjónustu, m.a. í gegnum Mælaborð ferðaþjónustunnar.

Staða:

Starfshópur skipaður. Formaður: Heirún Erika Guðmundsdóttir, forstöðumaður hjá Ferðamálastofu. Tengist aðgerð A.4. 

 

A.8. Áreiðanleg og nýleg gögn um gististaði.

Markmið:

Að vera með áreiðanleg og nýleg gögn um gististaði svo hægt sé að meta framboð og eftirspurn eftir gistingu niður á hverja gistieiningu daglega (rauntímaupplýsingar). Að hægt sé að tengja mikilvægar rekstrar- og efnahagsstærðir ferðaþjónustunnar við gistináttaskýrslur og að vænt eftirspurn eftir ferðaþjónustu liggi fyrir eitt ár fram í tímann.

Stutt lýsing:

Gerðar verði aðgengilegar nýlegar upplýsingar um fjölda gististaða, framboð gistirýmis og nýtingu samkvæmt íslenskri atvinnuvegaflokkun, Ísat2008, greint eftir einstökum sveitarfélögum. Með aðgerðinni verði uppfylltar alþjóðlegar lagaskyldur sem snúa að birtingu upplýsinga um gististaði og nýtingu á gistirými.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Hagstofa Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 20 millj. kr.

Staða:

 

 

A.9. Öflun gagna um ráðstefnu- og hvataferðaþjónustu.

Markmið:

Að stjórnvöld og fyrirtæki í ferðaþjónustu geti tekið upplýstar ákvarðanir byggðar á raungögnum um stærð og verðmæti eftirsóttra markhópa, svo sem á sviði ráðstefnu- og hvataferðaþjónustu.

Stutt lýsing:

Unnið verði að öflun áreiðanlegra gagna um þróun og áhrif ráðstefnu- og hvataferðaþjónustu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Hagstofa Íslands, Íslandsstofa og Rannsóknamiðstöð ferðamála.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

A.10. Rannsókna- og gagnaáætlun fyrir menningarferðaþjónustu.

Markmið:

Að stuðla að auknum gæðum, verðmætasköpun og ábyrgri þróun menningar og skapandi greina í ferðaþjónustu á grunni rannsókna og gagna.

Stutt lýsing:

Unnin verði rannsókna- og gagnaáætlun fyrir menningarferðaþjónustu og hún fjármögnuð til næstu fimm ára. Áhersla verði á rannsóknir sem hafa hagnýtt gildi til að styðja við stefnumótun stjórnvalda og greinarinnar, sem stuðli þannig að þróun menningarferðaþjónustu og skapandi greina sem sjálfbærra atvinnuvega. Samhliða verði gert átak í að efla og samræma aðra gagnaöflun svo sem um viðhorf og upplifun gesta og tryggja áreiðanlega miðlun upplýsinga um menningarferðaþjónustu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Hagstofa Íslands og Rannsóknasetur skapandi greina.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu, bókmenningarstefna, kvikmyndastefna, menningararfurinn – stefna um varðveislu og aðgengi, menningarstefna, stefnumörkun um safnastarf og byggðaáætlun.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 11, einkum undirmarkmið 8.9 og 11.4.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 10 millj. kr. í fjármögnun rannsóknaráætlunar fyrir menningar-ferðaþjónustu.

Staða:

 

 

A.11. Hagnýting þekkingar og tækni í þágu menningarferðaþjónustu.

Markmið:

Að Ísland verði framarlega í stafrænni miðlun menningararfs og að gott aðgengi sé að fjölbreyttri miðlun sem hagnýtt er af rekstraraðilum í menningarferðaþjónustu. Að upplýsingar um íslenskan menningararf séu til fyrirmyndar og aðgengi að þeim sé þróað á forsendum ólíkra markhópa sem nýtist til að mynda til að kynna landið sem áhugaverðan áfangastað til að upplifa menningu, sögu og listir.

Stutt lýsing:

Stutt verði við samstarfsverkefni aðila í menningarferðaþjónustu og mennta- og fræðastofnana sem miði að hagnýtingu rannsókna og nýjustu þekkingar og tækni fyrir vöruþróun, framkvæmd og miðlun í menningarferðaþjónustu. Sérstök áhersla verði lögð á samvinnu um stafræna miðlun menningararfs. Lögð verði áhersla á fagmennsku í gegnum samstarf við fræðasamfélagið, m.a. með aukinni menntun, fræðslu og úrvinnslu niðurstaðna rannsókna og kannana á öllum sviðum sem falla undir menningarferðaþjónustu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Samtök um söguferðaþjónustu og Þjóðminjasafnið.
  • Tímabil: 2024–2027.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Bókmenningarstefna, kvikmyndastefna, menningararfurinn – stefna um varðveislu og aðgengi, menningarstefna, klasastefna fyrir Ísland, stefnumörkun um safnastarf, byggðaáætlun.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4, 8, 9 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 10 millj. kr. í samstarfsverkefni á sviði menningarferðaþjónustu.

Staða:

 

 

B. Efnahagur

B.1. Aukin fjárfesting í nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu.

Markmið:

Að auka fjárfestingu í nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu.

Stutt lýsing:

Skipaður verði starfshópur um nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu sem móti tillögur að því hvernig fella megi með tryggum hætti nýsköpun og vöruþróun í ferðaþjónustu inn í núverandi sjóða- og stuðningsumhverfi nýsköpunar- og sprotafyrirtækja. Sérstök áhersla verði lögð á nýsköpun og vöruþróunarverkefni sem styðja við sjálfbærni, nærandi ferðaþjónustu, menningartengd verkefni, orkuskipti og stafræna þróun. Jafnframt verði unnið að útfærslu á hvötum til smærri og meðalstórra ferðaþjónustufyrirtækja til að fjárfesta í nýsköpun, tæknilausnum og skalanlegri vöruþróun.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Menningar- og viðskiptaráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Byggðastofnun, fjárfestingarsjóðir og fjármálastofnanir, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Íslenski ferðaklasinn, landshlutasamtök sveitarfélaga og Rannís.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Nýsköpunarstefna – Nýsköpunarlandið Ísland, sóknaráætlanir landshlutanna, klasastefna fyrir Ísland, byggðaáætlun.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, einkum undirmarkmið 9.4 og 9.5.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 30 millj. kr. í aukna nýsköpun í ferðaþjónustu.

Staða:

 

 

B.2. Markviss og viðvarandi markaðssetning á Íslandi sem áfangastað ferðamanna.

Markmið:

Að viðhalda og koma á framfæri ímynd og orðspori Íslands sem leiðandi í sjálfbærri þróun og sem eftirsóknarverðs áfangastaðar ferðamanna, sem stuðlar að verðmætasköpun og eykur samkeppnishæfni áfangastaðarins Íslands á alþjóðamörkuðum. Að við markaðssetningu verði einnig horft markvisst á sérhæfða ferðaþjónustu, jöfnun árstíðasveiflu og dreifingu ferðamanna utan háannar og um land allt.

Stutt lýsing:

Tryggt verði, í gegnum fimm ára fjármálaáætlun, að árlega fari opinbert fjármagn til neytendamarkaðssetningar í ferðaþjónustu, sem nánar verði kveðið á um í þjónustusamningi Íslandsstofu við menningar- og viðskiptaráðuneyti þar sem fram komi m.a. áherslur stjórnvalda í markaðssetningu ferðaþjónustu á hverjum tíma.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur og Íslandsstofa.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Framtíðarstefna fyrir íslenskan útflutning, áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 300 millj. kr. á ári í neytendamarkaðssetningu.

Staða:

Samningar fyrir 2024-2025 liggja fyrir.

Nánar

B.3. Endurskoðun á regluverki fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og skilvirkt eftirlit.

Markmið:

Að regluverk fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu endurspegli heilbrigt starfsumhverfi, samfélagslega ábyrgð, efli samkeppnishæfni og stuðli að sjálfbærni, jafnræði, aukinni arðsemi og verðmætasköpun í ferðaþjónustu. Að eftirlit með fyrirtækjum í ferðaþjónustu sé skilvirkt, ábyrgt og hagkvæmt.

Stutt lýsing:

Skipaður verði starfshópur sem taki regluverk fyrirtækja í ferðaþjónustu til heildstæðrar endurskoðunar og vinni greiningar og tillögur um laga- og reglugerðarbreytingar sem snúi m.a. að leyfismálum, starfsumhverfi, skilvirkni, áhrifum skattlagningar á rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu og eftirliti.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Alþýðusamband Íslands, Íslenski ferðaklasinn og Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 16, einkum undirmarkmið 8.3, 8.7, 8.8, 8.9, 9.1, 9.4 og 16.2.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

B.4. Endurskoðun gistináttaskatts.

Markmið:

Að jafna samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu og efla samkeppnishæfni og verðmætasköpun.

Stutt lýsing:

Ákvæði laga um gistináttaskatt, nr. 87/2011, verði tekin til endurskoðunar með það til hliðsjónar að samkeppnisstaða ólíkra tegunda gististaða hér á landi verði jöfnuð. Kostir þess að afnema gistináttaskattinn verði kannaðir í samhengi við endurskoðun á gjaldtöku af ferðaþjónustu. Samhliða verði hlutdeild sveitarfélaga í gjaldtöku af ferðaþjónustu tekin til skoðunar.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Menningar- og viðskiptaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa og Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

Tengist B.5.

 

B.5. Innviðagjald á skemmtiferðaskip.

Markmið:

Að jafna samkeppnisstöðu innlendra og erlendra fyrirtækja í ferðaþjónustu og efla verðmætasköpun sem fjármagni og stuðli að aukinni uppbyggingu innviða í ferðaþjónustu.

Stutt lýsing:

Samhliða endurskoðun á gjaldtöku í ferðaþjónustu verði unnið að löggjöf um sérstakt gjald, innviðagjald, sem lagt verði á komur erlendra skemmtiferðaskipa og tekjur af þeirri gjaldtöku notaðar til uppbyggingar innviða fyrir ferðaþjónustu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar og viðskiptaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

Tengist B.4. og D.2. Bandormur með innviðagjaldi afgreiddur í tengslum við fjárlög 2024.

 

B.6. Leyfisveitingar og eftirlit með heimagistingu, og hert skilyrði.

Markmið:

Að tryggja skilvirkt eftirlit með heimagistingu, rétta skráningu húsnæðis, jafna samkeppnisstöðu gististaða og gera skýrari kröfur til aðila sem bjóða upp á heimagistingu, m.a. til að losa um íbúðarhúsnæði til að mæta eftirspurn á húsnæðismarkaði.

Stutt lýsing:

Unnið verði að breytingu á lögum um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald, nr. 85/2007, m.a. í þá veru að hver einstaklingur megi aðeins leigja út gistiaðstöðu í einni fasteign, í stað tveggja áður, án þess að þurfa rekstrarleyfi gististaða. Sett verði aukið árlegt fjármagn í eftirlit með heimagistingu og eftirlitið styrkt, m.a. með þeim hætti að lagalegum kröfum um skyldu til að nota skráningarnúmer í markaðssetningu sé fylgt eftir. Unnið verði að því að leyfisveitingar og eftirlit með heimagistingu verði fært frá sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu til Ferðamálastofu og miðað við að sú breyting komi til framkvæmda 2025. Jafnframt verði hámarksfjárhæð stjórnvaldssekta samkvæmt lögum nr. 85/2007 hækkuð með lagabreytingu þannig að hún hafi viðhlítandi fælingarmátt.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, Ferðamálastofa og sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Samband íslenskra sveitarfélaga og Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 25 millj. kr. til viðbótar árlega í eftirlit með heimagistingu.

Staða:

 

 

B.7. Einföldun dvalar- og atvinnuleyfa vegna starfa í ferðaþjónustu.

Markmið:

Að auðvelda íslenskri ferðaþjónustu aðgengi að fag- og sérfræðiþekkingu í þeim tilgangi að auka gæði og efla samkeppnishæfni landsins sem áfangastaðar. Að einfalt og auðskilið upplýsinga- og umsóknarkerfi verði gert aðgengilegt þvert á stofnanir.

Stutt lýsing:

Aðgerðin kallar á endurskoðun og breytingar á lögum nr. 97/2002, um atvinnuréttindi útlendinga, til að auðvelda fyrirtækjum innan íslenskrar ferðaþjónustu að ráða til sín sérfræðinga og fagfólk til starfa, óháð stöðu einstaklings innan Evrópska efnahagssvæðisins. Breytingin verði unnin í samræmi við áherslur í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar, um að auðvelda skuli íslenskum fyrirtækjum að ráða til sín sérfræðinga frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Alþýðusamband Íslands, Ferðamálastofa, Samtök ferðaþjónustunnar, Útlendingastofnun og Vinnumálastofnun.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

C. Samfélag

C.1. Aukin áhersla á sanngildi og sérstöðu íslenskar menningar.

Markmið:

Að Ísland viðhaldi menningarlegri sérstöðu sinni og að áhersla á sanngildi í ferðaþjónustu bæti upplifun innlendra og erlendra ferðamanna og auki samkeppnisforskot áfangastaðarins.

Stutt lýsing:

Starfshópi á vegum menningar- og viðskiptaráðuneytis verði falið að marka stefnu stjórnvalda og innleiða hvata til þess að auka áherslu á sanngildi og sérstöðu íslenskrar menningar í ferðaþjónustu á Íslandi.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Íslandsstofa og Íslenski ferðaklasinn.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Framtíðarstefna fyrir íslenskan útflutning, bókmenningarstefna, kvikmyndastefna, menningararfurinn – stefna um varðveislu og aðgengi, menningarstefna, stefnumörkun um safnastarf.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

C.2. Áfangastaðastofur sem stoðkerfi ferðaþjónustunnar.

Markmið:

Að tryggja öflugt stoðkerfi fyrir ferðaþjónustu á Íslandi þar sem áfangastaðastofur eru lykilaðili með skýrt hlutverk og trausta fjármögnun.

Stutt lýsing:

Tryggður verði rekstur áfangastaðastofa í samstarfi ríkis, sveitarfélaga og ferðaþjónustufyrirtækja í hverjum landshluta með föstum framlögum um verkefni. Áfangastaðastofum verði falið að vinna og uppfæra reglulega áfangastaðaáætlun þess landshluta sem sveitarfélög, ferðaþjónusta og stjórnvöld horfi til við forgangsröðun fjármagns og uppbyggingu ferðaþjónustu. Áfangastaðaáætlunum verði gefið aukið vægi og þær unnar með samræmdum hætti um landið, með ítarlegri kortlagningu á áfangastöðum í hverjum landshluta.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Menningar- og viðskiptaráðuneyti og Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Íslandsstofa og landshlutasamtök sveitarfélaga.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Sóknaráætlanir landshlutanna, áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 40 millj. kr. í aukin árleg framlög til áfangastaðastofa.

Staða:

Ferðamálastofa gengur frá samningum við áfangastaðastofur með auknu fjármagni frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu í desember 2024.

 

C.3. Fjármögnun og rekstur áfangastaða, ásamt endurskoðun á Framkvæmdasjóði ferðamannastaða.

Markmið:

Að komið sé á samræmdu og heildstæðu kerfi fjármögnunar til uppbyggingar og langtímarekstrar á áfangastöðum ferðamanna. Að sjóðir sem styðja við uppbyggingu áfangastaða séu samræmdir og með heildstæða fjármögnun með það að leiðarljósi að áfangastaðirnir verði sjálfbærir hvað varðar uppbyggingu og langtímarekstur.

Stutt lýsing:

Unnið verði að því að sjóðir og áætlanir stjórnvalda, Framkvæmdasjóður ferðamannastaða og landsáætlun um uppbyggingu innviða geti stutt við fjölbreyttari verkefni og að áfangastaðaáætlanir séu nýttar til að uppbygging sé í takt við stefnu landshlutanna. Framkvæmdasjóður ferðamannastaða verði efldur í að fjármagna uppbyggingu áfangastaða með auknum árlegum framlögum til sjóðsins. Lagaákvæði um Framkvæmdasjóð ferðamannastaða, sem og reglur, verði tekin til endurskoðunar og m.a. skoðaðar frumkvæðisheimildir vegna nýrra áfangastaða, skilgreint hvort taka megi þjónustugjald og í hvað það megi fara og áhersla lögð á að aðstaða og þjónusta á ferðamannastöðum sé aðgengileg fyrir öll, eftir því sem unnt er. Úthlutanir úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða taki mið af nýjum áfangastöðum sem gætu orðið fyrir óvæntu álagi.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Ferðamálastofa og umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
  • Tímabil: 2024–2025.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 100 millj. kr. í aukin árleg framlög í Framkvæmdasjóð ferðamannastaða.

Staða:

Fjármagn tryggt í fjárlögum 2025. Lagabreytingar verða skoðaðar á vorþingi 2025 eftir tillögur starfshóps.

 

C.4. Ábyrgð umsjónaraðila áfangastaða.

Markmið:

Að skýra ábyrgð umsjónaraðila áfangastaða.

Stutt lýsing:

Greind verði ábyrgð umsjónaraðila áfangastaða með tilliti til náttúruverndar, þjónustu, aðbúnaðar starfsfólks, gæða og öryggis gesta og hvort þurfi að auka kröfur til umsjónaraðila til að efla þessa þætti. Horft verði til þess hvort munur ætti að vera á ábyrgð eftir því hvort landeigendur og/eða umsjónaraðilar áfangastaða taki aðgangs- og/eða þjónustugjöld eða ekki. Samhliða verði unnið mat á því hvort umsjónaraðilar sem taka slík gjöld þurfi að hafa starfsleyfi, sbr. rekstrarleyfi aðila í ferðaþjónustu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Umhverfisstofnun.
  • Tímabil: 2024–2025.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, 11, 13 og 15.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

C.5. Styrking umgjarðar um áfangastaði í skipulagsgerð.

Markmið:

Að skipulagsgerð stuðli að vandaðri og sjálfbærri uppbyggingu ferðamannastaða og jákvæðri byggðaþróun.

Stutt lýsing:

Starfshópur skipaður fulltrúum sveitarfélaga, ferðaþjónustu og annarra hagaðila skoði leiðir og komi með tillögur um það hvernig megi stuðla að markvissu skipulagi áfangastaða ferðamanna og efla stefnumótun um ferðamennsku og uppbyggingu áfangastaða í skipulagsgerð sveitarfélaga. Starfshópnum verði falið að skoða í því skyni viðeigandi lög og reglugerðir sem varða málaflokkinn, m.a. varðandi skilgreinda landnotkun í skipulagi og hvernig aðrar áætlanir, svo sem áfangastaðaáætlanir, nýtast við skipulagsgerð og aðrar framkvæmdaáætlanir.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Innviðaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Ferðamálastofa, Samband íslenskra sveitarfélaga og Skipulagsstofnun.
  • Tímabil: 2024–2027.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landsskipulagsstefna, byggðaáætlun og áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, 11, 13 og 15.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

C.6. Regluverk um landeigendafélög.

Markmið:

Að til staðar sé skýrt og skilvirkt regluverk um landeigendafélög.

Stutt lýsing:

Unnar verði tillögur að regluverki um landeigendafélög sem taki mið af ákvæðum um veiðifélög í VI. kafla laga um lax- og silungsveiði, nr. 61/2006, m.a. um stofnun, starfshætti og atkvæðisrétt innan félags.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa og Umhverfisstofnun.
  • Tímabil: 2024–2025.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landsskipulagsstefna og áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9, 11, 13 og 15.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

C.7. Samstarf um móttöku skemmtiferðaskipa og nýtingu innviða.

Markmið:

Að móttaka skemmtiferðaskipa skapi verðmæti í sátt við samfélag og náttúru.

Stutt lýsing:

Stofnaðir verði samstarfshópar sveitarfélaga og ferðaþjónustu í hverjum landshluta sem vinni greiningu og móti stefnu landshlutans um umgjörð og komur skemmtiferðaskipa og landtöku utan hafna. Hóparnir skoði m.a. þörf á álagsstýringu og uppbyggingu innviða.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Ferðamálastofa og áfangastaðastofur.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðaþjónustuaðilar, fyrirtæki í hafsækinni ferðaþjónustu, landshlutasamtök sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök ferðaþjónustunnar, Umhverfisstofnun og þjóðgarðar.
  • Tímabil: 2024–2027.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

Tengist aðgerð C.2. og fellt inn í saminga við áfangastaðastofur

 

C.8. Samstarfsnet menningarferðaþjónustu.

Markmið:

Að auka samstarf og sóknarstyrk aðila í menningarferðaþjónustu innan skilgreindra svæða og á landsvísu. Að stuðla að aukinni nýsköpun og eflingu grasrótar á sviði menningarferðaþjónustu innan svæðanna og að fagmennska í greininni aukist sem og miðlun þekkingar, sem leiði til fjölgunar áfangastaða sem byggjast á menningarferðaþjónustu.

Stutt lýsing:

Stutt verði við samstarfsnet menningarferðaþjónustu í hverjum landshluta, með það að markmiði að samstarfið stuðli að virkri þekkingarmiðlun, vöruþróun og nýsköpun. Hlutverk samstarfsnets menningarferðaþjónustu verði að auka samstarf allra sem snertingu hafa við slíka starfsemi, kortleggja sóknarfæri og áskoranir og vera þekkingarmiðstöð og málsvari menningarferðaþjónustu svæðisins út á við. Mótuð verði uppbyggingaráætlun menningarferðaþjónustu á landsvísu, sem taki mið af sérstöðu og sóknarfærum landsvæða með hliðsjón af áherslum í gildandi sóknar- og áfangastaðaáætlunum og annarri stefnumörkun stjórnvalda. Upplifunarhönnun og almenn hönnunargæði verði ávallt í forgrunni í vöruþróun, uppbyggingu innviða og miðlun menningarferðaþjónustu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, háskólar, fræða- og listafólk og aðrir menningarframleiðendur á viðkomandi svæði, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Miðstöð hönnunar og arkitektúrs, menningarstofnanir og rekstraraðilar.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Nýsköpunarstefna – Nýsköpunarlandið Ísland, klasastefna, hönnunarstefna, menningarstefna í mannvirkjagerð, menningararfurinn – stefna um varðveislu og aðgengi, menningarstefna, stefnumörkun um safnastarf, áfangastaðaáætlanir og byggðaáætlun.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11, einkum undirmarkmið 11.4.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 10 millj. kr. í mótun samstarfsnets menningarferðaþjónustu og stuðnings við verkefni sem falla þar undir.

Staða:

 

 

C.9. Samgöngur, þjónusta og öryggi.

Markmið:

Að þjónusta og uppbygging samgangna sé í takt við þróun áfangastaða til að stuðla að öryggi, aðgengi og dreifingu ferðamanna um landið.

Stutt lýsing:

Tryggt verði virkt samtal, upplýsingagjöf og samstarf á milli samgönguyfirvalda og ferðamálayfirvalda um uppbyggingu innviða á sviði ferðaþjónustu, m.a. í gegnum ferðamálaráð, áfangastaðaáætlanir og forgangsröðun landshlutasamtaka í samgöngumálum. Unnið verði að því að þeir áfangastaðir, sem vilji er til að séu aðgengilegir allt árið, séu þjónustaðir til samræmis við það. Við skipulag og þróun almenningssamgangna um landið verði horft til þarfa ferðaþjónustunnar og aðgengis fyrir öll. Einnig verði almenn upplýsingagjöf varðandi samgöngur efld, m.a. verði viðmið um brún skilti endurskoðuð og fest í sessi.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Menningar- og viðskiptaráðuneyti og innviðaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Ferðamálastofa, Isavia, landshlutasamtök sveitarfélaga, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samgöngustofa, Samtök ferðaþjónustunnar og Vegagerðin.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Samgönguáætlun, almenningssamgangnastefna og byggðaáætlun.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11, einkum undirmarkmið 8.9, 9.1, og 11.2.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

C.10. Uppbygging millilandaflugs styðji við dreifingu ferðamanna.

Markmið:

Að erlendir ferðamenn hafi aukið aðgengi að áfangastöðum á Íslandi, allt árið um kring, í gegnum millilandaflugvellina á Akureyri og Egilsstöðum, auk Keflavíkurflugvallar.

Stutt lýsing:

Aðgengi ferðamanna að áfangastöðum um land allt verði bætt með aukinni uppbyggingu og markaðssetningu millilandaflugs á landinu, utan Keflavíkurflugvallar. Auknu fjármagni verði veitt í flugþróunarsjóð sem styðji við uppbyggingu og þróun millilandaflugs um Akureyrar- og Egilsstaðaflugvöll. Aukin áhersla verði á markaðssetningu millilandaflugs, utan Keflavíkurflugvallar, þannig að byggðar verði upp fleiri aðkomuleiðir inn í landið, sem stuðli að auknu aðgengi að fjölbreyttum áfangastöðum á landsvísu, allt árið um kring, með jafnari dreifingu ferðamanna og verðmætasköpun á landsvísu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Ferðamálastofa, innviðaráðuneyti, Isavia, Íslandsstofa, Samgöngustofa og Vegagerðin.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Flugstefna og byggðaáætlun.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 30 millj. kr. aukið árlegt framlag í flugþróunarsjóð og til markaðssetningar millilandaflugs utan Keflavíkurflugvallar.

Staða:

Fjármagn tryggt í fjárlögum 2025. Flugþróunarsjóður styrktur með auknu fjármagni. Gengið frá samningum við Markaðsstofu Norðurlands og Austurbrú.

Nánar

C.11. Endurskoðun á fyrirkomulagi og hlutverki ferðamálaráðs.

Markmið:

Að til staðar sé vettvangur sem hafi yfirsýn yfir þverfaglegt eðli ferðaþjónustunnar þar sem unnið er að samræmingu og samhæfingu milli ráðuneyta, stofnana og atvinnugreinarinnar, með það að markmiði að stuðla að framgangi og innleiðingu á þeim áherslum og aðgerðum sem koma fram í ferðamálastefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2030.

Stutt lýsing:

Þau ákvæði laga um Ferðamálastofu, nr. 96/2018, sem fjalla um starfsemi, hlutverk og samsetningu ferðamálaráðs, verði tekin til endurskoðunar með það að markmiði að tryggja að til staðar sé virkur vettvangur, skipaður af ráðherra, sem hafi skýrt umboð til að vinna að og styðja við fyrirliggjandi stefnumótun á sviði ferðamála og aðgerðaáætlun, og tryggja samhæfingu og samstarf innan ólíkra stiga stjórnsýslu og á milli stjórnvalda og atvinnugreinarinnar, ásamt því að vinna að öðrum forgangsatriðum á sviði ferðaþjónustu hverju sinni.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Samtök ferðaþjónustunnar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, innviðaráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

D. Umhverfi.

D.1. Þróun verkfærakistu til að meta þolmörk og bregðast við álagi á áfangastöðum ferðamanna.

Markmið:

Að tryggja að umsjónaraðilar áfangastaða hafi yfirsýn og samræmd verkfæri og úrræði til að meta og bregðast við álagi á áfangastöðum, með það að markmiði að koma í veg fyrir að farið sé yfir þolmörk áfangastaða með neikvæðum áhrifum á náttúru, menningarminjar, innviði, upplifun, efnahag og nærsamfélög.

Stutt lýsing:

Skipaður verði starfshópur sem vinnur að því að útfæra verkfærakistu samsetta af samræmdum verkfærum og úrræðum sem gera umsjónaraðilum áfangastaða kleift að meta og bregðast tímanlega við of miklu álagi á áfangastöðum, og vinna þannig að sjálfbærri þróun áfangastaða.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Umhverfisstofnun og Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Minjastofnun, þjóðgarðar og Rannsóknamiðstöð ferðamála.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, landsskipulagsstefna og stefnumörkun um líffræðilega fjölbreytni.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 20 millj. kr. í kostnað við þróun verkfærakistu.

Staða:

 

 

D.2. Innleiðing álagsstýringar á áfangastöðum ferðamanna.

Markmið:

Að stýra og jafna álag á áfangastöðum ferðamanna, svo vernda megi viðkvæma náttúru, menningarminjar og innviði og leitast við að koma í veg fyrir neikvæða upplifun gesta og heimamanna. Þannig sé stuðlað að sjálfbærri þróun áfangastaða.

Stutt lýsing:

Fyrirkomulag álagsstýringar verði útfært til að sporna við of miklu álagi og bæta flæði umferðar ferðamanna, þar sem þörf er á. Stutt verði við gerð þolmarkagreininga og hagnýtingu þeirra með skilgreiningu viðmiða um þolmörk, byggt á stefnu hvers staðar með tilliti til ferðamennsku. Á grunni þess verði skilgreint hvaða aðferðir henti til álagsstýringar og þær innleiddar. Skipaður verði starfshópur til að útfæra fyrirkomulag álagsstýringar, þar sem gjaldtaka á fjölsótta ferðamannastaði komi m.a. til skoðunar. Fyrst um sinn verði horft til ferðamannastaða í eigu og umsjón ríkisins.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, Umhverfisstofnun og Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, fyrirtæki í hafsækinni ferðaþjónustu, Minjastofnun, Samtök ferðaþjónustunnar, fjármála- og efnahagsráðuneyti, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Rannsóknamiðstöð ferðamála og þjóðgarðar.
  • Tímabil: 2024–2026.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, landsskipulagsstefna og áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 9 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 20 millj. kr. í þolmarkarannsóknir.

Staða:

Tengist B.5.

 

D.3. Fjölgun fyrirtækja með umhverfis- og/eða sjálfbærnivottanir.

Markmið:

 

Að fjölga fyrirtækjum með umhverfis- og/eða sjálfbærnivottanir með það að markmiði að rekstur fyrirtækja í ferðaþjónustu taki mið af umhverfisáhrifum og lágmarki neikvætt vistspor.

Stutt lýsing:

Sjálfbærnivegferð íslenskra fyrirtækja verði efld, m.a. með aukinni upplýsingagjöf, fræðslu og hvatningu. Bætt aðgengi starfsfólks fyrirtækja og atvinnurekenda að náms- og fræðsluefni á þessu sviði verði hluti af því, svo sem varðandi vottunarferli, sjálfbærnistefnur, samfélagslega ábyrgð og tengingu við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Ferðamálastofa og Íslenski ferðaklasinn.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Alþýðusamband Íslands, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Íslenski ferðaklasinn og Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4, 8, 9 og 12.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 10 millj. kr. í gerð fræðsluefnis og miðlun þess.

Staða:

Tengist E.6.

 

D.4. Fræðsla og hvatning um sjálfbæra og nærandi ferðaþjónustu.

Markmið:

Að auka jákvæð umhverfisáhrif í rekstri fyrirtækja í ferðaþjónustu, efla sjálfbærni, samfélagslega ábyrgð og lágmarka neikvætt vistspor innan greinarinnar.

Stutt lýsing:

Unnið verði, og gert aðgengilegt, fræðsluefni um sjálfbæra og nærandi ferðaþjónustu, fyrir öll, sem nýtist fyrirtækjum og atvinnurekendum í ferðaþjónustu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Ferðamálastofa og Íslenski ferðaklasinn.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Alþýðusamband Íslands, Samtök ferðaþjónustunnar, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Íslandsstofa og Íslenski ferðaklasinn.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4, 8, 10, 11, 12 og 16.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 10 millj. kr. í gerð fræðsluefnis og miðlun þess.

Staða:

Tengist E.6. Samið við Íslenska ferðaklasann um að leiða verkefnið.

 

D.5. Styrking landvörslu.

Markmið:

Að mæta nýjum áskorunum sem fylgja fjölgun og breyttri ferðahegðun ferðamanna með aukinni landvörslu og lengingu tímabils landvörslu á áfangastöðum.

Stutt lýsing:

Styrking landvörslu felist í fjölgun landvarða og lengri viðverutíma þeirra á áfangastöðum ferðamanna. Unnið verði að fjármögnun fjölgunar landvarða, að ráðningarferli landvarða hefjist fyrr á vorin og að landvarsla verði tryggð lengra fram á haustið í takt við breytingar á ferðahegðun.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Umhverfisstofnun og þjóðgarðar.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 11 og 17.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 20 millj. kr. á ári í fjölgun landvarða og styrkingu landvörslu.

Staða:

 

 

D.6. Orkuskipti í ferðaþjónustu.

Markmið:

Að hraða orkuskiptum í ferðaþjónustu og samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda sem styður við stefnumótun stjórnvalda í orku- og loftslagsmálum.

Stutt lýsing:

Unnið verði í samræmi við stefnumótun stjórnvalda á sviði orku- og loftslagsmála og aðgerðum á sviði orkuskipta í ferðaþjónustu hraðað eins og kostur er, t.d. varðandi bílaleigur og innanlandsflug.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Orkustofnun, Samtök ferðaþjónustunnar og Umhverfisstofnun.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna til ársins 2050 og aðgerðaáætlun hennar.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7 og 13.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 30 millj. kr. í aukið árlegt framlag til að hraða orkuskiptum í ferðaþjónustu.

Staða:

 

 

D.7. Aðlögun að loftslagsbreytingum.

Markmið:

Að til staðar sé greining og vöktun á áhrifum loftslagsbreytinga á íslenska ferðaþjónustu sem auðveldi aðlögun greinarinnar að loftslagsbreytingum.

Stutt lýsing:

 Unnið verði að greiningu og vöktun á margvíslegum afleiðingum loftslagsbreytinga á íslenska ferðaþjónustu. Slík greining og vöktun verði nýtt í uppfærslum á stefnumótun stjórnvalda og aðgerðaáætlunum á sviði loftslagsmála.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Íslenski ferðaklasinn, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök ferðaþjónustunnar, Umhverfisstofnun, umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og Veðurstofan.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Orkustefna, loftslagsstefna, stefna um aðlögun að loftslagsbreytingum og byggðaáætlun.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 7 og 13.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

 

 

E. Gestir.

E.1. Markviss kynning og markaðssetning menningarferðaþjónustu á Íslandi.

Markmið:

Að menning verði skilgreind sem önnur af tveimur meginstoðum íslenskrar ferðaþjónustu, ásamt náttúru, sem grundvöllur fyrir jákvæða og sérstæða upplifun ferðamanna af Íslandi. Að markaðs- og kynningarstarf fyrir áfangastaðinn taki mið af því með mótun stefnu, skilgreiningu á markhópum og markaðssetningu.

Stutt lýsing:

Unnið verði að því að íslensk menning og listir í samtíma og sögu, hönnun, handverk, arfleifð, hátíðir, sögustaðir, menningarlandslag og matarmenning fái ótvírætt vægi sem hluti af meginstoðum íslenskrar ferðaþjónustu í opinberu kynningarstarfi. Stutt verði við að fagleg og áreiðanleg upplýsingamiðlun um framboð á íslenskri menningarferðaþjónustu, á landsvísu, allt árið um kring, verði aðgengileg innlendum og erlendum gestum. Veittur verði aukinn stuðningur við kynningar- og markaðsstarf á sviði menningarferðaþjónustu til að fjölga gestum og styðja við þróun áhugaverðra áfangastaða.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Íslandsstofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, Ferðamálastofa, menningarstofnanir og Samtök um söguferðaþjónustu.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Framtíðarstefna fyrir íslenskan útflutning, áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 15 millj. kr. árlegt framlag í markaðssetningu menningarferðaþjónustu.

Staða:

 

 

E.2. Efling náms í ferðaþjónustu þvert á skólastig og aukið aðgengi að námi.

Markmið:

Að námsframboð á sviði ferðamála og ferðaþjónustu verði markvisst og stuðlað verði að auknum tengslum og flæði milli náms á mismunandi stigum, með það að markmiði að auka aðgengi að námi, að sem flestum verði gert kleift að finna nám við hæfi, efla og styrkja mannauð innan ferðaþjónustunnar og ýta undir fjölmenningarvitund og inngildingu.

Stutt lýsing:

Unnið verði að því að efla nám í ferðaþjónustu, þvert á skólastig, og auka aðgengi að því, með það að leiðarljósi að auka gæði og hæfni innan greinarinnar, efla og styrkja mannauð, sem leiðir til aukinnar þekkingar, starfsánægju, skilvirkni, framleiðni og samkeppnishæfni. Gerð verði úttekt á núverandi námi í ferðamálum og ferðaþjónustu og áætlun um þróun og eflingu námsins í samræmi við þróun atvinnugreinarinnar og stefnu stjórnvalda í ferðamálum, m.a. með áherslu á fjölmenningarvitund og inngildingu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Menningar- og viðskiptaráðuneyti, mennta- og barnamálaráðuneyti og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Alþýðusamband Íslands, félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, menntastofnanir, Samtök ferðaþjónustunnar og símenntunarmiðstöðvar.
  • Tímabil: 2024–2028.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna til ársins 2030.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4 og 8.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 15 millj. kr. vegna úttektar.

Staða:

Gunnar Þór Jóhannesson, prófessor í ferðamálafræði við Háskóla Íslands, leiðir starfshóp.

 

E.3. Menntunarkrafa til leiðsögumanna sem starfa í þjóðgörðum.

Markmið:

Að samræmi sé innan þjóðgarða varðandi menntunarkröfur til leiðsögumanna, sem kveðið er á um í atvinnustefnu þjóðgarða.

Stutt lýsing:

Unnið verði að úttekt á því hvaða kröfur eru gerðar til leiðsögumanna sem starfa innan þjóðgarða á Íslandi. Í framhaldi af því verði útbúnar skýrar lágmarkskröfur um menntun og hæfni, sem þarf að uppfylla til að fá leyfi til að starfa við leiðsögn innan þjóðgarðs.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðilar: Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti, Umhverfisstofnun og þjóðgarðar.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Ferðamálastofa, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar og Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Tímabil: 2024–2028.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4 og 8.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 15 millj. kr. í úttekt.

Staða:

 

 

E.4. Alþjóðlegt nám í afþreyingartengdri ferðaþjónustu, með áherslu á sjálfbærni.

Markmið:

Að Ísland verði framarlega í alþjóðlegu námi í afþreyingartengdri og nærandi ferðaþjónustu þar sem sjálfbærni-, öryggis- og gæðamál eru í forgrunni.

Stutt lýsing:

Starfshópur vinni að því að hér á landi verði boðið upp á nám í ferðaþjónustu, með alþjóðlega viðurkenndri prófgráðu, í þeim tilgangi að auka fagmennsku innan greinarinnar, ásamt því að styrkja ásýnd og ímynd íslenskrar ferðaþjónustu.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Félag fjallaleiðsögumanna, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti, háskólar, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Íslandsstofa, mennta- og barnamálaráðuneyti og Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Tímabil: 2024–2027.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Menntastefna til 2030.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 4 og 8.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 10 millj. kr. í undirbúning og mótun alþjóðlegs náms.

Staða:

Samningur gerður við Hæfnissetur ferðaþjónustunnar um verkefnið. Formaður starfshóps: Haukur Harðarson.

 

E.5. Upplýsingar og spár um aðsókn að áfangastöðum.

Markmið:

Að stuðla að betri upplýsingagjöf sem nýtist til ákvörðunartöku gesta, umsjónaraðila og ferðaþjónustufyrirtækja varðandi heimsókn og dvöl á áfangastöðum, og stuðla að bættri álagsstýringu á fjölsóttum áfangastöðum.

Stutt lýsing:

Stutt verði við og þróað verkefni um talningar á áfangastöðum, m.a. með fjölgun teljara. Jafnframt verði komið á fót spákerfi um aðsókn að áfangastöðum, þar sem hægt er að greina fjölda ferðamanna á áfangastöðum, dreifingu á landsvísu og eftirspurn eftir gistingu niður á svæði.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Áfangastaðastofur, landeigendur, Umhverfisstofnun og þjóðgarðar.
  • Tímabil: 2024–2027.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Rannsóknaráætlun Ferðamálastofu, áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8 og 11.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 30 millj. kr.

Staða:

 

 

E.6. Endurskoðun á gæða- og umhverfisvottun fyrir íslenska ferðaþjónustu.

 Markmið:

Að til verði skýr framtíðarsýn um gæða- og umhverfisvottun fyrir íslenska ferðaþjónustu.

Stutt lýsing:

Skipaður verði starfshópur sem vinni greinargerð og tillögur til ráðherra um fyrirkomulag gæða- og umhverfisvottunar fyrir íslenska ferðaþjónustu, m.a. með hliðsjón af þróun Vakans.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Íslenski ferðaklasinn og Samtök ferðaþjónustunnar.
  • Tímabil: 2024–2025.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Loftslagsstefna og áfangastaðaáætlanir.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 8, 9 og 12.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: Innan ramma.

Staða:

Tengist aðgerð D.3 og D.4. Starfshópinn skipa:

  • Elías Bj. Gíslason, Ferðamálastofa (formaður)
  • Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, Íslenski ferðaklasinn
  • María Rut Ágústsdóttir, SAF
  • Guðný Hrafnkelsdóttir, Menningar- og viðskiptaráðuneytið (starfar með hópnum)
  • Alda Þrastardóttir, Ferðamálastofu (starfsmaður hópsins)

 

E.7. Bætt öryggi ferðamanna.

Markmið:

Að tryggja öryggi ferðamanna um land allt, eins og kostur er, hvort sem um er að ræða á fjölsóttum áfangastöðum eða á ferð um landið almennt.

Stutt lýsing:

Stofnaður verði starfshópur til þess að greina öryggismál í ferðaþjónustu, vinna að framgangi þeirra og tryggja samtal á milli aðila. Starfshópurinn skoði m.a. upplýsingagjöf, hvernig skráningu slysa og óhappa er háttað, áhættumat á áfangastöðum, uppfærslu viðbragðsáætlunar, fjarskiptasamband, viðbragðstíma viðbragðsaðila og samræmda og skýra upplýsingagjöf til ferðamanna.

  • Ábyrgðarráðuneyti: Menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Framkvæmdaraðili: Ferðamálastofa.
  • Dæmi um samstarfsaðila: Almannavarnir, áfangastaðastofur, heilbrigðisráðuneyti, Hæfnisetur ferðaþjónustunnar, Fjarskiptastofa, Íslandsstofa, lögreglan, sveitarfélög, dómsmálaráðuneyti, Umhverfisstofnun, Slysavarnafélagið Landsbjörg og Vegagerðin, Veðurstofan, innviðaráðuneyti.
  • Tímabil: 2024–2030.
  • Tenging við aðrar stefnur/áætlanir: Stefna stjórnvalda í almannavarna- og öryggismálum, fjarskiptaáætlun og aðgerðaáætlun um sjúkraflutninga og bráðaþjónustu til ársins 2025.
  • Tenging við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna: Styður markmið 3 og 9, einkum undirmarkmið 3.6 og 9.1.
  • Kostnaðarmat aðgerðar: 30 millj. kr. árlega í ýmsar aðgerðir og verkefni til að tryggja öryggi ferðamanna.

Staða:

Fjármagn tryggt í fjárlögum. Starfshópinn skipa:

  • Dagbjartur Brynjarsson, Ferðamálastofu, formaður.
  • Ágúst Elvar Bjarnason, SAF.
  • Elín Sigurveig Sigurðardóttir, Icelandia, tilnefnd af SAF.
  • Gauti Daðason, innviðaráðuneyti.
  • Guðný Hrafnkelsdóttir, menningar- og viðskiptaráðuneyti.
  • Haukur Herbertsson, Mountaineers of Iceland, tilnefndur af SAF.
  • Helga Harðardóttir, heilbrigðisráðuneyti.
  • Jóhanna Katrín Þórhallsdóttir, Vatnajökulsþjóðgarði, tilnefnd af umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti.
  • Kjartan Jón Björgvinsson, dómsmálaráðuneyti.

Nánar