Áfangastaðaáætlanir kynntar í dag - bein útsending
Í dag verða helstu niðurstöður áfangastaðaáætlana allra landshluta kynntar á fundi sem Ferðamálastofa heldur á Hótel Sögu kl. 13:00. Bein útsending frá fundinum verður hér á vefnum.
Heildstætt ferli
Áfangastaðaáætlanir hafa verið unnar í samvinnu við markaðsstofur landshlutanna sem farið hafa með verkefnisstjórn á sínum svæðum. Áætlanirnar taka á skipulagi, þróun og markassetningu svæða. Um er að ræða heildsdætt ferli þar sem litið er til skipulags og samhæfingar í þróun og stýringu allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á upplifun ferðamanna á viðkomandi áfangastað, þar með talið þarfir gesta, heimamanna, fyrirtækja og umhverfis.
Heimafólk setji sér framtíðarsýn
Marmið með áfangastaðaáætlun er að heimamenn setji sér framtíðarsýn og móti sinn áfangastað, ákveði hvert skuli stýra ferðamönnum og hvernig sé hægt að fá ferðamenn til að dvelja lengur á áfangastöðum svo að ferðaþjónusta blómstri á svæðunum.
Umfangsmesta verkefnið
Þetta verkefni er það umfangsmesta sem hefur verið unnið á grundvelli Vegvísis í ferðaþjónustu. Því er hvergi nærri lokið, heldur er næsta skref að fylgja þessum áætlunum eftir og uppfæra þær í takt við tímann.
Dagskrá fundarins
Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri mun setja fundinn og í kjölfarið munu verkefnastjórar áfangastaðaáætlana kynna helstu niðurstöður sinna svæða. Dagný Arnarsdóttir, sérfræðingur hjá umhverfis- og auðlindaráðuneyti mun í kjölfarið fjalla um snertifleti Landsáætlunar um innviði við áfangstaðaáætlanir. Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga mun svo ræða um hvernig hún sér að þessar áfangastaðaáætlanir muni nýtast í framtíðinni.
Fundurinn verður sem fyrr segir haldinn á Hótel Sögu og má fylgjast með í beinni útsendingu hér neðst í fréttinni.
Dagskrá:
- Ávarp og setning fundar - Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri
- Verkefnisstjórar kynna áfangastaðaáætlanir
- Áfangastaðaáætlun Vesturlands - Margrét Björk Björnsdóttir
- Áfangastaðaáætlun Austurlands - María Hjálmarsdóttir
- Áfangastaðaáætlun Norðurlands - Björn H. Reynisson
Kaffihlé
- Áfangastaðaáætlun Höfuðborgarsvæðis - Ágúst Elvar Bjarnason
- Áfangastaðaáætlun Reykjaness - Þuríður H. Aradóttir Braun
- Áfangastaðaáætlun Suðurlands - Anna Valgerður Sigurðardóttir og Laufey Guðmundsdóttir
- Áfangastaðaáætlun Vestfjarða - Magnea Garðarsdóttir
- Snertifletir Landsáætlunar um innviði við áfangastaðaáætlanir - Dagný Arnarsdóttir og Jón Geir Pétursson frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti
- Hvernig munu áfangastaðaáætlanir nýtast? - Aldís Hafsteinsdóttir, bæjarstjóri Hveragerðisbæjar og formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga
Fundarstjóri verður Steinunn Valdís Óskarsdóttir, sérfræðingur hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti.