175 þúsund ferðamenn í september
Um 175 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá landinu í september síðastliðnum samkvæmt talningum Ferðamálastofu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar eða 52 þúsund fleiri en í september á síðasta ári. Aukningin nemur 42,5% milli ára.
Ferðamönnum heldur því áfram að fjölga en mikil aukning hefur mælst alla mánuði ársins milli ára eða 23,6% í janúar, 42,9% í febrúar, 38,1% í mars, 32,5% í apríl, 36,5% í maí, 35,8% í júní, 30,6% í júlí og 27,5% í ágúst. Heildarfjöldi ferðamanna frá áramótun er um 1,3 milljón eða 33,9% fleiri miðað við fjölda ferðamanna á tímabilinu janúar til september árið 2015.
Bandaríkjamenn, Þjóðverjar og Bretar 45% í september
Um 71% ferðamanna í nýliðnum september voru af tíu þjóðernum. Bandaríkjamenn voru fjölmennastir eða 25,9% af heildarfjölda en næstir komu Þjóðverjar (9,6%) og Bretar (9,3%). Þar á eftir fylgdu Kanadamenn (6,2%), Frakkar (4,1%), Kínverjar (3,5%), Svíar (3,3%), Danir (3,0%), Spánverjar (2,9%) og Norðmenn (2,9%).
Bandaríkjamönnum fjölgaði langmest milli ára í september eða um 17.400 manns. Um er að ræða 62,2% aukningu frá því í september árið 2015. Kanadamönnum fjölgaði um fjögur þúsund manns í september (60,2% aukning milli ára) og svipuð fjölgun var frá Þýskalandi (32,5% aukning). Bretum fjölgaði um 3.600 (28,4% aukning), Svíum um 2.400 (28,3%) og Frökkum um 2.100 (42% aukning). Þessar sex þjóðir báru uppi 64,5% af aukningu ferðamanna milli ára í september.
Ríflega fjórföld aukning ferðamanna frá 2010
Þegar litið er til fjölda ferðamanna í nýliðnum septembermánuði má sjá verulega fjölgun frá árinu 2010 eða ríflega fjórfalda aukningu. Fjöldi ferðamanna frá N-Ameríku hefur meira en sjöfaldast, fjöldi Breta meira en fjórfaldast, fjöldi ferðamanna frá Mið- og S-Evrópu meira en þrefaldast og fjöldi ferðamanna sem lenda í hópnum ,,annað“ nærri sexfaldast. Norðurlandabúum hefur hins vegar fjölgað í minna mæli.
Hlutfall N-Ameríkana hækkar en Norðurlandabúa lækkar
Samsetning ferðamanna hefur breyst nokkuð frá árinu 2010 eins og sjá má af myndinni hér til hliðar. Í september síðastliðnum voru Norðurlandabúar 10,5% ferðamanna en hlutfall þeirra af heild hefur lækkað verulega síðustu ár. Hlutdeild N-Ameríkana hefur hins vegar farið vaxandi en það var 18,6% af heild árið 2010 en var komið í 32,1% í ár. Hlutdeild Breta og Mið- og S-Evrópubúa hefur verið á líku róli á tímabilinu 2010 til 2016.
Ferðir Íslendinga utan
Um 48 þúsund Íslendingar fóru utan í september eða 4.200 fleiri en í september árið 2015. Um er að ræða 9,7% fleiri brottfarir en í september 2015.
Nánari upplýsingar
Talningar Ferðamálastofu ná yfir allar brottfarir frá landinu um Leifsstöð. Skiptingu milli landa má sjá í töflunni hér að neðan og nánari upplýsingar undir liðnum Tölur og útgáfur / Fjöldi ferðamanna hér á vefnum.