Suðurnámur - hringur Gönguleið
Fjallganga með stórbrotnu útsýni sem byrjar og endar í Landmannalaugum.
Nánari upplýsingar
Landshluti
Suðurland, Rangárþing Ytra
Upphafspunktur
Landmannalaugar
Merkingar
- Stikuð - merkt leið með stiku, staur eða stöng með reglulegu millibili
- Skilti við upphaf leiðar
Tímalengd
3 - 4 klukkustundir
Yfirborð
- Möl
- Stórgrýtt
- Votlendi
- Hraun
Hættur
- Berghrun - Grjót getur fallið úr klettum, skriðum og fjallshlíðum
- Vað - Óbrúaður lækur/á, eða votlendi/mýrar
- Vindstrengir - Leið þekkt fyrir kröftuga vindstrengi
Þjónusta á leiðinni
- Tjaldsvæði
- Landvarsla
- Salerni
Lýsing
Óupplýst leið
Tímabil
Vanalega orðið fært síðla í júní.
Suðurnámur (915 m) er tignarlegur fjallarani sem setur mikinn svip á nærsvæði Landmannalauga. Til að komast að fjallinu er fyrst farið frá Landmannalaugum og upp í gegnum Laugahraun. Eftir að gengið er niður úr hrauninu er komið að stígamótum og hér er beygt til vesturs. Er nú gengið um Vondugiljaaura og stefnan sett á fagran en nafnlausan foss. Gengið er upp á hrygg skammt frá fossinum og loks komið að stígamótum við rætur Suðurnáma. Hér er beygt til austurs og um leið taka við rauðar stikur sem marka leiðina upp á fjallið. Leiðin upp er nokkuð brött á köflum en að mestu greiðfær. Stikurnar leiða göngufólk upp á háhrygg fjallsins og þar gefst frábært útsýni yfir Laugahraun og inn Jökulgil. Áfram er gengið í austur og farið niður af háfjallinu. Eftir mesta brattann er komið niður í lægð í fjallinu og hér beygir leiðin til norðurs út á mjóan hrygg, þar sem gengið er niður í aflokaðan dal. Landslagið í dalnum er stórbrotið og háir litríkir klettar hanga yfir. Leiðin liggur út úr dalnum eftir flötum áreyrum. Að lokum liggur stutt gata í gegnum Námshraun og komið er að veginum sem leiðir aftur til Landmannalauga.
Frá Landmannalaugum og í gegnum Laugahraun og Vondugiljaaura skal elta stikur með hvítum lit, en við stígamót við rætur Suðurnáma (eftir ca. 3,5 km göngu) taka við rauðlitaðar stikur sem vísa leiðina þvert yfir fjallið og niður að veg við Námshraun.