Fara í efni

Kjarnaskógur - Gamli - Fálkafell - Súluvegur

Mikilfengleg gönguleið sem liggur ofan á klettabeltinu sem tengir Kjarnaskóg við Glerárdal, með viðkomu hjá skátaskálunum Fálkafelli og Gamla.

Nánari upplýsingar

Landshluti
Norðurland, Akureyrarbær
Upphafspunktur
65.645678, -18.084639
Erfiðleikastig
Þrep 2 - Miðlungs leið
1 2 3 4
Merkingar
  • Stikuð - merkt leið með stiku, staur eða stöng með reglulegu millibili
  • Skilti við upphaf leiðar
Tímalengd
2 - 3 klukkustundir
Yfirborð
  • Möl
  • Blandað yfirborð
Hindranir
  • Þrep - Trappa, stallur, stig eða lágur hjalli sem þarf að stíga upp á
  • Vatnsrás - skurður eða renna til að ræsa fram vatni
  • Brú - mannvirki sem ber stíg/slóða/veg yfir vatnsfall, sund, gil eða aðra hindrun
  • Vað - Óbrúaður lækur, eyrar eða mýrar
Stígur/slóði liggur um klappir, mýrar og börð. Yfir suma læki þarf að stikla eða stökkva, meðan aðrir eru brúaðir með einföldu mannvirki. Hluti af leiðinni liggur meðfram klöppum og gæta þarf þess að ganga ekki of nálægt brúninni, sérstaklega ef það er hálka eða bleyta.
Hættur
  • Sprungur - Djúp glufa eða brot í bergi eða í jarðvegi sem er á hreyfingu
  • Hálka - Hál og sleip leið
Þjónusta á leiðinni
Engin þjónusta
Salerni og sorplosun er við upphaf leiðar í Kjarnaskógi / Hömrum (bílastæðin). Engin salerni eru við Súluveg.
Lýsing
Óupplýst leið
Tímabil
Opið alla árstíma
Úr Kjarnaskógi er hægt að velja um nokkrar leiðir, algengust er sú sem byrjar fyrir neðan Kirkjustein og gengið upp brattan hrygg upp á klappirnar. Þaðan er gengið eftir jökulsorfnum klöppum í gegnum skógarbelti og upp að Gamla sem er skáli skátanna. Sú leið sem hér er sýnd er dálítið norðar og lengri, gengið er eftir stígnum sem liggur fyrir ofan Hamra í átt að Naustaborgum, þaðan er beygt af leið upp á hól og inn í skóginn eftir slóða sem endar við Gamla. Frá Gamla er hægt að taka auka krók og fara að Steinmönnum, stórum grjóthnullungum ofar á svæðinu eða halda áfram til norðurs eftir klettabeltinu og upp að Fálkafelli, öðrum skála á vegum skátanna. Þaðan er gott útsýni yfir bæinn og út og yfir fjörðinn. Frá Fálkafelli er hægt að velja um tvær leiðir annars vegar fjallahjólabrautina niður að bílastæðinu fyrir gönguleiðina upp á Súlur eða vegslóðann sem liggur fram hjá stórri vörðu og áfram niður á Súluveg rétt hjá hitaveituskúrum Norðurorku. Ef ferðin hefst Glerárdalsmegin er algengast að byrja við Súluveg við hitaveituskúra Norðurorku og síðan gengið öfugt á við leiðarlýsinguna hér fyrir ofan. Leiðin liggur eftir fjölbreyttu undirlagi: vegslóðum, kindagötum, klöppum, mýri og móa. Stór hluti leiðarinnar liggur ofan á klettabeltinu fyrir ofan Naustaborgir og Kjarnaskóg með stórfenglegu útsýni. Athugið að leiðin er bæði notuð af gangandi og hjólandi. Skátaskálarnir eru læstir og nýtast í skátastarfi en sjálfsagt er að nota pallinn við Gamla eða skjól við húsin sem áningarstað svo lengi sem það truflar ekki skátastarfið.