146 þúsund erlendir ferðamenn í maí
Rúmlega 146 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í maí síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 22.000 fleiri en í maí á síðasta ári. Fjölgunin nemur 17,8% milli ára.
Tölur um fjölda ferðamanna birtast með seinna lagi að þessu sinni en ástæðan er uppfærsla á flugupplýsingakerfi á flugvellinum, sem tók lengri tíma að innleiða en áætlað var.
Dregur úr fjölgun
Fjölgunin í maímánuði var minni en aðra mánuði yfirstandandi árs. Þannig fjölgaði ferðamönnum um 75,3% milli ára í janúar, 47,3% í febrúar 44,4% í mars og 61,8% í apríl. Frá áramótum hafa um 752 þúsund erlendir ferðamenn farið úr landi um Keflavíkurflugvöll sem er 46,5% aukning miðað við sama tímabil árið á undan.
Bandaríkjamenn langfjölmennastir en Bretum fækkar
Bandaríkjamenn voru 30% eða tæpur þriðjungur ferðamanna í maí og fjölgar verulega. Bretar komu þar næstir en athygli vekur að þeim fækkar talsvert á milli ára, eða um 28%. Annars var hlutfall tólf fjölmennustu þjóðernanna af heildarfjölda í maí sem hér segir:
- Bandaríkin 34,2%
- Bretland 7,8%
- Þýskaland 7,4%
- Kanada 6,2%
- Frakkland 5,2%
- Svíþjóð 4,2%
- Noregur 3,7%
- Pólland 3,4%
- Danmörk 3,1%
- Holland 2,9%
- Kína 2,6%
- Finnland 2,1%
Meira en þreföldun ferðamanna á tímabilinu janúar-apríl á fimm ára tímabili
Fjöldi ferðamanna hefur meira en þrefaldast á tímabilinu janúar til maí á fimm ára tímabili, þ.e. frá árinu 2013. Þannig hefur fjöldi N-Ameríkana nærri sexfaldast, Mið- og S-Evrópubúa meira en þrefaldast, Breta nærri þrefaldast og fjöldi ferðamanna frá löndum sem flokkast undir annað nærri fimmfaldast. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað í mun minna mæli eða um 34% á tímabilinu 2013-2017.
Breytt samsetning
Hlutfallsleg samsetning ferðamanna hefur breyst nokkuð frá árinu 2013 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar og sýnir samanlagðan fjölda frá áramótum ár hvert. Bandaríkjamenn voru 29,1% af heild árið 2017 sem er mun hærra hlutfall en á árunum 2013-2016. Hlutdeild Breta var í kringum 27-29% á árunum 2013-2016 en fer niður í 21,8% árið 2017. Norðurlandabúar voru 8,1% af heild árið 2017 en hlutdeild þeirra hefur lækkað jafnt og þétt síðustu ár. Hlutdeild Mið-og S-Evrópubúa hefur verið svipuð á tímabilinu 2013-2017 en hefur hækkað hjá þeim sem falla undir annað.
Ferðir Íslendinga utan
Um 52 þúsund Íslendingar fóru utan í maí eða 10,7% fleiri en í maí 2016. Frá áramótum hafa um 227 þúsund Íslendingar farið utan eða 22,9% fleiri en á sama tímabili árið 2016.
Nánari upplýsingar
Talning Ferðamálastofu er hugsuð sem viðbótarupplýsingar við farþegatölur Isavia til að geta greint fjölda ferðamanna til landsins eftir þjóðernum. Um er að ræða handtalningu við brottför og vert er að hafa í huga með þeirri aðferðafræði sem beitt er ná talningarnar yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð, þ.m.t. þeirra erlendu ríkisborgara sem hér eru búsettir um lengri eða skemmri tíma. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.