3% fjölgun gistinátta fyrri hluta ársins
Hagstofan hefur birt tölur um gistinætur á hótelum í júní og þar með liggja fyrir tölur fyrir fyrri helming ársins. Þær sýna 3% fjölgun gistinátta á milli ára sem alla má rekja til aukinnar gistingar Íslendinga. Gistinætur útlendinga standa í stað á milli ára.
Gistinætur fyrstu sex mánuði ársins voru 585.000 en voru 569.000 á sama tímabili árið 2007. Fjölgun varð á Suðurlandi um 16% og á höfuðborgarsvæðinu um rúm 2% milli ára. Gistinætur stóðu í stað eða fækkaði á öðrum landsvæðum, mest var fækkunin á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða, eða um 6%. Hagstofan vekur athygli á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Gisting í júní
Gistinætur á hótelum í júní síðastliðnum voru 156.200 sem er sambærilegt við júní 2007. Gistinóttum fjölgaði umtalsvert á Austurlandi, úr 6.800 í 8.500, eða tæp 26%. Einnig fjölgaði gistinóttum um rúm 7% á Suðurlandi, úr 18.300 í 19.600. Gistinóttum á öðrum landsvæðum fækkaði lítillega frá því í júní 2007. Nánar á vef Hagstofunnar